Þegar vinur minn spurði mig „Hvernig gengur svo í orlofinu?“ þar sem við hittumst í röðinni á kaffihúsi og tæplega fimm mánaða gamli herforinginn, sonur minn, var nýsofnaður í vagninum við hlið mér. Svaraði ég með frosnu brosi „Bara vel,“ um leið og ég gaf full háværum kaffihúsagestum í nálægð minni ákveðið hornauga, hrædd um að leiðtogi lífs míns næði ekki djúpsvefni og draumórar mínir um að drekka kaffið sem ég var að panta, rjúkandi heitt og nýlagað, yrðu að engu.

Ég var rétt búin að sleppa orðinu „vel“ þegar vinurinn fékk í kaupbæti eitthvað sem hann hafði ekki beðið um... lengri útgáfuna: „Ég átta mig þó alls ekki á því hvers vegna þessir mánuðir eru enn kallaðir rangnefninu orlof!“ frussaði ég út úr mér um leið og ég reyndi að nudda gubbið, sem mér hafði yfirsést áður en ég hljóp út, af öxlinni.

Undanfarna fimm mánuði hef ég unnið heima við eitt það mikilvægasta verkefni sem manni er úthlutað: Að annast hvítvoðung. Ekki misskilja þessi orð mín sem vanþakklæti! Ég nýt verkefnisins í botn og vissi nokkurn veginn út í hvað ég væri að fara enda alls ekki um fyrsta barn að ræða. Mér finnst fæðingarorlofið hér á landi alltof stutt og kvíði því virkilega að þurfa að setja unga einræðisherrann í hendur vandalausra þegar haldið skal til starfa á nýjan leik. Það er yndislegt að fá tækifæri til að einbeita sér að því að hugsa um barnið sitt fyrstu mánuðina en eitt er á hreinu: orlof er það ekki!

Ég hef jafnvel heyrt um harða sjómenn sem telja niður dagana þar til næsti túr hefst svo þeir geti „hvílt“ sig úti á sjó á meðan ungbarnakveisan eða tanntakan gengur yfir á heimilinu. Því jafnvel á sjónum er löglegur hvíldartími, matartími og leyfi til að komast á salernið. Engar slíkur reglur gilda um orlof!

Ég legg til að við köllum hlutina réttum nöfnum, húsmæðraorlof er orlof og Stella fór í orlof en ég óska hér með eftir nýyrði yfir mánuðina sem móðir eða faðir sinnir ungbarni eftir fæðingu. Kannski væri réttast að kalla tímabilið fæðingarvertíð? Það er ákveðinn rómans yfir því orði og enginn efast um að unnið hafi verið í akkorði. Fæðingarvertíðarsjóður gæti svo jafnvel sett löggjöf um lágmarkshvíld og klósettferðir. Pæling?