Hans Steinar var fjölmiðlamaður í 28 ár þar sem hann vann bæði í útvarpi og sjónvarpi hjá Sýn, Stöð 2 og RÚV en í febrúar 2018 var hann ráðinn upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Spurður hvað hafi orðið til þess að hann hafi ákveðið að yfirgefa fjölmiðlana og taka við starfi upplýsingafulltrúa segir Hans, sem oftast er kallaður Hansi:

„Árið 2018 þegar ég hætti í fjölmiðlunum var ég búinn að hafa á bak við eyrað í tvö til þrjú ár að athuga með að prófa eitthvað annað. Ég var búinn að vera nánast samfellt í fjölmiðlum frá árinu 1989. Ég var í útvarpinu alveg til ársins 2006. Á þeim tímapunkti var ég orðinn hljóðmaður á NFS sálugu. Ég var gjörsamlega að mygla í þessu starfi og ég sagði við Hilmar Björnsson, sem þá var yfirmaður á gömlu Sýn: „Ég er alveg að mygla inni í þessu hljóðherbergi. Vantar þig ekki íþróttafréttamann?“ Úr varð að ég fékk starfið og ég var fljótur að aðlagast hlutunum enda öllu vanur eftir útvarpsvinnuna. Á þessum tíma var maður óhræddur að takast á við hlutina og ég þorði að láta bara vaða.

Hans ásamt þátttakanda í verkefni SOS í Sómalílandi, atvinnueflingu unga fólksins. Þessi ungi maður var atvinnulaus eins og 75% ungmenna undir þrítugu í landinu. Hann dreymir um að læra bifvélavirkjun og er á leið í slíkt nám.

Orðinn sjónvarpsmaður er maður allt í einu kominn undir smásjá og eins og fjölmiðlafólk þekkir þá fær maður bæði hrós og skít yfir sig. Ég held að skrápurinn minn hafi ekkert verið svo þykkur eftir allt saman. Smátt og smátt át þetta mann að innan og undir lokin var mér farið að líða illa. Ég hætti að þora og þurfti oft að hugsa mig tvisvar um í sjónvarpslýsingum, það var hik á mér í hinu og þessu, óreglulegur vinnutími og álag. Þótt íþróttafréttamannsstarfið sé gefandi, fjölbreytt og skemmtilegt þá var mig farið að langa að ganga út á þessum tímapunkti,“ segir hann.

Og Hans Steinar lét slag standa. Hann ákvað að segja upp hjá RÚV. „Einhvern daginn sem ég var langt niðri þá rakst ég á auglýsingu fyrir tilviljun þar sem auglýst var eftir upplýsingafulltrúa fyrir SOS Barnaþorpin. Umsóknarfresturinn var að renna út þennan dag. Það var annað hvort að hrökkva eða stökkva. Ég henti inn umsókn og hafði ekki gert starfsumsókn í fjölda ára. Ég hreppti hnossið. Ég vissi að ég var að taka mikla áhættu. Ég var að fara út í bransa sem ég hafði aldrei séð fyrir mér að fara út í. En það kom heldur betur á daginn að þetta var rétt ákvörðun,“ segir Hans Steinar.

Hans Steinar færði börnum í SOS Barnaþorpinu í Addis Ababa íslensku landsliðstreyjuna að gjöf frá KSÍ í heimsókn í byrjun árs 2020.

Öðlaðist nýtt líf

Hansi segir að hann hafi fengið mikið svigrúm til að læra og kynna sér hlutina og gera starfið að sínu.

„Þessi tími frá því ég tók við starfinu hefur verið ótrúlega gefandi og lærdómsríkur. Ég hef alveg náð að endurnýja sjálfan mig. Allt í einu komst ég í nýja rútínu með venjulegri dagvinnu og þetta gaf mér tækifæri til að láta gamlan draum rætast. Ég kláraði stúdentsprófið með glans frá Háskólabrú Keilis og með því náði ég heldur betur að endurnýja hausinn og uppfæra mig. Ég verð bara að segja það hreint út að ég öðlaðist nýtt líf með því að breyta um starf.“

Hans er nýkominn heim frá Eþíópíu og Sómalílandi en af og til heimsækir hann þessi lönd og fleiri þar sem SOS Barnaþorpin eru með sína skjólstæðinga.

„Á hverju ári hittust við á alþjóðaskrifstofu SOS í Vínarborg sem er mjög mikilvægt. SOS Barnaþorpin á Íslandi eru í fjárhagslegri ábyrgð fyrir verkefnum í Eþíópíu, Sómalíu, Sómalíulandi, Rúanda, Tógó og Malaví. Þessi verkefni eru styrkt að stærstum hluta af utanríkisráðuneytinu og inni í þeim samningum eru kvaðir um eftirlitsferðir. Við notum þessar ferðir til efnisöflunar svo við getum sagt frá árangri og gangi mála í þessum verkefnum. Ég tek viðtöl við skjólstæðinga og myndir, myndbönd og fleira. Þetta er mjög mikilvægt til að geta sýnt hvað við erum að gera og séum ekki bara einhver samtök að taka við peningum.

