Mikið marg­menni var í Kringlunni í dag að taka þátt í Svörtum föstu­degi [e. Black Fri­day]. Fólk sem Frétta­blaðið tók á tali var margt mjög ein­beitt og vissi upp á hár hvað það ætlaði að versla sér. Það voru allir með grímu og gættu vel að sótt­vörnum en ein­hverjir voru ögn stressaðir vegna aukinna smita kórónu­veirunnar.

Anna Lovísa Daníelsdóttir var að versla á Svörtum föstudegi
Fréttablaðið/Ernir

Hafði skoðað á netinu áður en hún kom

Anna Lovísa Daníels­dóttir var mætt í Kringluna mjög ein­beitt að hennar sögn til að nýta sér afslætti á Svörtum föstudegi . Hún sagðist hafa varið dá­góðum tíma í að undir­búa sig í net­verslunum áður en hún kom til að versla. Hún sagði að hún hefði áður tekið þátt í Svörtum föstu­degi.

„Kannski smá“ sagði hún spurð hvort hún hefði verði stressuð að koma vegna CO­VID-19.

Rósa sagðist hafa mikið hugsað um það áður en hún kom í Kringluna hvað hún ætlaði að kaupa.
Fréttablaðið/Ernir

Ætluðu að klára jólagjafainnkaupin

Rósa var ásamt vinkonu sinni í Kringlunni til að klára jóla­inn­kaupin. Spurðar hvort þær væru þar vegna Svarts föstu­dags sögðust þær alltaf hafa ætlað að kaupa jóla­gjafir en að það væri ekki verra að það væri af­sláttur eins og í dag.

Vissuð þið hvað þið ætluðuð að kaupa áður en þið komuð?

„Já, við komum hingað mjög ein­beittar,“ sagði Rósa.

Þær segjast mikið hafa nýtt sér net­verslun til að skoða áður en þær komu frá því að kórónu­veirufar­aldurinn hófst.

Spurðar hvort þær hafi verið stressaðar að koma í Kringluna vegna CO­VID-19 sögðust þær ekki vera það.

„Við erum með grímu og sprittum okkur. Ég er vön að vera með grímu allan daginn vegna þess að ég vinn á spítalanum. Maður er öllu vanur,“ sagði Rósa að lokum.

Karl sagðist vera glaður að komast aðeins úr húsi.
Fréttablaðið/Ernir

Ekki stressaður sjálfur, en konan stressuð

Karl sagðist vera að bíða eftir konunni sinni og að þau ætluðu að nýta sér til­boðin sem eru í boði á Svörtum föstu­degi. Hann sagði að þetta væri annað árið hans á Ís­landi og að hann hefði einnig nýtt sér til­boðin í fyrra

Spurður hvort hann væri stressaður að koma í Kringluna vegna kórónu­veirunnar sagðist hann ekki vera það sjálfur en að konan hans væri það.

„Ég ætla að kaupa handa henni gjöf þannig ég sagði henni að koma með. En ég bauð henni líka að taka myndir og sýna henni og fara svo aftur inn,“ sagði Karl og hló.

Hann sagðist vera þreyttur á því að vera mikið heima og það væri fín til­breyting að koma í Kringluna.

„Þú bara þrífur á þér hendurnar og berð grímu,“ sagði Karl.

Árni sagðist bera grímu þrátt fyrir að vera búinn að fá COVID-19.
Fréttablaðið/Ernir

Búinn að fá COVID-19

Árni Long sagðist hafa mætt mjög ein­beittur í Kringluna til að versla á Svörtum föstu­degi.

Er það bara inn og út? „Já, það er þannig,“ sagði Árni sem sagðist ekki hafa tekið þátt í Svörtum föstu­degi áður.

Spurður hvort hann hefði verið stressaður að koma í Kringluna sagði hann svo ekki vera því hann væri nú þegar búinn að fá veiruna.

En þú ert samt með grímu?

„Já, fólki líður betur þannig,“ sagði Árni að lokum.

Sigurpáll ætlaði að nýta afslættina til að kaupa sér úlpu.
Fréttablaðið/Ernir

Nýtir sér Svartan föstudag til að kaupa úlpu

Sig­urpáll sagði að hann væri kominn í Kringluna á Svörtum föstu­degi til að kaupa sér úlpu.

Hann sagðist ekkert stressaður að vera kominn í Kringluna á þessum Svörtum föstudegi og að hann ætli ekki að kaupa neitt annað en úlpuna.