Kolbrún Bergþórsdóttir, bókmenntadrottning og einn þekktasti sérfræðingur landsins í málefnum bresku konungsfjölskyldunnar telur her­toga­hjónin Harry og Meg­han hafa gert mikil mis­tök með því að hafa gefið út svona mikið efni eins og upp á síð­kastið.

Kolbrún var gestur Crownvarpsins, viðhafnarhlaðvarps Fréttablaðsins um The Crown og bresku konungsfjölskylduna. Þar var hún spurð hvernig sér litist á nýjustu bók Harry, nýjustu þætti þeirra hjóna á Net­flix og hlað­varps­þætti Meg­han Mark­le á Spoti­fy.

Kol­brún horfði á heimildar­þætti hjónanna á Net­flix. „Þetta voru sex þættir. Var ekki hægt að koma þessu í tvo? Ég held þau séu að gera stór­kost­leg mis­tök. Það er of mikið fram­boð af þeim. Fólk verður bara leitt. Hvað hafa þau meira að segja? Ef þau ætla að ná ein­hverri at­hygli í fram­tíðinni þá verða þau að vera með fleiri bombur.“

Þórarinn Þórarins­son annar þátta­stjórn­enda segist sjálfur vera kominn með nóg af hjónunum.

„Ég komst í gegnum fyrsta þáttinn en gat ekki meir. Ég er kominn með alveg upp í kok af þessu fólki. Ég er viss um að þau hafi notið sam­úðar, en ég er ekki viss um að þetta hjálpi þeim þar, hvorki bókin né þættirnir,“ segir Þórarinn og Kol­brún tekur undir.

„Það er líka það, hverju hefur þessi bók skilað?“ spyr Kol­brún. „Þau hafa hrapað í vin­sældum. Ekki bara í Bret­landi, heldur líka í Banda­ríkjunum. Það held ég að sé sárt fyrir þau,“ segir Kol­brún sem segist hafa sínar skýringar á þessum auknu ó­vin­sældum her­toga­hjónanna.

„Ein skýringin á því held ég að sé sú að það er inn­byggt í okkur á­kveðin siða­lög­mál. Eitt af þeim er að ekki flagga ó­hreina þvottinum þínum. Ekki fórna fjöl­skyldunni þinni fyrir peninga. Þú bara gerir það ekki. Eða fórna þeim til þess að lyfta sjálfum þér upp. Hann fórnar öllu og er kannski verstur við bróður sinn.“

Crownvarpið má hlusta á á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins og einnig hér að neðan: