Akademía skynjunarinnar setur upp Nr. 4 Umhverfing, umfangsmikla samsýningu á Vesturlandi, í sumar. Verk 125 listamanna verða sýnd víðs vegar um Dali, Strandir, Vestfirði og alla leið upp í Jökulfirði. Um er að ræða fjórðu útgáfu Umhverfingar, en sambærilegar sýningar hafa áður verið haldnar á Sauðárkróki, Egilsstöðum og á Snæfellsnesi. Að Akademíu skynjunarinnar standa Anna Eyjólfs, Ragnhildur Stefánsdóttir og Þórdís Alda Sigurðardóttir.
„Sýningin gengur út á það að sýna í landshlutum þar sem ekki er mikið af myndlistarsýningum og finna myndlistarmenn sem eiga einhverja tengingu við svæðið og eru jafnvel ættaðir þaðan. Það er svo skemmtilegt að við höfum fundið mjög mikið af fólki sem á rætur á þessum landsvæðum en svo líka bara fólk sem býr þarna og hefur búið þarna,“ segir Þórdís.
Meginmarkmið Umhverfingar eru annars vegar að færa samtímamyndlist nær almenningi með því að setja upp listaverk í óhefðbundnum sýningarrýmum eða í tengslum við aðra menningarstarfsemi og hins vegar að stofna til samstarfs milli listamanna sem eru með ættartengsl til viðkomandi landshluta en búa annars staðar og listamanna sem búa á sýningarsvæðinu, sem og stuðla að samstarfi við heimafólk.

Rík fjölskyldutengsl
Að sögn Þórdísar fékk Akademía skynjunarinnar gríðarlegan fjölda umsókna og að lokum voru valdir 125 listamenn á ólíkum aldri og með mismunandi reynslu. Á meðal þeirra eru allt frá þekktustu listamönnum þjóðarinnar til listamanna sem eru að stíga sín fyrstu skref á ferlinum.
„Listamennirnir eru á öllum mögulegum aldri og það eru svona grúppur í þessu sem eru með mjög sterk fjölskyldutengsl,“ segir Þórdís.
Sem dæmi um hversu rík fjölskyldutengslin eru sýnir Ólöf Nordal með sonum sínum, Bergi og Hjalta Nordal, á Hrafnseyri í Arnarfirði. Inga Sigríður Ragnarsdóttir, dóttir Ragnars Kjartanssonar myndhöggvara, sýnir með dóttur sinni Katrínu Agnesi Klar og frænda þeirra Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni, í Grunnavík á Jökulfjörðum og fleiri listamönnum þeim tengdum, en til að sjá verk þeirra þurfa áhorfendur að ferðast með báti.
Þá sýnir Magnús Pálsson gjörningalistamaður útiverk í landi Mjóabóls í Haukadal en þrír synir Magnúsar taka einnig þátt: Tumi Magnússon, Pétur Magnússon, Kolbeinn Magnússon og dótturdóttir Magnúsar, Þórunn Dís Halldórsdóttir.

Alls konar sýningarrými
Sýningarstaðir Umhverfingar eru ívið fjölbreyttir en um er að ræða bæði hefðbundin sýningarrými á borð við söfn, óhefðbundin sýningarrými á borð við verslunarrými, hótel, veitingastaði og svo staði í náttúrunni.
„Það eru mjög margir sem sýna í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, svo sýnum við í Listasafni Ísafjarðar og þar eru meðal annars tvö verk eftir Georg Guðna Hauksson. Við erum líka með verk eftir hann í Bolungarvík, þaðan sem hann var ættaður. Þar erum við með málverk sem hafa aldrei verið sýnd áður og eru eitthvað af því síðasta sem hann málaði áður en hann lést,“ segir Þórdís.
Ljóst er að umfang sýningarinnar er mikið en til að auðvelda áhorfendum ferðalagið hafa skipuleggjendur útbúið sérstakt kort af svæðinu sem nálgast má í gegnum QR-kóða á vefsíðu Akademíu skynjunarinnar, academyofthesenses.is.
„Við erum með leiðarkort á Google Maps þar sem allir sýnendur eru með sitt númer. Við höfum það þannig að það er eins og ferðin byrji í félagsheimilinu Árbliki í Dölum, þar eru kynningarspjöld yfir alla sýnendur þar sem sagt er frá tengslum þeirra við þessi landsvæði,“ segir Þórdís og bætir því við að einnig sé hægt að nálgast þessar upplýsingar með því að opna áðurnefndan QR-kóða.

Ferðalag sumarsins
Er þetta stærsta samsýning sem hefur verið haldin á Íslandi?
„Ég þori næstum að fullyrða það en maður veit aldrei hvað hefur verið gert. Þetta eru 125 myndlistarmenn og sýnt er bæði úti og inni á mjög víðáttumiklu svæði. Þetta er um vikuferð ef maður ætlar að skoða öll verkin vel. Þetta er eiginlega bara ferðalag sumarsins að fara vestur og skoða,“ segir Þórdís, en ef keyrt er um allt sýningarsvæðið telur ferðalagið rúma 950 kílómetra.
Bækur hafa verið gefnar út samhliða fyrri útgáfum Umhverfingar og er stefnt að því að gefa út bók um núverandi sýningu í byrjun ágúst. Í bókinni Nr. 4 Umhverfing 2022 skrifar Helgi Þorgils Friðjónsson myndlistarmaður um Dalabyggð, Jón Jónsson þjóðfræðingur um Strandir og Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ um Vestfirði.
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands, Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Myndlistarsjóði, Dungalsjóði og heimafólki í þeim sveitarfélögum sem sýnt er í. Nr. 4 Umhverfing stendur yfir til 27. ágúst.