Alexander, Ari og Erla eru meðal þeirra Íslendinga sem hafa lagt leið sína til Tórínó til að styðja systkinin Siggu, Betu, Elínu og Eyþór Inga.

„Ég er hér í Tórínó til að styrkja okkar stelpur, Siggu, Betu og Elínu. Þær eru yndislegar og syngja rosalega vel og ég óska þeim alls hins besta á laugardaginn,“ segir Alexander.

„Ég hélt að hann Alexander minn ætlaði að hoppa úr stólnum, hann var svo kátur,“ segir Ari um augnablikið þegar Ísland komst áfram upp úr undankeppninni. Þau eru öll þrjú orðin spennt fyrir laugardagskvöldinu.

Alexander segist ekki hafa getað slakað á fyrr en Ísland var lesið upp.

„Ég var svo stressaður um hvort þær kæmust áfram eða ekki en þegar það varð ljóst í gærkvöldi þá róaðist ég aðeins niður,“ segir Alexander.

Eurovision aðdáendur í borginni hafa mikið kvartað undan því að ekki sé opinber Júróklúbbur í ár en það stöðvar þó ekki fjörið. Aðspurð segist þríeykikð að sjálfsögðu ætla að kíkja út á lífið til að fagna árangri íslenska framlagsins. Þau séu alveg heilluð af Tórínó borg.

„Ég elska svona veður og fólkið. Þetta er yndislegt borg,“ segir Alexander og Ari tekur undir með honum. „Þetta er geggjuð borg, mikil menning og allt í göngufjarlægð,“ segir Ari. „Og geggjaður matur,“ skýtur Erla inn í.

Ari og Alexander ætla að mæta á sjálfa aðalkeppnina næstkomandi laugardag en Erla ætlar að fylgjast með úr sjónvarpinu.

Sunna, Halla og Gísli í FÁSES
Fréttablaðið/Ingunn Lára

Halla, Sunna og Gísli í FÁSES, Félagi áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, lentu í bobba rétt fyrir undankeppnina í gær. Þegar þau komu að öryggisleitinni fyrir utan höllina uppgötvaði Halla að búið væri að stela símanum hennar sem innihélt miðan á keppnina. Til allra lukku var hún með prentað afrit af miðanum en þurfti að hringja upp á hótel til að fá afrit af vegabréfi sínu til að hægt væri að hleypa henni inn.

Halla var skiljanlega í uppnámi yfir uppákomunni en hópurinn gaf ekki upp vonina og náði inn fyrir þröskuldinn rétt áður en dyrum var læst.