Stein­þór Hrórar Stein­þórs­son, eða Steindi Jr, er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Steindi, sem er löngu orðinn lands­þekktur fyrir grín, söng og margt fleira, segir meðal annars frá því í við­talinu frá tíma­bilinu þegar hann lék í „Undir Trénu“ og hvernig hann fékk níkotíneitrun eftir of miklar reykingar.

„Þetta var drullu­erfitt, en ó­geðs­lega gaman og ég væri mjög mikið til í að fá að gera þetta aftur. En þetta var líka bara erfiður tími hjá mér. Ég var ný­búinn að eignast barn og var aldrei heima. Það er ó­geðs­lega erfitt af því að manni líður eins og maður sé svo lé­legur pabbi. Og ég var akkúrat líka að leika mann í myndinni sem fékk ekki að hitta dóttur sína, á sama tíma og ég sá eigin­lega aldrei dóttur mína af því að hún var sofandi þegar ég fór út á morgnana og sofnuð þegar ég kom heim á kvöldin,“ segir Steindi og heldur á­fram:

„Þetta var bara svo­lítið þungt allt, af því að ég var líka svo efins um hvort ég væri að gera þetta nógu vel. Ég hef til­hneigingu til að efast um mig og það hrjáir mig stundum. Þetta var líka bara reynslu­leysi. Ég kunni ekki að sleppa dögunum þegar þeir voru búnir. Ef Siggi Sigur­jóns til dæmis er að leika eitt­hvað hlut­verk, einn af okkar bestu leikurum, þá mætir hann bara á sett, leikur það, fer svo út í bíl og hreinsar það. En ég kunni það ekkert og fékk þetta svo­lítið á heilann. En mig langar samt mikið að gera þetta aftur af því að þetta var rosa­lega gaman líka.“

Endaði með ó­sköpum

Steindi segir í við­talinu við Sölva líka frá því hve sólginn hann hefur verið í nikó­tín á löngum köflum, sem einu sinni endaði með ó­sköpum.

„Áður en Vape-ið kom hingað til lands, þá kom fé­lagi minn frá Dan­mörku með Vape penna til Ís­lands og sagði við mig að ég mætti reykja þetta alls staðar. Ég var ó­geðs­lega peppaður og fékk að eiga pennann og var með vökva sem voru ó­geðs­lega sterkir, þetta var alveg grjót­hart.

Ég reykti alls staðar, ég reykti í bíó, heima, í bílnum, ég var alltaf með pennann og að reykja sígarettur líka ofan á þetta. Síðan eftir ein­hverja þrjá daga, þá fékk ég ó­geðs­lega háan hita og varð grár í framan...ég var eins og nafn­spjald í framan. Ég er ekki að djóka Sölvi, það lak úr mér og það kom í ljós að ég var kominn með nikó­tín-eitrun. Ég reykti mig í nikó­tín eitrun. Liðið þarna upp­frá (á spítalanum) heyrir ekkert um svona lagað á hverjum degi. Þetta var aga­legt.“

Gaf út dag­blað með skálduðum við­tölum við raun­veru­legt fólk

Þá fara þeir fé­lagar yfir lit­ríkan feril fjöl­lista­mannsins. „Ég gaf út blað sem hét Lókal. Ég og fé­lagi minn Hilmar Gunnars­son, við á­kváðum að gera dag­blað fyrir unga fólkið í Mos­fells­bæ og gáfum allt í allt út tólf tölu­blöð. En það var nánast ekki stafur í blaðinu sem meikaði sens. Það var fullt af við­tölum í blaðinu, en við­tölin voru aldrei tekin.

Það var bara tekin mynd af fólki, bara mynd af ein­hverjum Mos­fellingi, jafn­vel bara opnu­við­tal, sem við­komandi tók aldrei þátt í. Það voru bara spurningar og svör og allur pakkinn án þess að um­fjöllunar­efnið hefði tekið neinn þátt. Mann­skapurinn tók mis­vel í þetta. Þetta var stundum vesen og það var ekki heil brú í þessu blaði. En við gerðum þetta í eitt ár og þetta var rosa­lega gaman.“