Guðni Elís­son sendi ný­lega frá sér sína aðra skáld­sögu sem ber heitið Brim­hólar. Guðni segir bókina ein­blína á til­tekin vanda­mál í ís­lensku sam­fé­lagi.

„Hún fókuserar til dæmis á þjóðirnar tvær sem búa í þessu landi og það hversu lítil sam­ræða er í raun á milli þessara hópa. Hún skoðar stétta­skiptingu og af­leiðingarnar af mis­skiptingu auðsins í landinu. Hún horfir á blinduna sem ein­kennir sýn okkar á annað fólk. Ég vísa þarna til dæmis á einum stað í ljóð eftir Czesław Miłosz þar sem segir að blá­þyrillinn geti breytt heilli á í undur. Öðrum þræði er ég að glíma við spurninguna hvers vegna við erum ekki að horfa til þeirra merki­legu og miklu menningar­strauma sem fylgja inn­flytj­endum,“ segir Guðni.

Fram­and­leikinn mikil­vægur

Brim­hólar fjalla um ís­lenskan strák og pólska stelpu sem kynnast í litlu þorpi úti á landi. Pól­verjar eru stærsta þjóðar­brotið hér á Ís­landi en sam­gangur á milli þeirra og Ís­lendinga hefur þó verið æði tak­markaður í ís­lensku bók­mennta­sam­fé­lagi þar til ný­lega.

„Ég held að það sé alveg gríðar­lega mikil­vægt að við opnum fyrir þessar raddir. Vegna þess að með þessum pólsk-ís­lensku rit­höfundum, ef við ein­blínum bara á Pól­verjana en það eru rúss­neskir höfundar hérna og fleiri, með þeim kemur auð­vitað á­kveðinn skilningur og á­kveðinn fram­and­leiki inn í ís­lenska um­ræðu. Fram­and­leikinn er gífur­lega mikil­vægur fyrir bók­menntirnar, það eru meira að segja til hug­tök sem snúast um það í bók­mennta­fræðinni eins og fram­and­gerving,“ segir Guðni.

Brimhólar er önnur skáldsaga Guðna Elíssonar.
Kápa/Lesstofan

Ljóðin draga þau saman

Spurður um hvernig hann myndi lýsa bókinni segir Guðni nauð­syn­legt að stíga var­lega til jarðar til að opin­bera ekki frá­sagnar­fléttuna.

„Hún fjallar um fjöl­skyldu sem dvelst í stóru húsi sínu, Brim­hólum, á ströndunum rétt fyrir utan lítið fiski­þorp á Vest­fjörðum. Þau dvelja þarna sumar­langt, faðir móðir og tvö syst­kini. Pabbinn er í rauninni sæ­greifinn á staðnum þó hann sé lítið þar. Strákurinn rekst illa, hann hefur verið þarna einu sinni áður sem krakki en snýr aftur í húsið stuttu fyrir 17 ára af­mælis­daginn sinn. Þegar hann er búinn að dvelja þarna í ein­hverjar vikur þá kynnist hann pólskri stelpu sem er í sjósundi með eldri systur hans. Þau á­kveða að hittast alltaf einu sinni í viku og lesa saman bækur. Hún fær að velja fyrst og velur handa honum stafla af bókum eftir pólsk ljóð­skáld, svo gerast alls konar hlutir og strákurinn situr uppi með ljóðin.“

Í bókinni má finna fjöl­margar vísanir í pólskan, enskan og ís­lenskan kveð­skap.

„Ég er að nota ljóðin sem þau lesa sem leið til að draga þau saman og mynda tengingar á milli þeirra. En um leið að draga upp ein­hvers konar menningar­mun, gjána sem er á milli þeirra og erfið­leikana sem fylgja sam­bandinu, því þetta sam­band heldur á­fram næstu árin. Allt fram í sögu­lok.“

Horft yfir kirkju­garðinn

Guðni starfar sem prófessor í al­mennri bók­mennta­fræði við Há­skóla Ís­lands og því ljóst að hann er vel að sér í heims­bók­menntunum. Spurður um hvort hann leiti mikið í sér­svið sitt þegar hann skrifar skáld­skap segir Guðni:

„Það hefur stundum verið sagt að allar bók­menntir verði að gera tvennt ef þær eigi að hafa vægi. Þær þurfi að hvíla í þeim sam­tíma sem þær fjalla um. Þær þurfi að leita leiða til þess að opna okkur skilning á sam­tímann og það sem er að gerast í honum en um leið þurfi þær að hvíla í bók­mennta­leika sínum, í for­tíðinni og arfinum sem þær rísa úr. Þannig að sögur gerist á tveimur plönum í senn, þær eigi í sam­ræðu við sam­tímann og við hefðina. Það má segja að þessi bók geri það, hún á í sam­ræðu við hefðina. Ég er að reyna svo­lítið að brjóta upp ís­lenska frá­sagnar­hefð.“

Kemst maður þá ekkert hjá því að fjalla um bók­mennta­söguna?

„Já, ef þú setur niður penna og ætlar þér að skrifa bók eða skáld­skap þá er textinn alltaf til á undan þér. Þá reynir á þig að búa þér til pláss í honum. Þú stendur í raun alltaf við hliðina á kirkju­garðinum og horfir yfir vegginn, hvort sem kirkju­garðs­veggurinn er í­myndaður eða ekki.“

Við eigum ekki bara að reyna eftir fremsta megni að kenna út­lendingunum okkar ís­lensku, við eigum að verða svo­litlir út­lendingar sjálfir.

Búum í af­mörkuðum heimi

Síðasta bók Guðna, Ljós­gildran, var mjög pólitísk bók þar sem þjóðar­sál Ís­lands lá undir. Guðni segir Brim­hóla einnig vera pólitíska bók, þótt sjónar­hornið sé nú af­markaðra.

„Þetta er saga sem horfir á mis­skiptingu auð­magnsins á Ís­landi, horfir á það hvernig við höfum svona hægt og ró­lega hólfað af okkar sam­fé­lag. Við búum í af­mörkuðum, lokuðum heimum, þar sem er lítil hreyfing á milli. Við erum blind á um­hverfi okkar og við erum blind á þá mögu­leika sem liggja í krafti þess þegar tveir menningar­straumar renna saman. Því það er oft þannig í menningar­lífinu að mesta gróskan verður þar,“ segir hann.

Guðni segir að Ís­lendingar ættu að fagna þeirri fjöl­breytni sem berst hingað til lands með inn­flytj­endum.

„Við eigum að fagna þessum framandi menningar­straumum. Við eigum ekki bara að reyna eftir fremsta megni að kenna út­lendingunum okkar ís­lensku, við eigum að verða svo­litlir út­lendingar sjálfir, eigum að vera dug­leg við að leggja okkur eftir því að skilja, að ein­hverju leyti, þá menningar­heima sem koma með þeim.“