Egill Helgason, stjórnandi Silfursins á RÚV, velti glasi um koll þegar hann var að afkynna gesti sína í fasta liðnum vettvangur dagsins í Silfrinu í morgun. Egill hóf þáttinn með umræðum þar sem mætt voru Björn Ingi Hrafnsson, Friðjón R. Friðjónsson, Karen Kjartansdóttir og Björn Þorláksson til þess helst að ræða yfirvofandi borgar- og sveitastjórnarkosningar og síviðvarandi covid ástandið.

Þegar Egill var að afkynna gesti sína um miðbik þáttarins vildi ekki betur til en svo að hann velti drykkjarmáli um koll þannig að úr lak gamalt leyndarmál. „Jæja sullaði ég?“ sagði Egill sem hélt ró sinni og gerði umsvifa- og fumlaust játningu sem hann gaf til kynna, með léttleikandi látbragði, að best væri að færi ekki hátt: „Það er kók í þessu glasi. Usssssss.“

Leyndarmálið bókstaflega lak út. Egill drekkur diet-kók í Silfrinu.
Mynd/Coca Cola Company

Egill og viðmælendur hans virtust síðan geta sammælst um að þarna hefði fyrir slysni verið ljóstrað upp um gamalt leyndarmál.

„Áratugaleyndarmál, ég drekk kók í Silfrinu,“ sagði Egill áður en hann vatt sér beint í auglýsingar og síðan í samtal við Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri, um málefni Úkraínu, Rússlands og NATO.