Við erum til að mynda með verkefni í Sómalíu og Sómalílandi sem snýr að því að efla ungt fólk til atvinnuþátttöku, kenna því að sækja um vinnu, þjálfa að efla sjálfstraust þeirra. Stærsti vandinn er sá að ungt fólk er ekki með sjálfstraust til að þekkja styrkleika sína og sækja um vinnu eða stofna til atvinnurekstrar. Það er 75% atvinnuleysi ungmenna undir þrítugu á þessum stöðum og þessi ungmenni eru fórnarlömb. Hryðjuverkahópar notfæra sér þetta ástand og sækja í atvinnulaus ungmenni. Þess vegna er svo mikilvægt að koma ungmennum í einhverja rútínu og þetta verkefni sem við erum að fjármagna þar er ótrúlega mikilvægt. Þetta er bara svona lýsandi dæmi um starf SOS. Í grunninn er starfsemi SOS Barnaþorpanna að taka að sér munaðarlaus börn og veita þeim nýja fjölskyldu og heimili. Þetta er stærsta varan sem samtökin eru þekkt fyrir. Starfsemi SOS, sem eru 74 ára gömul alþjóðleg samtök, hefur þróast út í það að vinna umbótastarf í þágu barna og ungmenna,“ segir Hans Steinar.

Frá heimsókn í fjölskyldueflinguna í Eþíópíu á fyrstu stigum verkefnisins árið 2019. Þessi kona gat ekki séð fyrir börnum sínum vegna sárafátæktar en fjölskyldueflingin kom til bjargar.

Hann segir að annað verkefni nefnist fjölskylduefling. „Við erum með þrjú þannig verkefni í þremur löndum; Malaví, Eþíópíu og Rúanda. Þá erum við að hjálpa barnafjölskyldum í sárafátækt að standa á eigin fótum svo að fjölskyldurnar leysist ekki upp. Þá hjálpum við foreldrunum að hjálpa sér sjálfir. Við erum ekki að gefa þeim fisk í matinn sem dugir í kvöld heldur veiðistöng sem þau geta notað og byrjað að afla sér tekna, hjálpa þeim að búa til rekstur eða tekjur með ýmsum tækjum og tólum sem samtökin hafa búið til í sínu módeli. Ég var einmitt í Eþíópíu á dögunum að taka viðtöl og efni.

Verkefni okkar þar er að verða fimm ára gamalt og núna eru fyrstu fjölskyldurnar búnar að útskrifast og þurfa að standa á eigin fótum. Það er svo gefandi að sjá svona. Fjölskylda sem ég hitti árið 2019 og var í vonlausri stöðu og í molum: að sjá þessa sömu fjölskyldu núna þá sér maður allt annað ástand. Þær fjölskyldur sem ég talaði við voru svo þakklátar.“

Konan við hlið Hans heitir Medina. Hún er ekkja og fjögurra barna móðir sem var að útskrifast úr fjölskyldueflingunni sem fjármögnuð er af Íslendingum. Fjölskyldan missti alla innkomu eftir að eiginmaður hennar lést.

Hitti „strákinn“ sinn í Eþíópíu

Hans og Sigríður Þóra Þórðardóttir eiginkona hans hafa undanfarin fjögur ár styrkt dreng í SOS Barnaþorpinu í Addis Ababa í Eþíópíu. Hann verður tíu ára í sumar. Hansi nýtti tækifærið á ferð sinni og heimsótti drenginn.

„Ég ákvað það áður en ég var búinn að starfa í eitt ár sem upplýsingafulltrúi að gerast SOS-foreldri vitandi að ég ætti eftir að fara til Eþíópíu. Við hjónin ákváðum að styrkja þennan strák sem ég gæti hitt og ég heimsótti hann á dögunum. Hann var mjög spenntur. Hann er mikill áhugamaður um fótbolta og þegar ég fór þangað út árið 2020 fékk ég KSÍ til að gefa mér tíu landsliðstreyjur fyrir eitt heimili. Þau voru alveg í skýjunum með þessar treyjur.“ Spurður hvernig gangi að fá Íslendinga til að styrkja SOS Barnaþorpin segir Hans:

„Það gengur alveg ljómandi vel en það er mikil áskorun um þessar mundir vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Margt fólk sem ekki hefur mikið á milli handanna er að styrkja samtökin en svo eru margir sem hafa mikið á milli handanna sem láta sig þetta engu varða. Þúsund krónur á Íslandi margfaldast í þessum löndum sem við erum að hjálpa. Það voru 21 þúsund Íslendingar sem styrktu SOS á síðasta ári og það er á 12. þúsund sem styrkja mánaðarlega. Ég vil koma á framfæri þakklæti til þeirra sem styrkja samtökin.“

Hans Steinar fór ásamt Rúrik Gíslasyni, Jóhannesi Ásbjörnssyni og kvikmyndatökumanninum Jóni Ragnari Jónssyni til Malaví á síðasta ári til framleiðslu á sjónvarpsþætti um starfsemi SOS. Þar styrkir Rúrik einnig dreng í SOS barnaþorpi sem hann heimsótti.