Von er á nýrri plötu frá tónlistarkonunni Sjönu Rut Jóhannsdóttur, en Fréttablaðið frumsýnir tónlistarmyndbandið hér neðst í fréttinni.

„Margir halda að nafnið mitt sé gælunafn og að ég heiti í rauninni Kristjana eða að ég sé jafnvel ekki íslensk, en ég heiti einfaldlega Sjana. Ég er sú fyrsta á Íslandi sem er skírð Sjana og sú eina í heiminum sem heitir Sjana Rut. Ég skal alveg viðurkenna að það er skemmtilegt að vera smá öðruvísi,“ segir hún glaðlega.

Sjana fæddist í Gautaborg í Svíþjóð en fluttist til Íslands tveggja ára gömul.

„Ég hef alltaf haft gaman af öllu sem viðkemur list, eins og tónlist, myndlist, föndur og förðun og margt, margt fleira. Sjana skiptist í tvennt. Það er listakonan, sem fær nýjar hugmyndir á fimm mínútna fresti og er alltaf skapandi eitthvað nýtt og vill sigra heiminn.

En svo er það fullkomnunarsinninn sem vill hafa allt á hreinu og ef henni tekst ekki að hafa allt upp á tíu að þá er allt ómögulegt og hún hleypur um eins og hauslaus hæna,“ segir Sjana og hlær.

Heiðarleiki og einlægni

Hún segist alltaf hafa verið söngelsk og komið nánast gólandi og dansandi inn í þennan heim.

„Það væri hægt að segja að pabbi hafi kveikt áhugann hjá mér á tónlist. Hann spilaði mikið af tónlist á heimilinu og þá sérstaklega gamla sálar- og djasstónlist ásamt rokki og allt þar á milli. Allt frá Billy Holiday, Nat King Cole til AcDc, Jean Michel Jarre, Todmobile og Yazoo. Enda er ég alæta á tónlist.“

Sjana segist sækja innblásturinn víða en semji þó mikið út frá eigin lífsreynslu og annarra í kringum hana.

„Það sem einkennir kannski tónlistina mína er heiðarleiki og einlægni. Þegar ég fæ hugmynd að einhverjum lagabút eða texta og er ekki við hljómborð eða píanó, þá tek ég hugmyndina upp á símann og svo klára ég það um leið og ég kemst heim. En annars er þetta allt saman á færibandi hjá mér, ég er bókstaflega alltaf að fá nýjar hugmyndir. Mér finnst auðvelt að koma tilfinningum og hugsunum mínum yfir í lag og á striga, það er bara svo eðlilegur hlutur fyrir mér og er hluti af mínu daglega lífi,“ segir hún.

Nýjasta lag Sjönu, CLOSE, var upprunalega skáldsaga sem hún hóf skriftir á í byrjun árs 2019.

„En lagið hefur allt aðra merkingu fyrir mig í dag, ég tengi við textann allt öðruvísi. Lagið er persónulegra en það var upprunalega.“

Fyrsta plata Sjönu, Gull & grjót, kom út í byrjun árs. Hún er öll á íslensku og ákvað söngkonan stuttu eftir útgáfuna að næsta sólóplata yrði á ensku.

„Ég á svo rosalega mörg lög í geymslu sem fá nú loksins að líta dagsins ljós. Á henni syng ég mikið um kynferðisofbeldið sem ég varð fyrir í barnæsku. Nýja platan er um allt þetta ferli sem brotaþolar ganga í gegnum, frá skömminni og þögninni yfir í að átta sig á hlutunum og læra að fyrirgefa sjálfum sér og fortíðinni. Að læra að elska sjálfan sig. Ég syng bæði frá mínu sjónarhorni sem barn og sem fullorðin.

Ég býst við því að þolendur kynferðisofbeldis eigi eftir að tengja sig mikið við lögin á plötunni.“

Lætur ekkert stoppa sig

Myndbandið við CLOSE er hálfgert ævintýri og er eins og tilfinninga-ferðasaga að sögn Sjönu.

„Ég leikstýrði, klippti og sá um myndbandagerð og tæknibrellur sjálf. Snorri Christophersson, frændi minn, sá um myndbandsupptöku en við höfum oft unnið náið saman, og svo var teiknimyndin gerð af listamanni sem kallar sig Arsacre.“

Hafði heimsfaraldurinn áhrif á útgáfu plötunnar?

„Ég held að þetta ástand hafi haft áhrif á alla á einhvern hátt en persónulega hefur það ekki haft mikil áhrif á listina mína, frekar félagslegu hliðina. Ég hef hingað til aldrei látið neitt stoppa mig. Ég væri að ljúga ef ég segði að þetta ástand hafi ekki haft neikvæð áhrif á mann en ég var alin upp við það að skapa lausnir frekar en fleiri vandamál.“

Sjana heldur úti hlaðvarpsþáttunum Ekki tabú á hlaðvarpsstöðinni Þú skiptir máli.

„Ég tek fyrir ýmis og miserfið málefni og umræður sem talin eru tabú í samfélaginu og tekst á við það á jákvæðan, uppbyggilegan og fræðandi hátt.

Mér finnst mikilvægt að nýta mína erfiðu lífsreynslu í eitthvað jákvætt. Ég vona að það sem ég hef að segja eigi eftir að hjálpa öðrum og að ég geti sýnt fram á það að þetta er ekki tabú.“

Myndbandið við lagið CLOSE er frumsýnt á frettabladid.is í hádeginu í dag.