Blóð­rauður sjór er titill nýjustu glæpa­sögu Lilju Sigurðar­dóttur. „Kveikjan að hug­myndinni er hið dular­fulla norska Hagen-mál þar sem kona milljarða­mærings hvarf og ekkert hefur spurst til hennar síðan, nema hvað lausnar­gjalds­kröfur bárust. Í minni sögu, sem gerist á Ís­landi, kemur stöndugur við­skipta­jöfur heim til sín og allt er í rúst í eld­húsinu, konan horfin og blað með lausnar­gjalds­kröfu á eld­hús­borðinu þar sem er krafist tveggja milljóna evra og tekið fram að eigin­konan verði drepin fari hann til lög­reglunnar.“

Spurningar sem þarf að svara

Blóð­rauður sjór er sjálf­stæð saga en í henni birtast þó aðal­per­sónur sem voru einnig í Hel­kaldri sól, síðustu bók Lilju, þau Á­róra, sem vinnur við að finna falið fé, og Daníel rann­sóknar­lög­reglu­maður.

„Sagan er þriller en stendur nær saka­mála­sögunni en ég hef áður farið að því leyti að málið í byrjun kveikir spurningu sem síðan þarf að svara. Ég hef undan­farið verið upp­tekin af höfundum eins og Shari Lapena og Harlan Coben og hugsan­lega má finna ein­hver á­hrif þaðan. Kaflarnir í bókinni eru stuttir og skipt er ört um sjónar­horn milli per­sóna.“

Vinnur að hand­rita­gerð

Lilja hefur undan­farin ár sent frá sér eina glæpa­sögu á ári. Hún segist ekki vera viss um að það náist jólin 2021 vegna vinnu við kvik­mynda- og sjón­varps­hand­rit. „Ég var í hópi sem vann hand­rit fyrir Kötlu, sjón­varps­þætti úr smiðju Baltasars Kormáks sem verða sýndir á Netflix. Ég er að vinna að hand­riti að sjón­varps­þáttum gerðum eftir Sjálf­stæðu fólk i með Baltasar Kormáki og svo eru að fara í gang hand­ritas­krif að sjón­varps­þátta­seríu upp úr Gildrunni sem Sigurjón Sig­hvats­son fram­leiðir.

Svo er ég með í stóru al­þjóð­legu verk­efni sem er leyndar­mál enn sem komið er. Þetta er mjög skemmti­legt því ég er sjón­varps­fíkill. Þegar ég skrifa bækurnar er ég ein í mínum hugarheimi og ræð málum frá upp­hafi til enda en í sjón­varps­hand­rita­gerð vinn ég með öðru fólki þar sem þarf að sam­ræma skoðanir. Þetta tvennt er gott í bland. Vonandi næ ég svo að senda frá mér bók á næsta ári, það kemur í ljós,“ segir Lilja.

Upp­lestur Lilju
Ár­lega hefur Bóka­safn Kópa­vogs boðið upp á bóka­kynningar í húsa­kynnum sínum en nú í ár mun bóka­um­fjöllun færast yfir á netið innan við­burðaraðanna Menning á mið­viku­dögum. Í dag, mið­viku­daginn 28. októ­ber, mun rit­höfundurinn Lilja Sigurðar­dóttir lesa upp úr bók sinni Blóð­rauður sjór og ræða um hana við Maríönnu Clöru Lúthers­dóttur, bók­mennta­fræðing og leik­konu. Þátturinn verður sendur út kl. 12.15 í gegnum Face­book-síðu Menningar­húsanna.