Nýjasta bók Berg­þóru Snæ­björns­dóttur er ljóð­sagan Allt sem rennur, sem kom ný­lega út hjá Bene­dikt bóka­út­gáfu. Bókin er fjórða bók Berg­þóru sem vakti mikla at­hygli fyrir fyrri verk sín, Flórída og Svíns­höfuð.

„Ég hélt að ég myndi aldrei skrifa ljóð eftir Flórída, ég hugsaði „ég er bara hætt að skrifa ljóð“. En svo er ég búin að vera að vinna í skáld­sögu og var eitt­hvað föst með hana og var fengin til að skrifa texta fyrir mynd­listar­sýninguna Feigðar­ós í Kling & Bang og skrifaði ljóð­texta. Þetta var vorið 2021 og eftir það þá hélt ég bara á­fram og vissi ekkert hvað þetta ætlaði að verða,“ segir Berg­þóra um upp­runa verksins.

Berg­þóra segist vera drifin á­fram af per­sónum í skrifum sínum og hafi það einnig verið svo með þessa bók.

„Það virðist vera að ég verði að vera inn­blásin af per­sónum og sögum þannig að mjög fljót­lega fór þetta út í þá átt. Það voru per­sónur sem höfðu blundað í mér sem ég hafði ekki náð að koma til skila í öðrum verkum, þær fengu bara allt í einu að taka pláss, fá rödd og segja sína sögu.“

Sagan þurfti færri orð

Þá liggur við að spyrja, af hverju ekki að skrifa bara skáld­sögu?

„Þegar þú ert að skrifa skáld­sögu þá þarftu að fara svo rosa­lega djúpt inn í ein­hvern heim, þú þarft að búa þar og þú þarft að smíða veggi, nagla fyrir nagla, þetta er svo mikil erfiðis­vinna, á meðan ljóðið er eitt­hvað svo mikið flæði og minni pressa. Svo ein­hvern veginn upp­götvaði ég að mér fannst ég geta komið þessari sögu til skila í færri orðum. Hún þurfti ekki fleiri orð og ég er ekkert viss um að hún hefði verið sterkari við það.“

Að sögn Berg­þóru er hún miklu frekar inn­blásin af per­sónum og eigin inn­sæi heldur en hug­mynda­fræði.

„Þegar ég skrifa þá sest ég aldrei niður og hugsa, já nú langar mig að taka fyrir þetta mál­efni, það er á­kaf­lega brýnt að tala um þetta. Heldur er þetta allt bara eitt­hvað inn­sæi þannig að það er oft erfitt að út­skýra ná­kvæm­lega hvernig ferlið er. Þetta er bara ein­hvers konar hug­rof.“

Bergþóra segir frekar vera inn­blásin af per­sónum og eigin inn­sæi heldur en hug­mynda­fræði.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fannst erfitt að skrifa bókina

Allt sem rennur skiptist í nokkra hluta og segir sögu þriggja per­sóna sem tengjast í gegnum erfiða lífs­reynslu.

„Það er náttúr­lega Fjara, ætt­leidda stelpan, sem er orðin full­orðin og er að kljást við móður­hlut­verkið en upp­lifir ein­hvern skort. Svo er það karakter sem ég kalla Vöðvastrákinn, hann er við­kvæmur og mjög á valdi kven­per­sóna í lífi sínu, en jafn­framt blundar í honum of­beldi. Svo er það Stelpan sem breytti sér í fjall. Þessi heimur er nötur­legur og sár og mér fannst mjög erfitt á köflum að skrifa bókina.“

Berg­þóra segir bókina þó ekki boða ein­hverja tóm­hyggju eða nötur­leika.

„Það er ekki beint að þetta sé ein­hver heims­sýn um að allt sé hræði­legt og að lífið sé þjáning, heldur er það kannski meira að maður er við­kvæmur og að skáld­skapurinn sé eitt­hvað svona svið þar sem þú getur varpað ljósi á allt það sem þú óttast mest, sem stendur næst hjarta þínu, sem þú elskar mest, sem þú ert hræddastur um að vera eða ekki vera. Öll þessi nú­tíma­skrímsli mann­lífsins,“ segir hún.

Ég held að það hafi verið Kafka sem sagði: „Bækur eiga að vera eins og öxi fyrir frosna hafið innra með okkur“. Þær eiga bara að rústa þér og hreyfa við þér af því svo geturðu alltaf lokað bókinni.

Ekki riddari á hvítum hesti

Berg­þóra segist hafa elskað hryllings­sögur og hryllings­myndir sem barn og kveðst vilja fram­kalla svipaða til­finningu í skrifum sínum og hún upp­lifði þá.

„Ég les ekki til að verða hamingju­söm, ég held að það hafi verið Kafka sem sagði: „Bækur eiga að vera eins og öxi fyrir frosna hafið innra með okkur“. Þær eiga bara að rústa þér og hreyfa við þér af því svo geturðu alltaf lokað bókinni. Ég held að hann hafi líka sagt að manni eigi að líða eins og maður hafi misst náinn ættingja, að það séu ein­hvern veginn hug­hrifin. Mér líður þannig þegar ég skrifa.“

Þú ert svo­lítið að skrifa um fólk á jaðrinum, hvaða kemur á­huginn á því?

„Ég hef verið spurð að þessu áður. Ég held það sé bara ein­hver svona tenging. Mér finnst heimurinn stundum svo­lítið ó­bæri­legur og þetta er ein­hver svona til­raun til að gera hann bæri­legan, þó það hljómi öfug­snúið. Það er svo mikið af fólki sem sam­fé­laginu okkar tekst ekki að halda utan um, mér finnst það svo ó­bæri­legt og ég held að þess vegna leiti það á mig. Ég er enginn riddari á hvítum hesti sem er eitt­hvað „Nú ætla ég að gefa fólki rödd“. Ég vil endi­lega sem flestar raddir. Ef saga er ó­mót­stæði­leg þá herjar hún á mann.“