Íslendingar eru hrifnir af piparkökum og sannast það best þegar litið er yfir samfélagsmiðlanotkun landans í nóvember og desember og þau hundruð færslna sem snúa að piparkökuneyslu.

Saga piparkökunnar

Piparkökur tilheyra tegund kryddbrauða sem innihalda krydd á borð við kanil og engifer. Uppruninn er nokkuð á reiki. Ein sagan segir að piparkökuuppskriftin hafi borist til vestursins í kringum árið 922 með armenskum munki, Gregoríusi frá Nicopolis. Nicopolis var þar sem í dag er Vestur-Grikkland og á Gregoríus að hafa tekið uppskriftina með sér til Frakklands. Svíar hafi farið að gera piparkökur á 12. öld og í framhaldinu hafi uppskriftin borist þaðan um hin Norðurlöndin og til Bandaríkjanna.

  • Engifer kemur frá Asíu og í grein Smithsonian Magazine um málið er talið mögulegt að uppskriftin hafi borist til Evrópu með krossförum sem ferðuðust norður frá austurhluta Miðjarðarhafs á 11. öld.
  • Piparkakan sló í gegn í Evrópu á miðöldum og varð að feiknavinsælu fyrirbæri á hátíðum, svo mjög að sérstakar piparkökuhátíðir voru haldnar í nokkrum borgum í Frakklandi og á Englandi. Ógiftar stúlkur gáfu eftirlætis riddaranum sínum piparköku sem átti að færa þeim gæfu á burtreiðum og þær snæddu jafnvel piparkökukarl í þeirri hjátrú að það myndi hjálpa þeim að landa glæstum eiginmanni. Höfuðskáld Englendinga William Shakespeare orti síðan um piparkökuna árið 1598, að ef hann ætti túkall myndi hann eyða honum í piparköku.

Blámygla frá Noregi

Í Noregi er viðtekin sú hefð að snæða blámygluost ofan á kökunni, og hafa margir Íslendingar tekið upp siðinn á síðustu árum, samlöndum sínum ýmist til ánægju eða hryllings.

Hægt er að kaupa tilbúnar piparkökur í flestum stórmörkuðum, eða baka sínar eigin. Margar íslenskar fjölskyldur koma saman á þessum árstíma og skreyta kökurnar með glassúr, og er það skemmtilegt hópefli fyrir sælkera á öllum aldri. Svo má auðvitað byggja hús úr piparkökum.

Við lítum yfir brot af skemmtilegum tístum Íslendinga um piparkökuna, frá nokkurra ára tímabili. Þar má m.a. finna sniðuga aðferð til að baka litla Yoda.