„Þakklæti er mér efst í huga í dag. Þakklát fyrir ykkur öll, skilaboðin ykkar og stuðninginn sem ég finn fyrir,“ skrifaði Alexsandra Bernharð annar þáttastjórnandi hlaðvarpsins Þokunnar í færslu á Instagram í dag eftir að hljóðbrot úr þættinum, Þokan, fór á flug manna á milli á samfélagsmiðlum í vikunni.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær vakti áhrifavaldurinn og ljósmyndarinn Helgi Ómarsson athygli á neikvæðum ummælum annars þáttastjórnanda Þokunnar í gær og sagði að um andlegt ofbeldi i vinkonusambandi væri að ræða, og þetta væri því miður ekki einsdæmi.

„Ég er til staðar ef hún þarf mig, það er mín ábyrgð,“ segir Helgi í myndbandi á Instagram og greinir frá því að hann hefur sjálfur gengið í gegnum svipaða reynslu. Þá segir hann ofbeldið getur ágerst eftir að slíkt málefni kemst út, og það getur verið afar erfitt.

Alexsandra sagði í samtali við blaðamann Fréttablaðsins í gær að hún væri í raun í áfalli eftir að umræðan fór á flug, og sagðist ekki hafa áttað sig á því sem hafi fengið að viðgangast.

Þórunn Ívarsdóttir áhrifavaldur og meðstjórnandi Þokunar, deildi myndskeiði af sér á Instagram þar sem hún er grátandi að biðja vinkonu sína, Alexsöndru afsökunar á því hvernig hún hefur komið fram við hana, án þess að hafa gert sér grein fyrir því. Þá vonast Þórunn til þess að Alexsandra fyrirgefi henni og segist ætla að vinna í sínum málum.