Erla Þórarins­dóttir sýnir tólf verk í Gallerí H71, Hverfis­götu 71, sem unnin voru fyrir og á tímum CO­VID. Þar á meðal er teppi með út­saumuðu faðir­vori. „Árið 2008 þegar allt hrundi og for­sætis­ráð­herra sagði Guð blessi Ís­land þá rakst ég á þetta teppi í Rauða kross búðinni, kippti því með mér heim og byrjaði að sauma út í það faðir­vorið. Þegar ég var hálfnuð varð ég leið á því, pakkaði teppinu saman og tróð því upp í skáp.

Ég fann það aftur fyrir fimm árum þegar ég flutti, mundi svo eftir því í fyrstu bylgju pestarinnar og vildi klára það. Það er gott að sýna það núna og dá­sam­legt að fá að setja það upp hér í þessu fal­lega húsi,“ segir Erla.

Fyrr á þessu ári fór Erla með teppið til Sigur­geirs Sigur­jóns­sonar ljós­myndara á Hverfis­götu til að láta hann mynda það. „Hann spurði hvort ég vildi ekki koma með fleiri verk til að ljós­mynda og ég kom með silfrað verk, Ósk um nýjan tíma. Þegar það verk var komið upp á gamlan, svart­málaðan vegg virtist það hrein­lega eiga heima þar. Sigur­geir spurði hvort ég vildi kannski sýna hérna. Og það vildi ég svo sannar­lega.“

Á sýningunni eru átta lit­ríkar híeróg­lýfur. „Þær eru í mann­legri stærð, eins og spegill sem hægt er að máta sig við. Í yfir­borðinu er silfur sem ég leyfi að oxast og það breytist síðan í gyllta á­ferð,“ segir Erla. Æsa Sigurðar­dóttir list­fræðingur segir í texta sem fylgir sýningunni að Erla leiti að sam­eigin­legum menningar­kjarna í verkum sínum og að hún gangi ætíð út frá and­legum for­sendum. Spurð um and­legar for­sendur segir Erla: „Ég reyni að hlusta og skynja hvað gerist hið innra og varpa því svo út. Ég geri það sem kemur til mín.“

Erla hefur á fjöru­tíu ára ferli haldið fjöl­margar einka­sýningar og tekið þátt í sam­sýningum á Ís­landi, Norður­löndunum, í Evrópu, New York, Kína og Ind­landi. Hún hefur hlotið viður­kenningar og styrki fyrir störf sín. Verk hennar eru í eigu einka­aðila og helstu safna hér­lendis.

Sýning Erlu stendur til 10. apríl. Opið er fimmtu­daga, föstu­daga og laugar­daga frá kl. 13-17.