Maríanna hefur starfað lengi sem förðunarfræðingur, eða síðan hún útskrifaðist með hæstu einkunn árið 2000 úr förðunarskóla No name. Hún fékk verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi í snyrtifræði úr hendi forseta Íslands. Maríanna er fagurkeri í eðli sínu og á auðvelt með að draga það fallegasta fram í hverjum og einum.

„Ég hef næmt auga, mikinn metnað fyrir því sem ég geri og vanalega hætti ég ekki fyrr en allt er upp á tíu. Þetta er mikill kostur en getur verið ansi erfitt að eiga við líka þegar fullkomnunaráráttan tekur yfir. Mér þykir einstaklega áhugavert að farða brúðir fyrir stóra daginn sinn. Þessi dagur er einstakur og það má ekkert klikka. Það er undirbúningur og margt annað sem þarf að huga að fyrir þennan dag. Útlit brúðarinnar er ofboðslega mikilvægt og þar kem ég af fullum þunga með mjög ítarlegar leiðbeiningar um hvað sé mikilvægt að gera til að líta sem best út fyrir stóra daginn.“

Að hugsa heildrænt um sig

Maríanna segir miklu skipta að brúðurin hugsi vel um húð sína.

„Ekki bara nokkrum dögum fyrir brúðkaupsdaginn, heldur í marga mánuði fyrir, því eins og ég hef áður sagt gerast engin kraftaverk yfir nótt. Húðumhirða er eitthvað sem allir eiga að tileinka sér alla daga ársins, ekki bara fyrir stóra viðburði sem þessa. Ef þú vilt ná sem bestum árangri með útlitið fyrir brúðkaupsdaginn skaltu hreinsa húðina vel kvölds og morgna með hreinsimjólk, froðu eða hreinsivatni, djúphreinsa hana 1-2 sinnum í viku með kornakremi, nota augnkrem, dagkrem, næturkrem og serum en það er lykill að fallegri húð. Aðalgaldurinn er samt að hugsa vel um sig heildrænt, borða hollan og góðan mat, sleppa sykri og miklu salti. Óhófleg áfengisneysla og reykingar eru algjörlega á bannlista, hreyfing og hugleiðsla er líka mjög mikilvægur þáttur í að halda sér í sem bestu líkamlegu og andlegu formi. Það vill verða að það sé mikil spenna og álag sem fylgir því að plana brúðkaupsdaginn og það er nú einu sinni svo að álag og streita kemur strax fram í húðinni. Því er mjög mikilvægt að ná að róa taugarnar, skipuleggja sig vel og vandlega því það er ekki mjög gaman að vera úttauguð og búin á því andlega og líkamlega þegar dagurinn rennur loks upp,“ segir Maríanna.

Hér gefur að líta prufu brúðkaupsförðun Maríönnu á fögru andliti Agnesar sem er í senn fáguð og sveipuð fallegum ljóma með náttúrulegum blæ. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Góður svefn nóttina fyrir brúðkaup lykillinn

Aðspurð segir Maríanna mikilvægt að undirbúa húðina vel svo brúðarförðunin komi sem best út.

„Það er brýnt að hitta brúðina nokkrum vikum fyrir brúðkaup, til að fara yfir það hvernig við sjáum fyrir okkur að förðunin verði, meta hvað fer best við kjólinn, hárgreiðsluna, skartgripina og blómin, því allt þarf að renna saman í eina heildarmynd svo útkoman verði sem allra fegurst. Undantekningarlaust geri ég prufuförðun því það er einu sinni þannig að það má ekkert klikka á sjálfan brúðkaupsdaginn, þá er gott að vera búin að gera prufu til að vera fullviss um hvaða farða og liti skal nota og hvers lags förðun fer andliti brúðarinnar. Í þessum prufutíma ráðlegg ég brúðinni hvað skal gera til að líta sem allra best út á brúðkaupsdaginn, hvað skal forðast og svo framvegis. Það má til að mynda ekki undir neinum kringumstæðum byrja að nota nýjar snyrtivörur nokkrum dögum fyrir brúðkaup eða vaxa á sér andlitið því þú veist aldrei hvernig húðin bregst við, ekki nota brúnku í andlit og ekki lita á sér augabrúnirnar deginum fyrir. Góður nætursvefn nóttina fyrir brúðkaupið er lykill að góðu útliti daginn eftir, að passa að nota snyrtivörur sem eru sérstaklega fyrir þína húðgerð og muna að það er ekki þess virði að stressa sig um of því streitan kemur í bakið á okkur og bitnar á útlitinu.“

