Fiskur er hollur og góður. Það er um að gera að borða sem mest af honum áður en jólasteikurnar verða í algleymingi í næstu viku. Það er bæði fljótlegt og einfalt að gera þessar fiskikökur. Þetta er frábær matur fyrir alla fjölskylduna. Uppskriftin miðast við fjóra.

Fiskikökur með graslaukssósu

800 g ýsuflök, roð- og beinhreinsuð

1 tsk. salt

2 msk. kartöflumjöl

2 dl mjólk

¼ tsk. pipar

4 msk. smátt skorinn blaðlaukur

Skerið fiskinn í litla bita og setjið í matvinnsluvél ásamt öllu því sem talið er upp. Látið vélina ganga í 15-20 sekúndur þar til allt er vel blandað saman.

Notið skeið til að forma fiskikökur, steikið á báðum hliðum í smjöri í um það bil 2-3 mínútur á hvorri hlið eftir þykkt.

Salat

2 gulrætur

1 pakki sykurbaunir

50 g heslihnetur

1 poki blandað salat

1 msk. ólífuolía

¼ tsk. salt

Þvoið og afhýðið gulræturnar. Skerið þær með ostahníf í strimla. Skerið hneturnar gróft. Blandið öllu saman í skál.

Graslaukssósa

1 ½ dl hrein jógúrt

1 msk. hvítvínsedik

1 hvítlauksrif

½ dl ferskur graslaukur

Skerið graslauk og hvítlauk mjög smátt og blandið með öllu hinu sem upp er talið. Kælið sósuna áður en hún er borin fram.

Hakkabuff er alltaf vinsæll réttur. Gott er að hafa spælt egg ofan á kjötinu.

Hakkabuff með lauk

Karbónaði eða hakkabuff er hversdagsmatur sem flestum líkar við. Uppskriftin miðast við fjóra.

500 g nautahakk

¾ tsk. salt

½ tsk. pipar

½ msk. kartöflumjöl

½ dl vatn

2 msk. smjör til steikingar

2 laukar

1 msk. smjör til steikingar

Bætið kryddi og kartöflumjöli út í hakkið ásamt vatninu og hnoðið saman. Búið til átta hakkabuffsneiðar. Hreinsið laukinn og skerið í sneiðar. Steikið laukinn þar til hann mýkist. Steikið síðan hakkabuffin á báðum hliðum á miðlungshita. Mjög gott er að hafa spælt egg með þessum rétti ásamt lauknum. Berið fram með soðnum kartöflum og salati.

Kjúklingalæri og leggir eru yfirleitt á góðu verði í verslunum.

Kryddaður kjúklingur með kúskús

Þessi kjúklingur er maríneraður með sítrónu, hunangi og cumin sem gefur honum mjög gott bragð. Uppskriftin miðast við fjóra.

4 kjúklingalæri með legg

Börkur og safi úr einni sítrónu

3 msk. ólífuolía

1 hvítlauksrif

1 tsk. paprikuduft

½ tsk. cumin

1 msk. hunang

Blandið sítrónusafa og berkinum, olíu, hvítlauk, paprikudufti, cumin og hunangi saman og veltið kjúklingnum upp úr blöndunni. Látið standa í 30 mínútur. Leggið kjúklinginn í ofnskúffu og bakið við 180°C í 30 mínútur eða þangað til hann er fulleldaður.

Kúskús

250 g kúskús

½ tsk. túrmerik

1 msk. ólífuolía

½ tsk. salt

2 ½ dl vatn

5 þurrkaðar fíkjur, skornar niður

8 þurrkaðar apríkósur, skornar niður

2 vorlaukar

50 g hakkaðar pistasíur

2 msk. fersk minta

Blandið kúskús, olíu, túrmerik og salti í stóra skál. Setjið vatn og ávexti í pott og hitið upp. Sigtið vatnið og setjið yfir kúskúsið. Geymið ávextina. Setjið plastfilmu yfir kúskúsið og látið standa í 15 mínútur eða þangað til vatnið er gufað upp. Þá er hrært í með gaffli þannig að blandan verði létt og fín. Setjið ávextina út í ásamt vorlauk, pistasíuhnetum, mintu og dressingunni. Blandið öllu vel saman.

Dressing

1 sítróna, aðeins safinn

1 dl nýkreistur appelsínusafi

1 msk. hunang

½ tsk. kóríander

¼ tsk. kanill

¼ tsk. engifer

½ tsk. salt

¼ tsk. pipar

Hrærið allt saman og setjið saman við kúskúsið. Berið fram með kjúklingnum.