Alltaf er gott að gleyma sér í góðri bók, ekki síst núna á COVID-tímum. Bókabúðirnar eru opnar og í einni þeirra, Eymundsson á Skólavörðustíg, vinnur ljóðskáldið Brynja Hjálmsdóttir. Hún hefur unnið sem bóksali frá árinu 2015 þegar hún lauk BA-námi í kvikmyndafræði og málvísindum.

Spurð hvort hún finni mikinn mun á bóksölu fyrir COVID og nú á COVID-tímum segir hún: „Það kom mun færra fólk inn í búðina þegar höftin voru hvað mest. Það var líka breyting á því hvað fólk var að kaupa, þá ruku föndurbækur og púsl út. Núna er hins vegar hin klassíska sumarverslun í gangi, fólk er að fá sér kiljur og kaupir kannski fjórar í einu af því að það er að fara í ferðalag. Glæpasögurnar eru afskaplega vinsælar en ég sakna þess að ekki sé meira af gamansögum. Bók Sophie Kinsella, Mitt ófullkomna líf, á samt að vera nokkuð fyndin.“

Sjón í stað Yrsu

Brynja segir fólk leita eftir ráðgjöf starfsfólks. „Það er mikið um það, sem er mjög skemmtilegt. Fólk vill gjarnan fá meðmæli, sérstaklega varðandi barnabækur og kiljur, en þar er hægt að velja úr miklum fjölda. Það er kúnst að finna réttu bókina fyrir rétta fólkið og þá þarf maður oft að setja sinn eigin persónulega smekk til hliðar. Ég sá einu sinni mann mæla með því að viðskiptavinur, sem sagðist vilja eitthvað líkt Yrsu Sigurðardóttur, keypti Sjón. Það hentaði sennilega ekki viðkomandi.“

Í bókabúðum Eymundsson eru sérdeildir með erlendum bókum. „Það er mjög klárt fólk sem sér um að panta erlendu bækurnar og þar getur maður alltaf fundið eitthvað spennandi bara með því að skoða. Fólk sem kaupir erlendu bækurnar er kannski yfir höfuð ævintýragjarnt. Það kaupir bækur sem enginn sem það þekkir hefur lesið. Þeir sem kaupa þýddu bækurnar og íslensku bækurnar fara hins vegar oft eftir meðmælum vina sinna.“

Brynja segist lesa allt mögulegt. „Ég les langar skáldsögur og ljóðabækur. Þegar ég vil lesa eitthvað léttara leita ég í hryllingsbókmenntir og hef mjög gaman af Stephen King. Ég er ekki hrifin af bókum um löggur, ég veit ekki af hverju, ég kemst aldrei almennilega inn í þær. Ég les mikið af unglingabókum, sérstaklega unglingafantasíum. Bækur Hildar Knútsdóttur, Nornin og Ljónið, eru ótrúlega góðar og ég bíð spennt eftir þriðju bókinni í seríunni.“

Hún segist síðast hafa verið að lesa Booker-verðlaunabókina Girl, Woman, Other eftir Bernardine Evaristo. „Ég fylgist með Booker-verðlaununum, bækurnar sem vinna þau eru alltaf góðar. Þannig uppgötvaði ég Han Kang frá Kóreu, höfund bókarinnar Grænmetis­ætunnar. Hún er í hópi minna uppáhaldshöfunda, hún kom hingað á bókmenntahátíð og ég fékk áritun í bækurnar mínar sem ég var alveg himinlifandi með.“

Er að vinna að ljóðabók


Brynja var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna fyrir fyrstu ljóðabók sína, Okfrumuna, sem kom út í fyrra og hlaut verðlaun bókasala fyrir þá bók. Hún segist alltaf vera að skrifa. „Ég er að vinna að annarri ljóðabók og öðru verkefni sem er leyndarmál.“

Spurð hvort hún sæki í eigin reynslu í ljóðum sínum segir hún: „Eins og flest ljóðskáld blanda ég minni reynslu við skáldskap og fantasíu. Ég held að ég sé alvöru súrrealisti, gæti alveg samþykkt öll súrrealísk manifestó.“

Sem bóksali hefur hún selt sína eigin bók í bókabúðinni. „Mér fannst það óskaplega vandræðalegt. Ég var ekki að segja fólki frá því að ég væri höfundurinn. Ég þekki nokkra bóksala sem hafa gefið út bækur og afgreitt í búð þar sem bók þeirra er til sölu. Enginn þeirra er að mæla með sinni bók. Bókin er þarna og fólk kaupir hana ef það vill.“