Harmóníku­leikarinn Jónas Ás­geir Ás­geirs­son mun flytja fyrsta ís­lenska harmóníku­kon­sertinn sem saminn er fyrir Ís­lending á tón­leikum kammer­sveitarinnar Elju. Jónas er, á­samt Elju, að leggja upp í tón­leika­ferða­lag um landið og loka­tón­leikarnir verða í Há­teigs­kirkju, 7. ágúst. Harmóníku­kon­sertinn sem frum­fluttur verður á tón­leika­ferða­laginu er eftir Finn Karls­son.

„Þetta er þriðji ís­lenski harmóníku­kon­sertinn og sá fyrsti sem er saminn fyrir Ís­lending. Fyrsta harmóníku­kon­sertinn samdi Þuríður Jóns­dóttir fyrir Norð­manninn Geir Draugs­voll, sem flutti hann á Myrkum músík­dögum árið 2005. Núna í janúar var síðan frum­fluttur, einnig á Myrkum músík­dögum, kon­sert eftir Huga Guð­munds­son og Daninn Andreas Bor­rega­ard frum­flutti hann,“ segir Jónas.


Harmóníkan blómstrar

Spurður af hverju svo lítið hafi verið samið af harmóníku­kon­sertum hér á landi segir Jónas: „Það hefur skort klassískt menntaða ís­lenska harmóníku­leikara til að fylla upp í þetta skarð í tón­smíða­sögunni. Það sama gildir um krefjandi ein­leiks­verk. Það hefur þó ýmis­legt annað verið samið fyrir harmóníku, minni kammerverk og því um líkt.

Harmóníkan er til­tölu­lega nýtt klassískt fyrir­bæri, við getum talað um 60 ár á heims­vísu og hér á Ís­landi eru árin enn færri. Á síðustu tveimur ára­tugum hefur hún jafnt og þétt verið tekin í sátt og er farin að blómstra.“


Hljóð­ritar kon­sertinn

Um harmóníku­kon­sert Finns segir Jónas: „Finnur er ein­stak­lega laginn við að semja fyrir hljóð­færa­leikara og skrifar mjög skýrt. Hann tekur efni­við alls staðar frá, eins og lag­línur sem kitla nostalgíu­taugarnar í honum og setur þær í allt annað sam­hengi. Hann veit ná­kvæm­lega hvað hann vill“.

Jónas mun hljóð­rita harmóníku­kon­sertinn í Reykja­vík með Elju, fyrir geisla­disk. Auk þess verða á disknum verk eftir Atla Ingólfs­son og nýtt ein­leiks­verk eftir Þuríði Jóns­dóttur, á­samt áður ó­upp­götvuðum verkum eftir Atla Heimi Sveins­son og Þor­kel Sigur­björns­son. Um verk Atla og Þor­kels segir Jónas: „Þetta eru verk sem engar heimildir finnast um í opin­berum skjölum. Verk Þor­kels eru tvö, annað fyrir tvær harmóníkur og slag­verk og hitt fyrir raf­magns­gítar, harmóníku og slag­verk. Engar heimildir eru til um að verkin hafi verið flutt. Svo er eitt verk eftir Atla Heimi, samið fyrir harmóníku og sópran, sem engar heimildir finnast um. Ég upp­götvaði þessi verk þegar þau komu ný­lega inn á Tón­verka­mið­stöðina. Það er spennandi fyrir mig að flytja þessi verk frá stólpum ís­lenskrar tón­listar­sögu.“


Vildi gera eitt­hvað öðru­vísi

Jónas byrjaði ungur að læra á harmóníku. „Það var vegna þess að ég vildi gera eitt­hvað að­eins öðru­vísi en vinir mínir sem lærðu á til dæmis fiðlu og píanó. Þá­verandi kennari minn, Guð­mundur Samúels­son, var og er mjög á­huga­samur um að koma harmóníkunni á fram­færi sem klassísku hljóð­færi og smitaði mig af því,“ segir Jónas

Jónas var að ljúka masters­námi í Kaup­manna­höfn og vinnur nú í fram­halds­gráðu í sam­spili þar, á­samt tveimur öðrum Ís­lendingum, Jóni Þor­steini Reynis­syni og Helgu Krist­björgu Guð­munds­dóttur, en öll spila þau á harmóníku.”