Þetta er Nissan Leaf með 30 kílóvattstunda batteríi. Ég bý við Hvalfjörð og keyri oft í bæinn og heim aftur. Rúnturinn hjá mér til og frá vinnu er rétt um 90 km,“ segir Sævar og bætir við að hann noti bílinn líka í alla aðra snúninga.

„Það er miklu betra að keyra rafmagnsbíl. Hann er kraftmeiri og ljúfari í akstri. Það er bara allt frábært við þetta.“ Sævar tekur þó fram að það séu tveir bílar á heimilinu. „Ég er líka með einn jeppa sem maður þarf að eiga þegar maður býr svona eins og ég geri. En ég hreyfi hann ekki ef ég kemst hjá því.“

Sævar segir að jeppann, sem er dísilbíll, noti hann helst í lengri ferðir. „Batteríið í rafmagnsbílnum er ekki nema 30 kWh sem dugar yfirleitt allt sem ég þarf. En við verstu aðstæður, þegar það er frost og rok þá kemst ég kannski ekki nema 120-130 kílómetra. Maður þarf svolítið að hugsa þetta út frá því.“

Sævar bendir þó á að þróunin í rafbílum sé hröð og nýrri bílar eins og Kia e-Niro og Hyundai Kona séu með tvöfalt stærra batterí. „Á þannig bíl kæmist ég alveg til Akureyrar eða Ísafjarðar ef ég nennti að stoppa einhvers staðar á leiðinni og hlaða í svona 45 mínútur.“

Það bilar aldrei neitt

Rafbíllinn hentar Sævari annars fullkomlega í langflestar ferðir. „Eins og ég segi: Ég keyri venjulega um 90 kílómetra á dag til og frá vinnu. Ég þarf stundum að snúast eitthvað í bænum umfram það, en ég þarf aldrei að fara í hraðhleðslu nema það sé eitthvað mjög sérstakt. Þannig að ég bara sting í samband þegar ég kem heim. Bíllinn er tilbúinn á morgnana og ég keyri þangað sem ég þarf að fara. Það bilar aldrei neitt ólíkt bensínbílum. Þetta er svo einfalt, maður þarf ekki að fara í smurningu eða kaupa bensín. Ég er búinn að keyra á þessum tveimur árum 67.000 kílómetra og það eina sem hefur verið skipt um í bílnum eru frjókornasíur,“ segir Sævar greinilega hæstánægður með bílinn.

Sævar telur helsta vandann sem gæti skapast, ef aukning á notkun rafbíla verður mikill, vera framboð á hraðhleðslu. „Segjum að þú ætlir á rafbílnum þínum til Akureyrar og ætlir að stoppa kannski í Staðarskála eða Varmahlíð og hlaða. Þú gætir lent í að þurfa að bíða í klukkutíma eftir að komast að í hleðslu af því einhverjir tveir aðrir hafa fengið sömu hugmynd og þú og þurfa að hlaða á leiðinni. Það gengur ekki. Það þarf að geta treyst á að komast í hleðslu strax.“

Þar sem hagnaður af sölu á hraðhleðslu er lítill miðað við bensín- eða dísilolíusölu þá telur Sævar bensínstöðvarnar ekki sjá sér eins mikinn hag í henni. „Þú verður að stoppa og kaupa bensín en ég stoppa ekki og kaupi hraðhleðslu nema í mesta lagi á mánaðarfresti og þá borga ég mjög lítið. Þess vegna held ég að ríkið verði að koma að uppbyggingu hraðhleðslustöðva með öflugum hætti ef rafbílavæða á allt landið.“

Sævar er sannfærður um að hann muni halda sig við rafbíl þegar kemur að því að endurnýja bílinn. „Þetta er allt annað líf. Ímyndaðu þér að keyra inn í bílskúrinn þinn á snyrtilegum rafmagnsbíl. Það er engin olía, engin fýla. Mann langar bara ekkert í bensínbíl eða dísilbíl eftir að hafa prófað rafbíl.“