Hatari kom, sá og sigraði í undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva með laginu Hatrið mun sigra. Ögrandi og öðruvísi framkoma bæði utan sviðs og innan var fljót að vekja athygli utan landsteinanna.

Eftir að í ljós kom að Eurovis­ion í maí næstkomandi færi fram í Ísrael fór af stað undirskriftasöfnun um að sniðganga keppnina í mótmælaskyni við framkomu Ísraelsmanna við Palestínumenn. Sú varð ekki raunin en margir tónlistarmenn sem hafa tengst Eurovision, þar á meðal Páll Óskar Hjálmtýsson og Daði Freyr Pétursson, neituðu að taka þátt.

Meðlimir Hatara gáfu það út að þeir myndu nota dagskrárvaldið til að gagnrýna stefnu Ísraelsmanna. Hljómsveitin hefur fengið á sig þó nokkra gagnrýni, bæði frá þeim sem telja Hatara ekki vera að gera Palestínumönnum neinn greiða sem og þeim sem telja skilaboðin anga af gyðingahatri. Eru margir á þeirri skoðun að stjórnmál eigi ekki heima í Eurovision frekar en á Ólympíuleikunum, enda sé það bannað í reglum keppninnar.

Fréttablaðið fékk til liðs við sig Viktor Orra Valgarðsson, stjórnmálafræðing og áhugamann um Eurovision, og finnska Eurovision-sérfræðinginn Thomas Lundin til að fara yfir þau skipti sem Eurovision fór frá því að vera fjörug fjölskylduskemmtun yfir í háalvarlega pólitík.

Finnland 2006 og Ísland 2019

Thomas er mjög hrifinn af framlagi Íslands í ár og líkir því við sigurlag Finna árið 2006. „Ísland er ekki að ganga of langt. Alls ekki. Við áttum þessa sömu umræðu í Finnlandi vorið 2006 eftir að Lordi vann finnsku keppnina. Margir héldu að okkur yrði vísað úr keppninni eða við lentum í neðsta sæti! En við vitum öll hvernig það endaði, með fyrsta sigri Finna í Eurovision. Í dag elska allir Lordi,“ segir Thomas.

Viktor segir að Lordi hafi ekki verið skot á trúarsannfæringu fólks. „Ég held að flestir hafi upplifað satanísku vísanirnar sem sprell, enda var öll sviðsetningin og textasmíðin frekar kómísk og skemmtileg,“ segir Viktor. Finnar hafi frekar verið að skjóta á tepruskap og siðavendni. „Páll Óskar var sennilega brautryðjandinn í þeirri viðleitni árið 1997!“

Portúgal 2017

Salvador Sobral, sem sigraði fyrir hönd Portúgals árið 2017, olli nokkru fjaðrafoki fyrir að nota dagskrárvaldið til að gagnrýna aðgerðir Evrópulanda gagnvart hælisleitendum.

„Slæm framkoma Evrópulanda gagnvart flóttamönnum og hælisleitendum hefur þó verið veruleikinn síðan fyrir 2017 og ekki margir aðrir þátttakendur sem hafa minnst á það á þeim tíma. Ég varð reyndar ekki var við að það hefði mikil áhrif á gengi hans, ég held að fólk hafi aðallega hrifist af laginu sjálfu, flutningnum og listrænni, óvenjulegri týpu flytjandans,“ segir Viktor.

Það olli reyndar meira fjaðrafoki þegar Sobral skaut á aðra keppendur fyrir innihaldsrýra tónlist. „Það kom illa við þá sem fylgjast með Eurovision að tala illa um popptónlist, miklu frekar en mannréttindabrot. Það var líka kannski ekki gott dæmi um göfugan sigurvegara að skjóta svona á aðra keppendur einmitt á því andartaki sem hann var að taka við verðlaunum.“

Georgía 2009 

Það hefur komið fyrir að lögum sé vísað úr keppni fyrir pólitísk skot á gestgjafann. „Árið 2009, þegar lokakeppnin fór fram í Moskvu, valdi Georgía lagið „We don’t wanna put in“, sem var augljóst skot á Pútín Rússlandsforseta,“ segir Thomas. Viktor bætir við: „Georgíska sjónvarpið hafði áður tilkynnt að þau myndu sniðganga keppnina í ljósi mannréttindabrota Rússa og brota gegn alþjóðalögum, sneru þeirri ákvörðun síðan við og sendu lag en þá þótti stjórnendum textinn of pólitískur. Georgísk stjórnvöld þvertóku fyrir það og neituðu að breyta laginu og því fór sem fór.“ Thomas segir að þarna hafi Georgía gengið of langt. Hann útilokar hins vegar að Hatara verði vísað úr keppni. „Georgía gekk of langt og laginu var vísað úr leik. En það mun ekki koma fyrir ykkur, ég lofa því!“ 

Ísrael 2009 

Framlag Ísraels árið 2009 snerti á málefnum Ísraels og Palestínu. Lagið „There must be another way“ var flutt af söngkonunum Noa, sem er ísraelskur gyðingur, og Miru Awad, sem er arabískur Ísraeli. Viktor rifjar upp að lagið var ákall til friðsælli og mannúðlegri sambúðar gyðinga og araba á svæðinu. 

