Ofuraðdáandi bresku poppstjörnunnar Ed Sheeran, hin 37 ára gamla breska Amand Baron, á von á barni með tvífara breska popparans, hinum 27 ára gamla Ty Jones. Breska götublaðið The Sun greinir frá.
Sá vinnur í fullu starfi sem tvífari popparans, svo sláandi líkir eru þeir. Amanda segist yfir sig ástfangin en þau kynntust á Ed Sheeran giggi hjá Ty.
„Ég vildi alltaf byrja með einhverjum rauðhærðum og núna er ég með þeim besta. Fyrir utan hinn raunverulega Ed augljóslega,“ segir Amanda sem er frá Carrington á Manchester svæðinu. Hún og Ty eiga von á stúlkubarni í júlí.
„Ég er að eignast barn með Ed Sheeran, en eiginkona Ed þarf ekki að hafa áhyggjur samt,“ segir hún í gríni við breska miðilinn. Parið hefur spilað lög með bresku poppgoðsögninni fyrir litla barnið. „Við vonum bara að hún muni elska hann jafn mikið og við.“
Ty segir að hann hafi átt afar erfitt uppdráttar í stefnumótasenunni í Bretlandi. „Ég þarf alltaf að hafa áhyggjur af því hvort að konur hafi bara áhuga á mér vegna þess að ég er það næsta við Ed Sheeran. En með Amöndu hefur þetta verið stórkostlegt. Hún er best.“

