Það vakti heilmikla athygli þegar sást til bandaríska gamanleikarans Will Ferrell á síðustu Eurovision keppni i Lissabon. Aðspurður sagðist hann vera mikill aðdáandi söngvakeppninnar en eiginkona hans hin sænska Viveca Pauline hafi kynnt hana fyrir honum.

Nú hefur það komið í ljós að Will Ferrell er að gera kvikmynd um söngvakeppnina í samstarfi við Netflix en það er jafnframt þeirra fyrsta samstarfsverkefni. Aðdáendur söngvakeppninnar bíða spenntir eftir því að sjá hvernig Eurovision lítur út í augum spaugarans Will Ferrell.

Sjá frétt Pitchfork um samstarf Netflix og Will Ferrell, hér.

Hin sænska Viveca kynntist Will Ferrell löngu áður en frægðarsól hans hóf að rísa. Hjónin hafa verið gift frá árinu 2000 hafa heilmikil tengsl við Svíþjóð en Viveca er fædd í Gautaborg og eiga þau jafnframt sumarhús í Svíþjóð. Parið á þrjá syni,Magnus fæddan 2004,Mattias fæddan 2006 og Axel fæddan 2010.

Fjölskyldan er lítið sem ekkert í sviðsljósinu og er lífsstíll þeirra nokkuð ólíkur því sem að þekkist í Hollywood. Viveca sem er einnig leikkona hefur brugðið fyrir í nokkrum mynda hans en hún fæst fyrst og fremst við listaverkasölu og er þekktur uppboðshaldari í Los Angeles.