Vill að húðin ljómi á brúðkaupsdaginn

Agnes Kr. Gestsdóttir er byrjuð að undirbúa brúðkaup sitt og tilvonandi eiginmanns síns, Alfreðs, sem er 20. ágúst næstkomandi. Hún er búin að bóka Maríönnu til að sjá um brúðarförðunina og er undirbúningur kominn á fullt skrið.

Agnes á og rekur fæðubótarverslunina Leanbody ásamt tilvonandi manni sínum. Þau eiga samtals fimm börn og hafa verið saman í rúmlega sjö ár. „Fyrir tæpu ári vorum við í fríi á Tenerife þegar Alfreð bað mín við ströndina. Stóri dagurinn var ákveðinn strax og hefur undirbúningur fyrir brúðkaupið, sem verður þann 20. ágúst, staðið síðan,“ segir Agnes full tilhlökkunar.

Hvaða væntingar hefur þú þegar kemur að förðun fyrir stóra daginn?

„Ég hef þær væntingar að förðunin haldist vel á út daginn, komi vel út á myndum og sé fremur náttúruleg með áherslu á að draga fram það besta. Þess vegna treysti ég Maríönnu best fyrir þessu mikilvæga verkefni.“

Finnst þér nauðsynlegt að fá ráðgjöf um umhirðu húðarinnar?

„Já, algjörlega, ég tel mjög mikilvægt fyrir verðandi brúði að fá faglega ráðgjöf hjá snyrtifræðingi um hvað hentar hennar húð best. Val á réttum húðvörum getur skipt öllu. Þess vegna er mikilvægt að fá rétta greiningu á sinni húðgerð og faglegt val á vörum sem henta best. Ég vil að húð mín ljómi og sé sem oftast fyllt af raka, og sérstaklega á stóra daginn.“

Farði sem hentar réttum húðtón

Aðspurð finnst Agnesi miklu máli skipta að fara í prufuförðun fyrir stóra daginn. „Því þá fer fram ákveðið litaval, til dæmis á augun út frá mínum augnlit og farði sem hentar mínum húðtón og hvernig augnhár ég vil hafa. Það veitir mér líka öryggi að sjá væntanlega útkomu. Einnig finnst mér vert að fá góð ráð frá Maríönnu, til að mynda varðandi hvað sé gott að forðast til að verða sem minnst þrútin um augun.“

Þegar kemur að brúðarförðun, þarf hárgreiðslan að fylgja með í undirbúningnum?

„Já, ég tel það afar mikilvægt. Ég er búin að veltast fram og til baka með það hvernig ég vil hafa hárið og er að fara í prufugreiðslu númer þrjú á næstu dögum. Ég er með frekar sítt hár þannig að það eru margar útfærslur sem koma til greina. En heildarútlitið skiptir mig miklu máli, að greiðslan, kjóllinn og förðunin passi vel saman. Ég hef mikið notað Pinterest til að fá hugmyndir, það hefur hjálpað mér mikið.“

Undirbúningurinn hefur gengið vonum framar og Agnesi finnst skipta máli að njóta undirbúnings og hafa brúðgumann með í för.

„Nú er að síga á seinni hlutann í undirbúningnum og þetta er búið að vera einstaklega gaman og mjög fljótt að líða. Fyrir verðandi brúðhjón mæli ég með að njóta þessa tíma og vera dugleg að gera hlutina saman. Eins og til dæmis að fara í danstíma eða í ræktina.“