„Mér fannst vanta vandaðan stefnumótavef hér á Íslandi þar sem ekki væri leyft að auglýsa eftir skyndikynnum. Vef þar sem fólk gæti fundið sér lífsförunaut, ekki síst eldra fólk,“ segir Björn Ingi aðspurður út í upphafið en vefurinn fagnaði nýverið sex árum í starfsemi. En hversu mörg pör ætli standi eftir að sex árum liðnum? „Þau eru orðin ansi mörg og það er það sem hefur gefið mér kraft að halda þessum vef úti öll þessi ár. Það er mjög gefandi þegar ég fæ tölvupósta frá notendum sem hafa fundið ástina, sérstaklega þegar þeir koma frá eldra fólki; fólki sem var einmana en hefur fundið lífsförunaut á ný. 

Það eru fjölmargar sannar frásagnir sem ég hef fengið leyfi til að birta nafnlaust á síðunni. Svo hef ég líka heyrt frá nokkrum vinum um vini þeirra sem hafa kynnst maka inni á Makaleit.is, fók sem er búið að gifta sig og eignast Makaleitar-börn, eins og ég segi stundum. 

Mér þykir þó lang vænst um tölvupósta frá eldra fólki. Mér er sérstaklega minnistæður póstur sem ég fékk rétt fyrir jólin frá konu sem var í kringum sjötugt. Hún þakkaði mér fyrir vefinn og sagði mér frá því að hún hefði hitt eldri mann og hún yrði ekki ein þessi jólin. Það var yndislegt að lesa þann póst og mér varð hugsað til hennar nokkrum dögum seinna á aðfangadagskvöld.“

Súkkulaði og ást á langa samleið

Björn Ingi hefur opnað fyrir skráningu á sérstöku námskeiði í páskaeggjagerð sem hann mun standa fyrir ásamt Halldóri Kristjáni Sigurðssyni konditor í sérstökum súkkulaðivagni við Fjörð í Hafnarfirði. „Mig hefur alltaf langað til að gefa notendum sem það vilja möguleika á að hittast í öruggu umhverfi. Ég hef í gegnum árin verið með fjölmörg hraðstefnumót og spilakvöld, sem hafa vakið mikla lukku. Ég hef undanfarið orðið var við fleiri fyrirspurnir um að fólk vilji hittast í öruggu umhverfi og því hef ég haft samband við ýmsa námskeiðahaldara um að halda námskeið sérstaklega fyrir Makaleit.is. 

Ég vil bara nota tækifærið og hvetja þá sem luma á skemmtilegu námskeiði til að vera í sambandi við mig svo ég geti boðið upp á meiri fjölbreytni. Þegar ég sá páskeggjanámskeið auglýst var það engin spurning í mínum huga að þetta væri eitthvað fyrir mína notendur, enda hefur súkkulaði og ást átt langa samleið,“ segir Björn í léttum tón. En framundan eru svo einnig matreiðslunámskeið en það fyrsta verður sennilega með áherslu á Mexico-street food.

Afslappað andrúmsloftið kom á óvart

Björn segir það ekki spurning að fólk kynnist á annan hátt í þessum kringumstæðum. „Það sem kom mér mest á óvart þegar ég byrjaði með þessa hittinga var hversu afslappað andrúmsloftið var. Ég bjóst við að fólk væri meira til baka og var pínu stressaður að andrúmsloftið yrði spennuþrungið og þvingað, en það var það alls ekki. Þegar ég var með spilakvöldin ætlaði fólk ekki að vilja að hætta að spila svo það sat bara áfram þar til kaffihúsinu þar sem við vorum með aðstöðu lokaði. Fólk hafði líka orð á því að þótt það finndi kannski ekki ástina þetta kvöldið þá hefði það átt yndislega kvöldstund saman með skemmtilegu fólki. 

Námskeiðunum er skipt upp í aldurshópa en Björn segir bestu mætinguna vera í hópnum 40 til 60 ára. „En það hefur líka verið góð mæting hjá fólki í kringum þrítugt. Ég vonast samt til að fá góða mætingu hjá þeim sem eru yfir 60 á páskaeggjanámskeiðin. Mér þykir vænst um þann hóp.“ 

Björn segir vissulega margt hafa breyst í afstöðu landans á þeim sex árum sem hann hefur haldið vefnum úti. „Þetta var pínu feimnismál fyrst. Ég held til dæmis að mömmu hafi ekkert litist á að ég ætlaði að fara að opna stefnumótavef á sínum tíma, en eftir því sem tíminn leið og hún sá hvernig vefur Makaleit.is er og hversu margir hafa fundið ástina þar, þá veit ég að hún er bara mjög stolt með þetta í dag."

Reynslusögur af Makaleit.is

Pössum saman eins og sokkapar

"Sælir verið þið. Ég fann draumadrottninguna hér á Makaleit síðastliðið sumar. Við erum rosalega ánægð saman og pössum saman eins og sokkapar, annar sokkurinn er ekkert án hins." (Karl, 63 ára)

Barn á leiðinni

"Sæl verið þið, já það passar, ég fann ástina mína á Makaleit, við erum núna búin að hittast í um 7 mánuði, byrjuð að búa saman, einnig barn á leiðinni, ég er mjög hamingjusamur, takk fyrir að frábæra vefsíðu Makaleit.is." (Karl, 42 ára)

Ég fann draumaprinsinn minn

"Takk kærlega fyrir góða síðu. Ég fann draumaprinsinn minn - allt ykkur að þakka. Við erum bæði mjög ánægð og undrandi." (Kona, 26 ára)

Einhleypir, áhugasamir og súkkulaðiþyrstir geta skráð sig á vefsíðunni makaleit.is 

Fleiri reynslusögur

https://www.makaleit.is/Users....