Einmitt þessar hugrenningar urðu til þess að stöllurnar Brynja Birgisdóttir og Bryndís Óskarsdóttir, alltaf kölluð Dísa, settu á laggirnar námskeið í heimagerð snyrtivara. Þær hafa báðar brennandi áhuga á að efla umhverfisvitund, minnka sóun og bæta líf sitt og annarra.Brynja er snyrtifræðingur, jógakennari og markþjálfi og heldur úti vefsíðunni brynjabirg­is.‌is. Dísa er hugmyndasmiður, grafískur hönnuður, matartæknir og markþjálfi og heldur úti vefsíðunni disaoskars.com. Hún rekur ferðaþjónustu í Skjaldarvík í Eyjafirði og heldur úti klúbbnum Úr geymslu í gersemi.

„Þegar heimsfaraldurinn skall á fengu margir þurrar hendur eftir að þurfa að spritta sig í gríð og erg. Ég bjó því til uppskrift að heimagerðum rakamaska fyrir hendur og deildi með fylgjendum mínum í hópnum Þín eigin líkamsímynd. Í kjölfarið hafði Dísa samband og þá fæddist sú hugmynd að búa til fleiri heimagerðar snyrtivörur og leyfa klúbbnum hennar Úr geymslu í gersemi að njóta. Út frá samanlagðri þekkingu og einlægum áhuga okkar beggja hefur svo orðið til fallegt og efnismikið netnámskeið, Dekur fyrir alla, sem breytt getur hugsun og líðan um ókomna tíð. Á námskeiðinu kennum við þátttakendum allt frá því að núllstilla sig inn í daginn, virkja skilningarvitin og til þess að búa til sína eigin snyrtivörulínu,“ segir Brynja.

„Hugsjón okkar er að byggja upp samfélag og bjóða upp á nýjan möguleika þar sem húðvöruhönnun, umhverfisvitund, sjálfsást og sjálfsdekur er haft að leiðarljósi. Flestir eru orðnir meðvitaðri um að vanda valið þegar kemur að því að kaupa föt og húsgögn, kaupa það jafnvel notað og nýta það áfram. Markmið okkar er að minnka sóun á snyrtivörum, kenna þátttakendum að búa til vörur sem henta þeirra húðgerð, búa bara til skammta sem þeir koma til með að nota, og með ilmi sem hver og einn elskar,“ upplýsir Dísa.

Það er einfalt og spennandi að geta búið til sínar eigin snyrtivörur.

Náttúrulegt og aðgengilegt

Í snyrtifræðináminu lærði Brynja efnafræði og blöndun snyrtivara.„Flestum kemur á óvart hversu einfalt er að búa til eigin snyrtivörur sem engu að síður ná gríðarlegri virkni. Við kennum á hráefnin og hvernig þau blandast saman, hvernig húðin virkar, sótthreinsun umbúða og fleira tengt snyrtifræði. Þá notum við eingöngu náttúruleg rotvarnarefni í vörurnar, eins og vítamín, extrökt, sykrur og sterkjur. Flest er hægt að geyma inni í baðskáp eins og hefðbundnar snyrtivörur,“ greinir hún frá.

Á námskeiðinu læra þátttakendur að þekkja hráefni sem hægt er að nota í húðvörugerð og útbúa eigin eiturefnalausar snyrtivörur. Þá geta þeir valið sér innihaldsefni sem eru vegan og glútenfrí, og varla þarf að taka fram að þessar vörur eru að sjálfsögðu ekki prófaðar á dýrum.

„Við leggjum áherslu á efnisnotkun, húðumhirðu og að líða vel í eigin skinni. Það eru svo margir sem hafa áhuga á að búa til eigin húðvörur og minnka sóun í leiðinni. Kostirnir við eigin snyrtivörugerð eru líka margir. Æ fleiri hugsa um hvað þeir setja ofan í sig og á, og því skiptir máli að snyrtivörur séu náttúrulegar. Húðin er stærsta líffærið og sýgur í sig innihaldsefni snyrtivara, og með því að nota heimagerðar snyrtivörur vitum við allt um innihaldsefnin í vörunum sem við notum,“ segir Brynja.

Í snyrtivörugerðina eru eingöngu notuð hráefni innan seilingar.

„Allt hráefni er mjög aðgengilegt, svo sem jurtir, sölt, olíur og önnur virk innihaldsefni,“ upplýsir Dísa.

Meðal hráefnis sem notuð eru í snyrtivörugerðina eru kaffibaunir.
Öll hráefni eru náttúruleg og aðgengileg.

Gerð serums kom á óvart

Þátttakendur fá aðgang að kennslugátt og samfélagi þar sem húðvöruhönnun er kennd undir leiðsögn fagaðila. Í samfélagi Dekurs alla daga fá þeir einnig stuðning og fræðslu og geta deilt skoðunum og hugmyndum með öðrum sem eru á sömu vegferð.

„Þátttakendur á námskeiðinu eru alsælir með snyrtivörurnar sínar. Þeir búa meðal annars til augnserum og eru himinlifandi með áhrifin. Serum er eitt af því sem þeir áttu alls ekki von á að geta búið til. Þá gera þeir einnig vörur fyrir fætur, hendur, líkama og andlit,“ upplýsir Brynja.

Námskeiðið fer fram á netinu en þátttakendur koma hvaðanæva af landinu.

„Við hittumst á Zoom eitt kvöld í viku og þá myndast mjög skemmtileg stemning og þátttakendur kynnast vel þrátt fyrir fjarlægðina. Á þessum kvöldum geta þeir spurt faglegra spurninga, skipst á hugmyndum og komið með óskir um vörur. Það er nauðsynlegt að minna sig á að dekra við sjálfan sig í dagsins önn og við minnum á það reglulega. Viðtökurnar hafa verið frábærar og við erum ánægðar með að hafa tekið þetta skref og gert skemmtilega og gagnlega hugmynd að veruleika,“ segir Dísa. n

Dekur alla daga er á Facebook og Instagram. Sjá dekuralladaga.com