Sumarliði er víða og var frekur til fjörsins þegar Bjartmar Guðlaugsson og Bergrisarnir léku fyrir troðfullum sal í Háskólabíói á 70 ára afmælistónleikum textaskáldsins og tónlistarmannsins á laugardaginn.

Stuttermabolir með mynd af Sumarliða og yfirlýsingu hans um að hann sé ekki alki seldust nefnilega eins og heitar lummur á tónleikunum. „Við seldum mikið magn af bolum en það er eitthvað til ennþá,“ segir Elma, dóttir Bjartmars, sem sá um tónleikana og allt í kringum þá.

Vínlaus andi Sumarliða sveif yfir troðfullum salnum í Háskólabíói á afmælistónleikum Bjartmars þar sem Þorgeir Ástvaldsson, fóstbróðir hans, var meðal gesta.
Fréttablaðið/Samsett

Þá bendir hún áhugasömum á að fyrir þá sem vilja tryggja sér bol sé einfaldast að senda henni bara skilaboð á Facebook.

„Þetta hafði þvílíkt stemningsgildi á tónleikunum en flestir vippuðu sér í bolinn svo það voru Sumarliðar úti um allt,“ segir Elma og lætur þess getið að Bjartmar sjálfur hafi teiknað myndina af Sumarliða 1986.

„Hún hékk árum saman í eldhúsinu hjá Erlu tengdamömmu hans,“ segir Elma um Sumarliða, sem var haldið á lofti í aðdraganda tónleikanna. „Svo við ákváðum í sameiningu, ég og pabbi, að gera boli með myndinni og þá lá beinast við að hafa bara: „Ég er ekki alki“ með.“