Svanur Már Snorrason komst að því eftir nokkra eftirgrennslan að lítið sem ekkert fræðilegt efni hefur verið skrifað um Kilju Egils Helgasonar, einhvern vinsælasta og langlífasta menningarþátt íslenskrar sjónvarpssögu.

Hann ákvað þá að bregðast við þessum skorti með BA-ritgerð sinni í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og hefur nú, af sömu ástæðu, gefið hana út í litlu kveri, kiljunni Egils saga og Kiljunnar.

„Ég var bara búinn að vera að velta fyrir mér hinu og þessu til að fjalla um og fór eitthvað að pæla í Agli og Kiljunni og fann enga ritgerð eða neitt mikið um þáttinn og Egil,“ segir Svanur sem ákvað að „rýna aðeins í þáttinn og kallinn“.

Bækur á biðlista

Rannsóknarspurningin sem Svanur leitast við að svara er hvort bókmenntaþátturinn Kiljan í umsjón Egils Helgasonar sé áhrifamikill þáttur varðandi bókmenntalíf Íslendinga.

Svanur Már fékk grun sinn um mikil áhrif Egils Helgasonar og Kiljunnar staðfestan þegar hann skrifaði B.A. ritgerðina Egils saga og Kiljunnar.

„Jahá, ég get svo sannarlega staðfest það,“ segir hann og hlær. „Ég vann á bókasafni í níu ár og þar tókum við öll eftir því að á fimmtudögum, daginn eftir þáttinn, streymdi fólk inn á bókasafnið bara til þess að leita að bókum sem höfðu verið til umfjöllunar í Kiljunni kvöldið áður,“ segir Svanur og heldur áfram:

„Og eiginlega bara allt, sem Egill eða gagnrýnendur þáttarins fjölluðu um, var lánað út og oftast komu biðlistar þannig að maður renndi svo sem í grun að þessi þáttur væri mjög áhrifamikill.“

Yfirgnæfandi áhrif

Svanur ræðir í ritgerðinni meðal annars við bókaútgefendur og verslunarstjóra hjá Eymundsson og þar ber allt að sama brunni og í bókasafninu. „Ef bók fær umfjöllun í Kiljunni þá lánast hún út. Hún selst. Og ef hún fær góða gagnrýni þá er þetta bara smellur. Bara topp tíu,“ segir Svanur og bætir við að þátturinn gnæfi þannig algerlega yfir bókmenntalífinu á Íslandi í dag hvað áhrif og völd varðar.

Þannig að tilfinningin á bókasafninu var ekki alveg út í bláinn?

„Alls ekki. Hún er alveg staðfest.“

Alþýðuhetja í menningunni

Svanur bendir á að Kiljan byrjaði í Sjónvarpinu 2007. „Ég held það sé þrettánda árið núna og þetta er sem sagt sá menningarþáttur sem hefur verið samfellt lengst á dagskrá RÚV,“ segir Svanur og bendir á að þetta sýni greinilega að Egill nái til almennings.

„Það er einmitt það sem Egill hefur. Hann er svona einhvers konar venjulegur alþýðumaður. Hann talar ekkert eins og einhver fræðingur. Hann talar mannamál og almenningur hrífst af honum. Hann er ekki fjarlægur fræðimaður. Hann er nálægur alþýðumaður,“ segir Svanur sem í ritgerðinni talar um Egil sem „ómenntuðu“ sjónvarpsstjörnuna.

„Hann er vinsæll og svona í það heila er voðalega lítið hægt að finna einhverja mikla gagnrýni á hann eða eitthvað svoleiðis. Flestum þykir hann fara vel með völdin sem hann hefur og það er vel af kallinum látið.“

Toppurinn að komast í Kiljuna

Svanur skrifaði ritgerðina um Egil og Kiljuna með Úlfhildi Dagsdóttur sem leiðbeinanda en gefur hana nú út í vasabroti. „Mig langaði bara mjög mikið til þess af því að það er einmitt ekkert svona efni, eins og þessi ritgerð, til um þennan vinsæla þátt og um þennan vinsæla þáttarstjórnanda.

Ég er að vonast til þess að fólk hafi áhuga á sögu Kiljunnar og Egils og þess vegna langaði mig að prófa að gefa þetta út.“

Og væri þetta þá ekki fullkomnað ef ritgerðin yrði tekin til umfjöllunar í Kiljunni?

„Jú, það væri dálítið sniðugt að einhver skoðaði eða gagnrýndi bók um Kiljuna í Kiljunni,“ segir Svanur og hlær. „Það væri ekkert leiðinlegt.“