Rannveig hefur gengið allt að 8 kílómetrum næstum því á degi hverjum þar sem hún fer út tvisvar á dag og auk þess er hún dugleg að synda alla daga.

„Frá því ég var 23 ára gömul hef ég verið ansi dugleg við að hreyfa mig. Þá þótti það ekki vera í tísku að fara út að ganga eins og nú. Yfirleitt er ég að ganga 6–8 kílómetra en núna er það eitthvað minna,“ segir Rannveig.

Eftir að eiginmaður hennar lést fyrir 16 árum segist hún ekki hafa fengið neinn með sér að ganga og því gengur hún ein fyrir hádegi og tekur svo hundinn með sér eftir hádegi. Áður en maður hennar lést gengu þau mikið saman, hjóluðu, fóru á skíði og á skauta.

„Ég byrja daginn á því að fara út á pallinn fyrir utan heimili mitt tíu mínútur fyrir sjö. Þar geri ég leikfimisæfingar og fagna deginum á meðan hundurinn minn, hún Mjöll, er að vafra úti í garði. Þegar ég kem inn í íbúðina mína eftir æfingarnar sem ég geri, alveg sama hvernig veðrið er, úrhellisrigning, snjókoma eða frost, kemur beinlínis önnur manneskja inn. Mér líður svo vel. Dagurinn byrjar svo vel með þessu. Ég geri alls konar æfingar því ég trúi á hreyfingu,“ segir Rannveig.

Eftir morgunleikfimina segist Rannveig gefa hundinum að borða og síðan heldur hún út að ganga tíu mínútur fyrir klukkan 8.

„Síðustu mánuðina hef ég aðeins gengið minna en vanalega. Sonur minn lést 56 ára gamall fyrir hálfu ári úr MND-sjúkdómnum og ég er að vinna mig upp úr sorginni sem fylgdi þegar hann lést. Mér þótti afar erfitt að skilja það að maður sem hvorki drakk né reykti og var í íþróttum skyldi deyja svona ungur,“ segir Rannveig.

„Þegar ég hef lokið við að ganga þessa kílómetra fyrir hádegið þá fer ég í sund. Ég syndi 2–300 metra núna en synti meira á árum áður. Eftir það fer ég í vatnsleikfimi í 35 mínútur og síðan fer ég í heita og kalda pottinn og er þar með frábæru fólki á svipuðum aldri og ég þar sem við spjöllum saman. Það er svo gott að vera með þessum hópi. Þegar ég kem heim les ég fyrir hundinn minn á ensku og upp úr klukkan hálf þrjú fer ég aftur út og geng þá með hundinn minn rúma tvo kílómetra.“

Alltaf að reyna að hægja á mér

„Fjölskyldan mín er alltaf að reyna að hægja á mér og segir að ég sé að gera of mikið en ég hlusta ekki á það. Ég lifi fyrir þessa hreyfingu. Sumir reykja, aðrir drekka en ég geng,“ segir Rannveig, sem segist ekki nota nein lyf og hefur verið heilsuhraust hingað til.

Rannveig byrjar alla daga á því að taka leikfimisæfingar á pallinum.

Rannveig er húsmæðrakennari að mennt og kenndi í fjölda ára en hætti í kennslunni fyrir fimmtán árum síðan.

„Ég var sjötug þegar ég hætti í kennslunni. Ég kenndi í 50 ár og missti aldrei úr dag í kennslunni vegna veikinda. Fyrst var ég kennari í Húsmæðraskóla Reykjavíkur í þrjú ár. Síðan fór ég út til Danmerkur og var þar í eitt og hálft ár þar sem ég vann í sendiráðinu við matargerð. Ég var svo í hálft ár í Svíþjóð áður en ég fór til Bandaríkjanna. Þar var ég í sex ár og lærði þar að búa til mat frá öllum heimsálfum.

Þegar ég kom svo aftur heim stofnaði ég Kvöldskóla Rannveigar á heimili mínu og kenndi þar á neðri hæðinni í 27 ár. Ég kenndi það sem ég lærði í Bandaríkjunum. Eftir það kenndi ég í 18 ár grunnskólanemendum í Langholtsskólanum. Það var yndislegur tími og það var stórkostlegt að vinna með ungu krökkunum. Þegar ég var sjötug byrjaði ég að leika mér meira heldur en ég gerði,“ segir Rannveig, sem svo sannarlega er frábær fyrirmynd og er eldspræk þrátt fyrir háan aldur.