Eiginkona körfuboltakappans Miles Bridges stígur fram og segir frá grófu ofbeldi sem hún hefur orðið fyrir af hendi hans.

„Ég hata að það sé komið að þessu, en ég get ekki þagað lengur,“ skrifaði Mychelle Johnson í færslu á Instagram og hélt áfram: „Ég hef leyft einstaklingi að eyðileggja heimilið mitt, misnota mig og valda áfalli í lífi barnanna okkar.“

Johnson birti myndir af áverkunum í færslunni, þar sem hún er með sýnilega marbletti víðs vegar á líkamanum, blóðugt eyra og rispur í andliti. Myndirnar má sjá í færslu hennar hér að neðan en vakin er athygli á því að þær geta vakið óhug.

Þá sýnir hún einnig mynd af læknisskýrslu sem staðfestir að hún hafi orðið fyrir ofbeldi.

Samkvæmt vef TMZ flúði Bridges af heimili sínu eftir ofbeldið og var kærður fyrir verknaðinn þegar hann gaf sig fram við lögregluna í Los Angeles síðastliðinn miðvikudag.

Stuttu síðar var Bridges þó látinn laus gegn tryggingu upp á 130 þúsund dollara, rúmar 17 milljónir króna.

Þau hafa verið saman síðan árið 2016 og eiga tvö ung börn.