„Sumir gagnrýndu lagið fyrir að breiða yfir ömurlegt ástandið í Palestínu en mér fannst það fallegt, því þetta var ákveðin viðleitni og með því að kalla á réttlæti bentu þær um leið á óréttlætið sem ríkir á þessum slóðum.“ Lagið komst upp úr undankeppninni og lenti í sjöunda sæti.

Austurríki 2014

Sigurlag Conchitu Wurst árið 2014, „Rise like a phoenix“, var ekki pólitískt í þröngum skilningi en textinn, karakterinn og framkoman höfðu samt nokkuð augljósa vísun í réttindabaráttu hinsegin fólks. Viktor segir að margir hafi talið að laginu væri beint sérstaklega gegn rússneskum stjórnvöldum. „Eurovision er náttúrulega að stórum hluta hátíð hinsegin fólks og rússnesk stjórnvöld eru ömurlega íhaldssöm og stjórn þeirra er harðstjórn sem brýtur kerfisbundið á mannréttindum hinsegin fólks,“ segir Viktor. Það megi því velta fyrir sér að þar sem samskipti Evrópulanda við Ísrael séu betri en við Rússa þá verði þeir frekar fyrir barðinu á gagnrýni. „Conchita staðfesti þá túlkun svo að minnsta kosti rækilega á blaðamannafundi eftir sigurinn, þar sem hún beindi orðum sínum til Pútíns og sagði „við erum óstöðvandi“. Vonum að hún hafi rétt fyrir sér.“

Úkraína 2016

Thomas og Viktor eru á báðum áttum um hvort pólitísk skilaboð almennt hjálpi til við að sigra í Eurovision. „Ég hefði sennilega svarað því neitandi fyrir keppnina árið 2016, þegar Jamala frá Úkraínu vann með lagi um nauðungarflutninga Rússa á Krímtöturum sem þau héldu fram að væri bara vísun í sögulega atburði en auðvitað talaði það mjög inn í átökin milli Úkraínu og Rússlands á Krímskaga. Og þó það sé erfitt að fullyrða um slíka hluti virtist mér alveg augljóst að lagið græddi verulega á því að fólk veitti því atkvæði til að styðja þann málstað,“ segir Viktor.

Thomas vill ekki segja að póli­tísk skilaboð hjálpi beinlínis til við að vinna keppnina. „En nú, þegar flest lönd þurfa að komast upp úr undankeppninni þá hjálpar það svo sannarlega til að vera öðruvísi. Lagið vinnur kannski ekki, en skilaboð geta komið þjóðum inn í lokakeppnina og fengið helling af stigum.“

Viktor er viss um að lag Úkraínu hafi sigrað á þeim forsendum. „Þó lagið hafi verið ágætt og vel sungið þá fannst mér persónulega allavega erfitt að sjá að það hefði eitthvað í rússneska eða ástralska lagið að gera frá tónlistarlegu sjónarhorni.“

Thomas bætir við: „Oftast er sigurvegarinn eitthvert atriði sem öllum líkar við og allir skilja. Það fær atkvæði frá öllum – ungum og gömlum, gagnkynhneigðum og hinsegin fólki, körlum og konum, austur og vestur, norður og suður. En er samt öðruvísi á einhvern hátt, þannig að fólk muni eftir því þegar kemur að því að kjósa.“

Portúgal 1974

Framlag Portúgals árið 1974, „E Depois do Adeus“, var eins ópólitískt og það gerist, en Viktor bendir á að það sé hægt að nota slík lög í pólitískum tilgangi. Þegar lagið var spilað útvarpinu að kvöldi 25. apríl var það merki uppreisnarmanna að hefja undirbúning að því að steypa herforingjastjórn landsins af stóli. Byltingin var án blóðsúthellinga og var kölluð Nellikubyltingin vegna þess að almenningur í Portúgal þakkaði hermönnum fyrir að skjóta ekki á uppreisnarmennina með því að stinga nellikum í byssuhlaup þeirra. Er þetta líklegast eina skiptið sem Eurovisionlag hefur verið notað í þessum tilgangi. Lagið sjálft fékk aðeins þrjú stig.

Af hverju Ástralir?

Viktor er nú staddur í Ástralíu. Ástralir tóku fyrst þátt árið 2015 á sextíu ára afmæli keppninnar, til stóð að það yrði aðeins einu sinni en Ástralir hafa alltaf snúið aftur. Náðu meira að segja öðru sæti árið 2016. „Ég man frá því ég var lítill að hafa heyrt um að Eurovision væri sérlega vinsælt í Ástralíu, þau fengu stundum að vera með skemmtiatriði í hléunum og svona, svo mér fannst bara mjög skemmtilegt að þau fengju að vera með á afmælisárinu. Ekki skemmdi fyrir að framlagið þeirra var býsna gott þá og hefur oftast verið síðan þá!,“ segir Viktor, sem staddur er í Canberra.

Margir hafa klórað sér í höfðinu yfir hvers vegna land hinum megin á hnettinum sé að taka þátt í Eurovision. „Ástralirnir hér virðast margir vera með ansi evrópska sjálfsmynd og sum þeirra segja það hreint út. Stundum þegar ég spyr þau hvaðan þau séu segjast þau vera t.d. að hluta þýsk og hluta bresk en svo kemur í ljós að fjölskyldan þeirra hefur búið í Ástralíu í marga ættliði! Svo hjartað og sjálfsmynd Ástrala er nátengd Evrópu.“

Viðtalið birtist í helgarblaði Fréttablaðsins sem verður dreift á morgun.