Íslendingar fengu forskot á raðmorðingjahrollinn sem svífur yfir frosnum götum og túnum í sakamálaþáttunum Brot þar sem þeir runnu sitt skeið á RÚV í ársbyrjun.

Þættirnir eru þó eyrnamerktir Netflix, sem The Valhalla Murders, og undir þeim titli byrjuðu þeir að streyma víða um heim þann 13. mars og tölur úr flestum áhorfskjördæmum Netflixheimsins benda eindregið til þess að eftirspurnin eftir íslenskum krimmum sé síður en svo hverfandi.

Góð vika í útgöngubanni

Þórður Pálsson fékk grunnhugmyndina að þáttunum skömmu eftir að hann útskrifaðist úr breskum kvikmyndaskóla en fjöldi handritshöfunda kom síðar að málum með rithöfundinn Óttar M. Norðfjörð fremstan í flokki.

Óttar M. Norðfjörð fagnar góðum árangri Brots þar sem hann er innilokaður á Spáni.

Óttar býr á Spáni þar sem hann sætir útgöngubanni vegna kórónafaraldursins en getur þó fagnað í þeirri þversögn miðri að útgöngubönn og sóttkví snarauka áhorfið á efnisveitum hvers konar.

„Í dag er vika síðan að Brot kom á Netflix. Síðan þá hefur serían verið á topp 10 listum yfir mest streymda efnið í öllum heimsálfum,“ skrifaði Óttar á Facebook á föstudaginn og hélt því til haga að eftir því sem hann og hans fólk kæmist næst væri Suðurskautslandið eina undantekningin á þessu.

Risi í góðum fílíng

„Dagblöð eins og El País, The New York Times og Aftonbladet hafa mælt með henni og fólk úti um allar trissur hefur verið duglegt að tjá sig um hana,“ sagði Óttar jafnframt um þáttaröðina og bætti við að „persónulega þótti mér einna skemmtilegast þegar lítill fugl hvíslaði því að mér að David Cronenberg hafi horft á hana og fílað.“

Gagnrýnandi Decider segir góðan leik lyfta þáttunum og almenn ánægja virðist vera með að sterk og metnaðargjörn lögreglukona skuli leiða þættina.

Ekki ónýtt ef rétt reynist og haft er í huga hversu umfangsmikill Cronenberg er í kvikmyndaheiminum og áhugaverðari kimum hans sem höfundur mynda eins og Dead Ringers, Videodrome, Scanners, The Fly, The Dead Zone, Eastern Promises og A History of Violence.

Fleiri brot

Gagnrýnendur ytra virðast ekki síður sáttir en Óttar og einhverir þeirra eru þegar farnir að boða eða óska eftir framhaldi og ýmislegt bendir til þess að þeim verði að ósk sinni.

„Netflix lét útbúa nokkur plaköt fyrir seríuna í vikunni, en við fáum líklega að vita í næsta mánuði hvort sería tvö líti dagsins ljós. Þangað til krossum við fingur,“ skrifaði Óttar á föstudaginn.

Á vefnum Decider.com sem ætlað er að leiðbeina valkvíðnum sjónvarpssjúklingum um frumskóg streymsiveitanna mælir Joel Keller eindregið með því að fólk gefi The Valhalla Murders gaum. Undir þá skoðun taka 86% þeirra sem tóku þátt í könnun á vefnum.

Reykjavík, ó Reykjavík

Lokaniðurstaða Kellers er að einstakt sögusvið, fyndið handrit og góður leikur lyfti The Valhalla Murders. „Morðgátan sjálf vekur minnstan áhuga í fyrsta þættinum en það ætti að skána eftir því sem líður á.“

Keller lætur þess jafnframt getið að Ísland sé einstakt með landslag sem eigi sér engar hliðstæður og þar sé Reykjavík engin undantekning með sínar lágreistu og marglitu byggingar. Þannig að hvaða þættir sem eiga sér stað í sjaldséðum kimum borgarinnar verða sjálfkrafa áhugaverðir að horfa á.

Keller bendir á að í raun séu The Valhalla Murders nokkuð hefðbundnir sakamálaþættir sem hefðu getað verið framleiddir hvar sem er. Það sé hins vegar fagnaðarefni að þetta hafi verið gert á Íslandi. „Vegna þess að það gefur okkur tækifæri til að skoða okkur um í og kringum Reykjavík, einhverja súrrealískustu og fallegustu borg á jörðu hér.“