Eiður Smári Guðjohnsen gat ekki annað en öskrað af gleði og stolti þegar Ísland vann sannfærandi 4-0 sigur þegar liðið fékk Liechtenstein í heimsókn á Laugardalsvöll í áttundu umferð í undankeppni HM 2022 í gær.

Synir fótboltagoðsagnarinnar, bræðurnir Andri Lucas Guðjohnsen og Sveinn Aron Guðjohnsen, náðu því merkilega afreki að leika saman í fremstu víglínu í leiknum.

Fjórða mark Íslands var beint úr Guðjohnsen-smiðjunni. Sveinn Aron Guðjohnsen átti skalla fyrir Andra sem kláraði af mikilli yfirvegun framhjá markverði Liechtenstein.

Eiður Smári segist hafa reynt eins og hann gat að hafa hemil á tilfinningunum.

„Ég er bara þjálfarinn á hliðarlínunni að reyna mitt best að sýna ekki tilfinningarnar,“ skrifaði hann á Twitter og deildi myndbandi af markinu.