„Ég var alltaf að gera sama nestið og stelpan mín var orðin hundleið á því. Þess vegna skipti ég stóra samloku-nestisboxinu út fyrir box með litlum hólfum og fór að hugsa hvað ég gæti sett í það sem stelpan er hrifin af. Eitthvað meira en bara samloku og epli. Ég vildi hafa eitthvað fjölbreytt og hafa frekar lítið magn af hverju en fleiri valmöguleika,“ segir Ragnhildur.

„Barnið mitt hefur alltaf verið þannig að hún borðar með augunum. Nestið þarf að líta vel út og vera litríkt og þetta box sló í gegn hjá henni. Ég fór að setja myndir af nestinu í story á mínu persónulega Instagrammi að gamni. Svo fór fólk að spyrja mig spurninga eins og hvað væri í boxinu og hvar ég hefði fengið svona nestisbox. Ég ákvað þá að gamni mínu að gera sér Instagram-síðu fyrir þetta.“

Ragnhildur keypti hólfaskipt nestisbox og setur sitt lítið af hverju í hólfin. Hún skellir matarbitunum stundum á pinna til að gera þá aðlaðandi.

Ragnhildur segist líka hafa séð mikið af spurningum inni á mömmuhópum á samfélagsmiðlunum um hvað fólk væri að gefa börnunum sínum í nesti. Margar voru orðnar hugmyndasnauðar eins og Ragnhildur hafði sjálf verið. Hún ákvað þess vegna að sniðugt væri að deila sínum hugmyndum með öðrum.

„Einhvern veginn varð þetta mjög vinsælt,“ segir Ragnhildur. Hólfaskipta boxið sem hún notar undir nestið er frá merkinu Systema og fæst í Nettó.

„Þetta eru snilldarbox, sem eru til í ýmsum stærðum og gerðum. Þau mega fara í örbylgjuofn og svo má kaupa ýmsa aukahluti í þau, eins og litlu boxin sem ég hef sett skyr, jógúrt og grauta í.“

Fjölbreytt og gott

Ragnhildur reynir að hafa mat úr sem fjölbreyttustum fæðuflokkum í boxinu.

„Ég reyni að hafa meira af ávöxtum og grænmeti og kannski smá skyr með. Svo set ég stundum grjónagraut svona spari, þá fær hún lifrarpylsu með því hún borðar hann ekki án lifrarpylsu,“ segir Ragnhildur.

„Svo hef ég sett harðsoðið egg og stundum maískökur, súrdeigskökur og kex í hollari kantinum. Ég sendi hana ekki með Maryland í skólann,“ segir hún og hlær.

Í litlu boxin setur hún oft skyr, jógúrt eða chiagraut sem er vinsæll. Myndir/aðsendar

Ragnhildur segist líka oft nýta afganga í nestisboxið.

„Ég tek ekki langan tíma í að gera þetta. Ég geri þetta alltaf kvöldið áður upp á að eiga morgnana í rólegheitum. Ég sker líka oft niður slatta magn sem endist kannski hálfa vikuna og geymi í boxum inni í ísskáp, þá þarf ég ekki alltaf að vera að skera eitthvað niður. Þetta er voða lítil fyrirhöfn hjá mér, en ég er náttúrulega bara með eitt barn,“ segir hún.

Engin sætindi

Ragnhildur segist smátt og smátt hafa lært hvað sé best að setja í boxið fyrir dóttur sína.

„Þegar hún var í 1. bekk var maður alveg grænn í þessu. En svo eru reglur í skólanum um hvað má koma með og hvað ekki. Í sumum skólum má bara koma með ávexti og grænmeti, en í okkar skóla eru reglurnar bara þær að koma með eitthvað hollt og gott. Engin sætindi eða neitt, maður reynir bara að fylgja því,“ segir hún en bætir við að dóttur hennar lítist samt ekki alltaf á það sem hún setur í boxið.

„En þá er allavega í boði að smakka þó hún komi kannski með afganga heim. Þegar hvert og eitt er í litlu magni þá er ég ekki að henda miklu. Þetta eru kannski fjögur vínber og ég fylli ekki dolluna sem skyrið og jógúrtið fara í. Ég set kannski 3-4 matskeiðar. Það er svo mikið af einhverju öðru í boxinu að það er alveg nóg.“

Eitt af því sem hefur verið vinsælt hjá dóttur Ragnhildar er chia-grautur. Hollur og seðjandi matur sem einfalt er að útbúa.

„Ég geri chia-graut úr möndlumjólk, kókosmjólk og chia-fræjum. En ég þyrfti að finna 100% hnetulausa uppskrift því nú eru hnetur bannaðar í mörgum skólum út af hnetuofnæmi. Maður hendir þessu bara í þessi box í pínulitlu magni og svo er þetta tilbúið í boxinu daginn eftir. Þetta er mjög vinsælt.“

Ragnhildur stofnaði Instagram síðu þar sem hún deilir hugmyndum að hollu skólanesti.