Koltunguvirkjun nefnist þessi gamla rafstöð en nú er verið að laga hana eftir skemmdirnar. Henni hefur alltaf verið vel við haldið. Þegar virkjunin var gerð á sínum tíma var framleiðslugeta hennar 12 kW sem dugði til lýsingar í íbúðarhúsi og fjósi en einnig til upphitunar að hluta. Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, lýsir því í grein fyrir nokkrum árum hversu mikil fyrirhöfn það hafi verið að byggja á þessum stað þar sem allt var unnið með handaflinu einu. „Það þurfti að grafa fyrir stöðvarhúsi, steypa upp, leggja aðrennslisrör í bratta brekku og ekki síst að hlaða stíflu úr grjóti og torfi til að mynda uppistöðulón,“ segir hann. „Þá var mikil vinna að leggja raflínu heim að bæ, um 2 km langa. Handgrafa þurfti fyrir staurunum en allur jarðvegur þar sem línustæðið lá var grófur aur og víða stutt niður á grunnvatn. Vatnsöflunin fyrir virkjunina er yfirborðsvatn í Svaðbælisheiði en einnig er veitt vatni úr nálægri uppsprettulind,“ greinir hann frá.

„Vatnslaust verður aldrei en yfirborðsvatn getur þó minnkað í þurrkum og frosti og þá er framleiðslan minni. Með því að virkja ár og læki er ekki verið að spilla náttúrunni. Þvert á móti eru smávirkjanir, ef rétt er frá þeim gengið, eins og umhverfislistaverk. Til verður lítið mannvirki sem fer jafnan vel að landslaginu og býr til orku sem er umhverfisvæn og sem kemur í veg fyrir að nota þurfi mengandi orkugjafa til þess að framkvæma þá vinnu sem þessi raforkuskammtur getur framkvæmt,“ skrifar hann.

Hekla lætur til sín taka

Túrbínan er af Pelton gerð og er þýsk að uppruna með tveimur vatnshjólum. Rafallinn var 2x200 volta jafnstraumsrafall og var álagi áður stýrt með notkun heima á bænum með ofnum og lýsingu. Þegar mjaltavélar komu til sögunnar var einnig settur mótor á sogdæluna og þurfti þá að minnka á ofnum í íbúðarhúsi á meðan mjólkað var. Rekstur virkjunarinnar gekk að mestu áfallalaust fram til ársins 1947 þegar eldgos varð í Heklu en þá barst talsvert magn af ösku og vikri fram yfir Eyjafjöll. Ekki var gætt að því að stöðva virkjunina og þar sem vikur barst með vatninu inn í rörin olli það síðar skemmdum á túrbínuhjólunum. Á einni viku eyddust skóflurnar upp og göt komu á túrbínuhúsið. Þá tóku við viðgerðir og voru nýjar skóflur steyptar í eldsmiðju heima á bænum. Hlé var gert á rafmagnsframleiðslu um nokkurra mánaða skeið.

Nýja túrbínan er vandaverk.

Árið 1960 byggði Eggert Ólafsson við stöðvarhúsið og það var stækkað um helming. Hann smíðaði líka nýja túrbínu sem var með tveimur túrbínuhjólum og steypti í eldsmiðju sinni nýjar skóflur og kom þeim fyrir á driföxli túrbínunnar. Fenginn var sams konar rafall og fyrir var. Framleiðslan jókst við þetta en þá voru komnar tvær vélasamstæður sem keyra mátti saman eða sitt í hvoru lagi. Ef bilun kom upp í annarri þá var hægt að tengja hina, sem gerði það að verkum að rekstraröryggi var mun meira.

Árið 1964 var svo rafmagn leitt um sveitina frá Sogsvirkjun sem kallað var til að byrja með Sogsrafmagnið. Þá var heimarafmagnið eingöngu notað til upphitunar á íbúðarhúsi í nokkur ár. Borað var eftir heitu vatni rétt fyrir framan stöðvarhúsið árið 1989 og fékkst þar 66 stiga heitt vatn, 1,5 l/sek. sjálfrennandi sem notað er til húshitunar. Þar með var minni þörf fyrir rafmagn frá virkjuninni sem áður hafði framleitt rafmagn til húshitunar.

Aftur hefur eldgos áhrif

Aftur áttu náttúruöflin þátt í að stöðva rekstur virkjunarinnar þegar gaus í Eyjafjallajökli 14. apríl 2010. Mikil aska lagðist yfir Svaðbælisheiði og fyllti lækjarfarvegi af ösku svo ekki var annað að gera en að hætta framleiðslu og stöðva vélarnar. Uppistöðulón virkjunarinnar fylltist af ösku og var mokað upp úr því margsinnis.

Vegna ösku í vatninu frá því í eldgosinu hefur ekki verið óhætt að gangsetja vélarnar þar sem askan spænir upp túrbínuhjólin. Tíminn hefur verið notaður til þess að smíða nýjar túrbínur og gera við rör. Virkjunin framleiðir mest 18 kW 400 volt, þriggja fasa og er tengd raforkukerfinu. Stefnt er að gangsetningu í ágúst.