Spessi 1990-2020 er yfirlitssýning á verkum ljósmyndarans Spessa, Sigurþórs Hallbjörnssonar, sem nú stendur yfir í Myndasal Þjóðminjasafnsins. Í tilefni sýningarinnar kemur út vegleg bók um langan og farsælan feril hans.

Spessi fæddist á Ísafirði árið 1956. „Tólf ára gamall var ég farinn að taka myndir á kassavél. Svo týndi ég myndavélinni og tók ekki myndir í mörg ár. Það var ekki fyrr en ég var í Kaupmannahöfn fyrir 40 árum að ég keypti mér góða notaða myndavél og fór aftur að taka myndir. Tíu árum síðar fór ég í hollenskan skóla þar sem lögð var áhersla á að ekki skipti máli hvort mynd væri falleg eða ljót, hugmyndin á bak við hana skipti öllu máli.

Eftir eitt ár í skólanum kom ég heim og fékk vinnu á Pressunni og var eini ljósmyndarinn á blaðinu. Það er hröð vinna á blöðum, ég var ekki vanur þannig vinnu og vann alltaf langt fram á kvöld. Ég var lengi að taka myndir og notaði ekki flass og var alltaf með þrífót. Eftir tvö ár ákvað ég að fara aftur í skóla. Ég sótti um hjá nokkrum skólum og lét fylgja með sýnishorn af verkum mínum og fékk stundum svarið: Þú kannt þetta, af hverju viltu fara í skóla? Einn af skólunum var í Hollandi og þar þóttu myndirnar mínar ekkert sérstakar. Ég valdi þann skóla og útskrifaðist þaðan eftir eitt ár. Síðan hef ég unnið við ljósmyndun og yfirleitt gert það sem ég vil.“

Fallegur hráleiki

Myndir Spessa eru hráar, þar er sannarlega ekki verið að fótósjoppa. Af hverju velur hann raunsæið? „Ég vil segja sannleikann, sýna hlutina eins og þeir eru. Hráleikinn er fallegur í sjálfum sér. Stundum kem ég inn á einhvern stað, finn stemningu og tek myndir þar sem ég reyni að fanga andrúmsloftið.“

Má ekki segja að það sé sterk samfélagsrýni í myndum þínum? spyr blaðamaður og fær svarið: „Ég var einu sinni spurður að því hvort ég væri pólitískur ljósmyndari. Ég sagði nei og svo sagði ég já. Þegar ég sagði nei áttaði ég mig á því að ég væri í eðli mínu pólitískur. Það er út af uppruna mínum. Ég ólst upp hjá afa og ömmu sem voru fátækt verkafólk á Ísafirði. Ég skynjaði óréttlætið strax sem krakki og fór að rífa kjaft út af því. Síðan hef ég verið uppreisnarmaður í mér.“

Á sýningunni er fjölbreytt úrval af myndum Spessa. Þar á meðal eru portrettmyndir af Degi Sigurðarsyni, Yoko Ono, Thor Vilhjálmssyni, Rósku, Megasi og fjölmörgum öðrum. Myndaröð er af sjómönnunum sem voru að hætta á sjónum, sumir eftir hálfrar aldar sjómennsku, og önnur af konum á Ísafirði. Enn ein myndaröð sýnir áhöld sem notuð voru í búsáhaldabyltingunni.

Myndaröð af áhöldum sem voru notuð í búsáhaldabyltingunni.

COVID-myndaröð

Nýjasta ljósmyndaverkefni Spessa er COVID-myndaröð en þar sjást portrett af fólki fyrir vestan sem veiktist af COVID. „Ég fór vestur á Ísafjörð og var þá búinn að þaulhugsa verkefnið. Fyrsta COVID-bylgjan fyrir vestan var harkaleg og mig langaði til að taka myndir af fólkinu sem hafði veikst. Ég ákvað að hafa bakgrunninn fölljósbláan, eins og liturinn er á einnota grímunum. Þessi myndaröð er köld skrásetning. Þarna er alls konar fólk, á öllum aldri, en það eina sem það á sameiginlegt er að hafa veikst af COVID.“

Spessi segist ekki stilla fólki upp við myndatöku. „Þegar maður segir fólki ekki hvernig það eigi að vera í myndatökunni þá brýst út hjá því ákveðið óöryggi sem mér finnst mjög spennandi að fanga á mynd. Þetta er dálítið eins og að leiða fólk út á svell á skautum og sleppa síðan af því hendinni. Þá kemur karakterinn í ljós.“

Portrett af fólki fyrir vestan sem veiktist af COVID er nýjasta ljósmyndaverkefni Spessa.