Hanna Rún og eiginmaður hennar, Nikita Bazev, búa á fallegu heimili í Mosfellsbænum ásamt börnunum sínum, Vladimir Óla og Kíru Sif. Þar er sannarlega jólalegt um að litast en Hanna Rún skreytir alltaf mikið og byrjar snemma að setja upp jólaskrautið.

„Sumir hneykslast á því og segja við mig, „en það eru tveir mánuðir í jólin“,“ segir Hanna Rún og hlær.

„En ég er bara svo ótrúlega mikið jólabarn. Af því að við skreytum mikið þá vil ég taka tíma í það og njóta þess að setja skrautið upp en ekki henda því öllu upp í stressi. Við viljum líka njóta skrautsins en ekki vera nýbúin að setja allt upp þegar við þurfum að taka það niður aftur.“

Heimili Hönnu Rúnar og Nikita tekur því hægt og rólega á sig jólalegri mynd eftir því sem nær dregur jólum.

„Ég er í raun alltaf að bæta einhverju við. Ég finn kannski fallega jólakúlu sem mig langar að setja á tréð. Í fyrra fann ég til dæmis svo fallega fugla rétt fyrir jól sem voru komnir á 70% afslátt, þannig að ég bætti þeim á skenkinn á Þorláksmessu. Það mesta fer samt alltaf upp í nóvember,“ útskýrir Hanna Rún.

Hanna Rún finnur jólaskrautið hér og þar og er alltaf að bæta einhverju við. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Hún segir að jólaskrautið komi úr öllum áttum, það sé engin búð í uppáhaldi þar sem hún finnur jólaskraut frekar en annars staðar.

„Stundum er ég bara að kaupa í matinn og sé eitthvað fallegt og kaupi það. Ég finn skrautið í raun bara hér og þar og alls staðar. Þegar við höfum verið í keppnisferðum úti þá hef ég keypt skraut þar. Aðallega í Englandi, við höfum oft farið í keppnisferðir þangað fyrir jólin. Svo hefur mamma hans Nikita líka sent okkur skraut á tréð frá Rússlandi.“

Fallegum glitrandi barnaskóm er stillt upp undir trénu sem sveinki vaktar.

Nikita er rússneskur en þar er haldið upp á jólin 6. janúar. Hanna Rún segir því að fyrir honum hafi 24. desember ekki verið neitt merkilegur dagur áður en þau fóru að vera saman.

„Hann var ekki svona mikið jólabarn eins og ég, en nú er hann rosalega mikið jólabarn. Hann elskar jólin og kippir sér ekkert upp við það þó ég byrji snemma að spila jólalög.“

Fjölskyldan heldur jólin að íslenskum sið en þau hafa ekki haldið sérstaklega upp á rússnesku jólin þann 6. janúar hingað til.

„En við leyfum jólatrénu samt að vera uppi lengur, oft út janúar. Svo fæddist dóttir okkar 6. janúar svo það er lukkudagurinn okkar,“ segir Hanna Rún.

Á heimilinu eru tvö jólatré. Eitt stórt í stofunni og annað minni í sjónvarpshorninu sem sonurinn skreytir.

Föndrar með syninum

Það jólaskraut sem er í mestu uppáhaldi hjá Hönnu Rún er skrautið sem Vladimir Óli, sonur hennar, hefur föndrað.

„Bestu jólagjafirnar eru skrautið sem sonur minn hefur föndrað á leikskólanum. Hingað til er það bara sonur minn sem hefur verið að föndra en ég hlakka til þegar dóttir mín byrjar líka á því.“Á heimilinu eru, eins og er, tvö jólatré. Eitt stórt í stofunni og svo annað aðeins minna í sjónvarpshorninu við hliðina á arninum sem Vladimir Óli á og skreytir sjálfur.„Svo vill maðurinn minn kaupa annað fyrir Kíru Sif en ég á eftir að finna út hvar það á að vera, við erum allavega með tvö núna,“ útskýrir Hanna Rún.

Hanna Rún föndrar mikið með syninum Vladimir Óla. En þessa dagana eru þau að föndra jólakúlur.

Auk þess að skreyta allt heimilið sitt fallega fyrir jólin föndrar Hanna Rún líka jólakúlur sem hún selur í verslun foreldra sinna, Gullsmiðju Óla.„Sonur minn hefur verið að föndra mikið með mér alveg frá því hann var bara pínulítill. Við fórum að skreyta jólakúlur með kristöllum eins og ég set á danskjólana mína. Við vorum bara að skreyta kúlurnar til að setja á tréð hjá okkur en svo voru svo margir sem sáu þetta og fóru að spyrja hvort hægt væri að kaupa svona kúlur af mér. Ég ákvað þess vegna að búa til kristalskúlur sem ég er með í sölu hjá pabba og mömmu. Það sló í gegn svo nú er þetta orðið árlegt.“

Hanna Rún segist sitja sveitt þessa dagana við að föndra kúlurnar, sem eru hengdar upp á tré í gullsmiðjunni.„Svo erum við Vladimir líka að dunda okkur við að föndra á jólatréð og jólaskrautið er smátt og smátt að verða komið upp í öllu húsinu.“