Tyrfingur býr í Amsterdam en var hér á landi á dögunum og blaðamaður náði tali af honum.
„Titill leikritsins lofar því að fjallað sé um skömm, en eins og allur skáldskapur svíkur það líka,“ segir Tyrfingur. „Verkið fjallar um lögreglukonu sem er flink og næm í starfi en þegar brotist er inn á heimili hennar þá frýs hún og getur ekki gripið til varna. Í kjölfarið hættir hún að sofa, verður svo reið, hættuleg og ofbeldisfull að hún ryðst inn á stofu geðlæknis og krefur hann um sterkustu lyfin, þau sem myndu svæfa hana um leið. En geðlæknirinn, sem er skrýtin skrúfa, vill vita ástæðuna fyrir svefnleysinu og skýrir henni frá kenningu sinni um að baki allri geðveiki liggi um það bil sjö ævintýri um skömm. Í sameiningu byrja þau að rekja sig í gegnum ævintýrin í lífi hennar.“
Um tóninn í leikritinu segir Tyrfingur: „Í leikritinu er bæði gleði og leikur. Þetta er mikið leikhús, sem er andstaðan við skömm. Kannski er ein besta leiðin til að tala um skömm að leika sér að henni. Það er oft sagt að hægt sé að skila skömminni en það er ekki hægt fyrr en búið er að vingast við hana og leika með hana eins og brúðu. Þá er mögulega hægt að losna við hana en þá langar mann kannski ekkert endilega til að skila henni – maður hefur eignast óþekkan vin. Vel heppnuð leiklist getur nefnilega virkað svolítið eins og læknisleikur fyrir fullorðna.“
Óður til íslensks samfélags
Blaðamaður biður Tyrfing að nefna dæmi um ævintýri sem fjallað er um í leikritinu. „Ein sagan byggir á ástarævintýrum ömmu minnar sem var, eins og hún sagði sjálf, kanamella í bílskúr í Flórída. Skammarferðalagið hefst þar og áhorfandinn kynnist lífi hennar. Lúkasarmálið á Akureyri kemur líka við sögu. Það er sem sagt farið víða og leikhópurinn er í einu orði sagt stórkostlegur með Stefán við stjórnvölinn, ég hef verið aðdáandi verka hans lengi.“
Tyrfingur segist ekki vera að hæðast að samfélaginu í verkinu. „Ég vil ekki segja að ég sé að hæðast en ég er náttúrlega hrekkjusvín úr Kópavogi og get ekki vanið mig af því. Hvað get ég sagt, sko, stundum finnst mér að á Íslandi sé ekki stunduð sálarfræði heldur sárafræði, þar sem við nuddum saman sárunum á okkur og köllum það nánd. Með þeim hætti gefum við sárunum og skömminni of mikið vald yfir okkur og leikurinn kemst hvergi að. Ég get gengist við þjáningu minni en ég verð samt að setja henni mörk og muna að hún er ávanabindandi. En verkið fjallar að einhverju leyti um þetta, þótt aðallega sé það óður til íslensks samfélags og sögu þessara þriggja kynslóða af konum: móður, dóttur, ömmu.“
Leikritið er fyrsta verk Tyrfings sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu en hingað til hafa verk hans verið sýnd í Borgarleikhúsinu. Spurður hvort það skipti máli segir hann: „Já, sýningar eins og Koddamaðurinn, Veislan, Rambó 7 eftir Jón Atla og Engispretturnar, ég varð til sem höfundur á frábærum uppfærslum í Þjóðleikhúsinu. Að einhverju leyti finnst mér ég vera að gefa til baka það sem ég þáði þaðan. Það er góð tilfinning.“
Hroki vísindanna
Spurður hvernig Covid-tíminn hafi verið fyrir hann sem leikskáld segir Tyrfingur: „Covid hefur ekki kennt mér neitt nýtt en það hefur speglað ýmislegt eins og óþolinmæðina og stjórnsemina í mér og hversu ég er óttasleginn. Ég sé líka betur ofurtrú okkar á tölum og tölfræði sem eru eins og nýju testamentin, og síðan hroka og trúarofstæki vísindanna og hvernig við hugsum ennþá um samfélagið eins og vél sem þarf að laga en ekki sem lifandi veru. Að ógleymdum þessum botnlausa pempíugangi við dauðann. En það er líka ágætis æfing að vera stoppaður af, því það er kannski martröð hins karllæga egós að vera stöðvaður og það finnst mér holl reynsla að sú martröð rættist. Fyrir vikið gafst mér meiri tími til að vinna verkið.“
Hann segir að Covid hafi orðið til þess að verkum eftir hann sem sýna átti í Amsterdam hafi verið aflýst. Það er þó nokkur sárabót fyrir hann að leikrit hans hafa verið gefin út á bókum í Hollandi, Frakklandi og á Ítalíu.
Í haust er von á fyrstu kvikmyndinni sem Tyrfingur kemur að, Villibráð, en hann skrifaði handritið í samráði við leikstjórann, Elsu Maríu Jakobsdóttur. Zik Zak framleiðir. „Þetta var ótrúlega skemmtilegt verkefni. Það hefur stundum verið talað um að í íslenskum kvikmyndum sé þjösnast á persónum af landsbyggðinni. Í Villibráð eru það Reykvíkingar sem eru teknir af lífi.“ n