Guðni Elísson sendi nýlega frá sér sína aðra skáldsögu sem ber heitið Brimhólar. Guðni segir bókina einblína á tiltekin vandamál í íslensku samfélagi.
„Hún fókuserar til dæmis á þjóðirnar tvær sem búa í þessu landi og það hversu lítil samræða er í raun á milli þessara hópa. Hún skoðar stéttaskiptingu og afleiðingarnar af misskiptingu auðsins í landinu. Hún horfir á blinduna sem einkennir sýn okkar á annað fólk. Ég vísa þarna til dæmis á einum stað í ljóð eftir Czesław Miłosz þar sem segir að bláþyrillinn geti breytt heilli á í undur. Öðrum þræði er ég að glíma við spurninguna hvers vegna við erum ekki að horfa til þeirra merkilegu og miklu menningarstrauma sem fylgja innflytjendum,“ segir Guðni.
Framandleikinn mikilvægur
Brimhólar fjalla um íslenskan strák og pólska stelpu sem kynnast í litlu þorpi úti á landi. Pólverjar eru stærsta þjóðarbrotið hér á Íslandi en samgangur á milli þeirra og Íslendinga hefur þó verið æði takmarkaður í íslensku bókmenntasamfélagi þar til nýlega.
„Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að við opnum fyrir þessar raddir. Vegna þess að með þessum pólsk-íslensku rithöfundum, ef við einblínum bara á Pólverjana en það eru rússneskir höfundar hérna og fleiri, með þeim kemur auðvitað ákveðinn skilningur og ákveðinn framandleiki inn í íslenska umræðu. Framandleikinn er gífurlega mikilvægur fyrir bókmenntirnar, það eru meira að segja til hugtök sem snúast um það í bókmenntafræðinni eins og framandgerving,“ segir Guðni.

Ljóðin draga þau saman
Spurður um hvernig hann myndi lýsa bókinni segir Guðni nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar til að opinbera ekki frásagnarfléttuna.
„Hún fjallar um fjölskyldu sem dvelst í stóru húsi sínu, Brimhólum, á ströndunum rétt fyrir utan lítið fiskiþorp á Vestfjörðum. Þau dvelja þarna sumarlangt, faðir móðir og tvö systkini. Pabbinn er í rauninni sægreifinn á staðnum þó hann sé lítið þar. Strákurinn rekst illa, hann hefur verið þarna einu sinni áður sem krakki en snýr aftur í húsið stuttu fyrir 17 ára afmælisdaginn sinn. Þegar hann er búinn að dvelja þarna í einhverjar vikur þá kynnist hann pólskri stelpu sem er í sjósundi með eldri systur hans. Þau ákveða að hittast alltaf einu sinni í viku og lesa saman bækur. Hún fær að velja fyrst og velur handa honum stafla af bókum eftir pólsk ljóðskáld, svo gerast alls konar hlutir og strákurinn situr uppi með ljóðin.“
Í bókinni má finna fjölmargar vísanir í pólskan, enskan og íslenskan kveðskap.
„Ég er að nota ljóðin sem þau lesa sem leið til að draga þau saman og mynda tengingar á milli þeirra. En um leið að draga upp einhvers konar menningarmun, gjána sem er á milli þeirra og erfiðleikana sem fylgja sambandinu, því þetta samband heldur áfram næstu árin. Allt fram í sögulok.“
Horft yfir kirkjugarðinn
Guðni starfar sem prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og því ljóst að hann er vel að sér í heimsbókmenntunum. Spurður um hvort hann leiti mikið í sérsvið sitt þegar hann skrifar skáldskap segir Guðni:
„Það hefur stundum verið sagt að allar bókmenntir verði að gera tvennt ef þær eigi að hafa vægi. Þær þurfi að hvíla í þeim samtíma sem þær fjalla um. Þær þurfi að leita leiða til þess að opna okkur skilning á samtímann og það sem er að gerast í honum en um leið þurfi þær að hvíla í bókmenntaleika sínum, í fortíðinni og arfinum sem þær rísa úr. Þannig að sögur gerist á tveimur plönum í senn, þær eigi í samræðu við samtímann og við hefðina. Það má segja að þessi bók geri það, hún á í samræðu við hefðina. Ég er að reyna svolítið að brjóta upp íslenska frásagnarhefð.“
Kemst maður þá ekkert hjá því að fjalla um bókmenntasöguna?
„Já, ef þú setur niður penna og ætlar þér að skrifa bók eða skáldskap þá er textinn alltaf til á undan þér. Þá reynir á þig að búa þér til pláss í honum. Þú stendur í raun alltaf við hliðina á kirkjugarðinum og horfir yfir vegginn, hvort sem kirkjugarðsveggurinn er ímyndaður eða ekki.“
Við eigum ekki bara að reyna eftir fremsta megni að kenna útlendingunum okkar íslensku, við eigum að verða svolitlir útlendingar sjálfir.
Búum í afmörkuðum heimi
Síðasta bók Guðna, Ljósgildran, var mjög pólitísk bók þar sem þjóðarsál Íslands lá undir. Guðni segir Brimhóla einnig vera pólitíska bók, þótt sjónarhornið sé nú afmarkaðra.
„Þetta er saga sem horfir á misskiptingu auðmagnsins á Íslandi, horfir á það hvernig við höfum svona hægt og rólega hólfað af okkar samfélag. Við búum í afmörkuðum, lokuðum heimum, þar sem er lítil hreyfing á milli. Við erum blind á umhverfi okkar og við erum blind á þá möguleika sem liggja í krafti þess þegar tveir menningarstraumar renna saman. Því það er oft þannig í menningarlífinu að mesta gróskan verður þar,“ segir hann.
Guðni segir að Íslendingar ættu að fagna þeirri fjölbreytni sem berst hingað til lands með innflytjendum.
„Við eigum að fagna þessum framandi menningarstraumum. Við eigum ekki bara að reyna eftir fremsta megni að kenna útlendingunum okkar íslensku, við eigum að verða svolitlir útlendingar sjálfir, eigum að vera dugleg við að leggja okkur eftir því að skilja, að einhverju leyti, þá menningarheima sem koma með þeim.“