Emma Portner, eiginkona leikarans Elliot Page, kveðst vera stolt af því að maðurinn hennar sé trans og hrósar honum óspart í færslu á Instagram. Portner sagði tilveru Elliots vera gjöf í sjálfu sér og hvatti fylgjendur sína til að styðja við baráttu trans fólks.
Óskarsverðlaunahafinn Elliot Page tilkynnti í gærkvöldi opinberlega að hann væri trans. Page, sem er hvað þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndinni Juno, sagði að hann vildi ekki lengur vera ávarpaður með fornafninu Ellen og bað um að vera kallaður hann eða hán.
Heppinn að geta verið hann sjálfur
„Mér finnst ég vera heppinn að vera að skrifa þetta,“ sagði Elliot sem kvaðst fagna því að vera kominn á þennan stað í lífi sínu. „Ég finn fyrir yfirþyrmandi þakklæti fyrir allt ótrúlega fólkið sem hefur stutt mig í gegnum þetta ferli,“ skrifaði Elliot. „Ég get varla tjáð mig um hversu ótrúlegt það er að elska sjálfan mig loks nóg til að gangast við mínu sanna sjálfi.“
Elliot og Potner gengu í hjónaband í janúar árið 2018. Þau biðja bæði um að fólk virði einkalíf þeirra á þessum tíma breytinga.