Það getur verið freistandi að umkringja barnið öllum regnbogans litum til þess að virkja litaskynjun þess sem mest. En í sannleika sagt þá heillast nýburar mun meira af sterkum andstæðum tónum, eins og er að finna í svarthvítu mynstri, heldur en björtum litum.

Börn byrja að þekkja muninn á ljósi og myrkri á meðan þau eru enn í móðurkviði. Stuttu eftir að þau fæðast kunna þau því best að meta bækur og annað með svörtu og hvítu mynstri og myndum.

Þau sjá þó ekki í svart-hvítu, líkt og margir virðast halda. Ung börn eru vissulega fær um að sjá liti, en heili þeirra er oftast ekki í stakk búinn til þess að skynja þá jafnskýrt og heili eldri barna og fullorðinna. Rauður er þó allra fyrsti grunnliturinn sem börn læra að skynja, rétt nokkurra vikna gömul.

Svartur og hvítur eru á öndverðum meiði á litrófinu og því er vænlegra að velja myndefni fyrir yngstu börnin sem nýtir þessa liti til þess að ná athygli þeirra, fremur en daufari liti.

Litir og orð

Heimurinn er litríkur staður og með hverjum degi skynjar barnið meira og meira af honum. Börn byrja að skynja liti á milli tveggja og fjögurra mánaða gömul að meðaltali, en það er þó afar einstaklingsbundið. Til að byrja með eru þau fær um að sjá muninn á grænum tónum og rauðum.

Mælt er með því að hvetja þroska barnsins til litaskynjunar með því að láta það leika sér með leikföng og bækur með sterkum litum. Á meðan barnið er að vaxa er gott að segja nöfn hlutanna og liti þeirra í umhverfi barnsins til að hjálpa því að þjálfa orðaforðann og orðtengsl. Einnig er gott að börn leiki sér með litrík leikföng. Það getur verið allt frá litríkum kubbum, vaxlitum, regnbogakubbum eða hvað annað sem er í björtum litum. Þá kunna börn betur að meta grunnliti og liti regnbogans, eins og rauðan, appelsínugulan, grænan, bláan og fleiri, heldur en fínlegri litatóna.

Um fimm mánaða aldurinn eru flest börn byrjuð að skynja megnið af litrófinu. Enn skynja þau litatóna þó ekki jafn vel og fullorðnir, og aðrir lykilþættir sjónarinnar eru að þróast á sama tíma. Það eru dýptarskyn, samhæfing augna og líkama og samsjón, eða samhæfing beggja augna til að sjá einn hlut.

Litblinda barna

Það getur verið flókið að vita nákvæmlega hvort barnið sjái alla litina á þessum aldri því þau eru einnig að læra að tala á sama tíma. Það er í raun ekki fyrr en barnið fer að tala og segja orð sem lýsa litum, að það verður fyllilega hægt að vita hvað þau sjái. Því getur verið erfitt að koma almennilega auga á ef börn eru litblind.

Þegar barnið er orðið eldra, segjum um 4-6 ára, þá eru nokkrar vísbendingar sem geta bent til þess að barn geti verið litblint.

  • Barn notar röng orð til að lýsa lit á hlut (sóleyin er rauð, en ekki gul).
  • Barn litar myndir með röngum litum (málar himininn fjólubláan og grasið appelsínugult).
  • Barn á erfitt með að greina á milli rauðs og græns vaxlitar til dæmis.
  • Barn er með óvenju góða nætursjón, einstaklega gott lyktarskyn eða er ljósnæmt.
  • Barn á erfitt með að greina á milli lita í litlu ljósi eða þegar margir litir eru saman í einu.
  • Barn sýnir ekki áhuga á að lita í litabækur.
  • Barn fær höfuðverk við að horfa á rauðar myndir eða texta á grænum bakgrunni.