Akademía skynjunarinnar setur upp Nr. 4 Um­hverfing, um­fangs­mikla sam­sýningu á Vestur­landi, í sumar. Verk 125 lista­manna verða sýnd víðs vegar um Dali, Strandir, Vest­firði og alla leið upp í Jökul­firði. Um er að ræða fjórðu út­gáfu Um­hverfingar, en sam­bæri­legar sýningar hafa áður verið haldnar á Sauð­ár­króki, Egils­stöðum og á Snæ­fells­nesi. Að Akademíu skynjunarinnar standa Anna Eyjólfs, Ragn­hildur Stefáns­dóttir og Þór­dís Alda Sigurðar­dóttir.

„Sýningin gengur út á það að sýna í lands­hlutum þar sem ekki er mikið af mynd­listar­sýningum og finna mynd­listar­menn sem eiga ein­hverja tengingu við svæðið og eru jafn­vel ættaðir þaðan. Það er svo skemmti­legt að við höfum fundið mjög mikið af fólki sem á rætur á þessum land­svæðum en svo líka bara fólk sem býr þarna og hefur búið þarna,“ segir Þór­dís.

Megin­mark­mið Um­hverfingar eru annars vegar að færa sam­tíma­mynd­list nær al­menningi með því að setja upp lista­verk í ó­hefð­bundnum sýningar­rýmum eða í tengslum við aðra menningar­starf­semi og hins vegar að stofna til sam­starfs milli lista­manna sem eru með ættar­tengsl til við­komandi lands­hluta en búa annars staðar og lista­manna sem búa á sýningar­svæðinu, sem og stuðla að sam­starfi við heima­fólk.

Verkið Í fjarlægð eftir Áslaugu Thorlacius er staðsett á Norðureyrinni í Súgandafirði.
Mynd/Aðsend

Rík fjöl­skyldu­tengsl

Að sögn Þór­dísar fékk Akademía skynjunarinnar gríðar­legan fjölda um­sókna og að lokum voru valdir 125 lista­menn á ó­líkum aldri og með mis­munandi reynslu. Á meðal þeirra eru allt frá þekktustu lista­mönnum þjóðarinnar til lista­manna sem eru að stíga sín fyrstu skref á ferlinum.

„Lista­mennirnir eru á öllum mögu­legum aldri og það eru svona grúppur í þessu sem eru með mjög sterk fjöl­skyldu­tengsl,“ segir Þór­dís.

Sem dæmi um hversu rík fjöl­skyldu­tengslin eru sýnir Ólöf Nor­dal með sonum sínum, Bergi og Hjalta Nor­dal, á Hrafns­eyri í Arnar­firði. Inga Sig­ríður Ragnars­dóttir, dóttir Ragnars Kjartans­sonar mynd­höggvara, sýnir með dóttur sinni Katrínu Agnesi Klar og frænda þeirra Ragnari Kjartans­syni mynd­listar­manni, í Grunna­vík á Jökul­fjörðum og fleiri lista­mönnum þeim tengdum, en til að sjá verk þeirra þurfa á­horf­endur að ferðast með báti.

Þá sýnir Magnús Páls­son gjörninga­lista­maður úti­verk í landi Mjóa­bóls í Hauka­dal en þrír synir Magnúsar taka einnig þátt: Tumi Magnús­son, Pétur Magnús­son, Kol­beinn Magnús­son og dóttur­dóttir Magnúsar, Þórunn Dís Hall­dórs­dóttir.

Á Umhverfingu eru verk 125 listamanna sýnd víða um Dali, Strandir og Vestfirði en sýningarsvæðið teygir sig yfir 950 kílómetra leið.
Mynd/Aðsend

Alls konar sýningar­rými

Sýningar­staðir Um­hverfingar eru ívið fjöl­breyttir en um er að ræða bæði hefð­bundin sýningar­rými á borð við söfn, ó­hefð­bundin sýningar­rými á borð við verslunar­rými, hótel, veitinga­staði og svo staði í náttúrunni.

„Það eru mjög margir sem sýna í Edin­borgar­húsinu á Ísa­firði, svo sýnum við í Lista­safni Ísa­fjarðar og þar eru meðal annars tvö verk eftir Georg Guðna Hauks­son. Við erum líka með verk eftir hann í Bolungar­vík, þaðan sem hann var ættaður. Þar erum við með mál­verk sem hafa aldrei verið sýnd áður og eru eitt­hvað af því síðasta sem hann málaði áður en hann lést,“ segir Þór­dís.

Ljóst er að um­fang sýningarinnar er mikið en til að auð­velda á­horf­endum ferða­lagið hafa skipu­leggj­endur út­búið sér­stakt kort af svæðinu sem nálgast má í gegnum QR-kóða á vef­síðu Akademíu skynjunarinnar, a­cademyoft­hesenses.is.

„Við erum með leiðar­kort á Goog­le Maps þar sem allir sýn­endur eru með sitt númer. Við höfum það þannig að það er eins og ferðin byrji í fé­lags­heimilinu Ár­bliki í Dölum, þar eru kynningar­spjöld yfir alla sýn­endur þar sem sagt er frá tengslum þeirra við þessi land­svæði,“ segir Þór­dís og bætir því við að einnig sé hægt að nálgast þessar upp­lýsingar með því að opna áður­nefndan QR-kóða.

Listamaðurinn Spessi sýnir verkið Alþýðuhetjur 2022 á vegg Edinborgarhússins á Ísafirði.
Mynd/Aðsend

Ferða­lag sumarsins

Er þetta stærsta sam­sýning sem hefur verið haldin á Ís­landi?

„Ég þori næstum að full­yrða það en maður veit aldrei hvað hefur verið gert. Þetta eru 125 mynd­listar­menn og sýnt er bæði úti og inni á mjög víð­áttu­miklu svæði. Þetta er um viku­ferð ef maður ætlar að skoða öll verkin vel. Þetta er eigin­lega bara ferða­lag sumarsins að fara vestur og skoða,“ segir Þór­dís, en ef keyrt er um allt sýningar­svæðið telur ferða­lagið rúma 950 kíló­metra.

Bækur hafa verið gefnar út sam­hliða fyrri út­gáfum Um­hverfingar og er stefnt að því að gefa út bók um nú­verandi sýningu í byrjun ágúst. Í bókinni Nr. 4 Um­hverfing 2022 skrifar Helgi Þor­gils Frið­jóns­son mynd­listar­maður um Dala­byggð, Jón Jóns­son þjóð­fræðingur um Strandir og Elísa­bet Gunnars­dóttir safn­stjóri Lista­safns ASÍ um Vest­firði.

Verk­efnið er styrkt af Upp­byggingar­sjóði Vestur­lands, Upp­byggingar­sjóði Vest­fjarða, Mynd­listar­sjóði, Dungal­sjóði og heima­fólki í þeim sveitar­fé­lögum sem sýnt er í. Nr. 4 Um­hverfing stendur yfir til 27. ágúst.