„Ég er nýorðin þrítug, þriggja barna móðir. Ég gaf líka út mína fyrstu plötu og uppfyllti alla þessa áfanga um miðjan janúar síðastliðinn. Dagarnir mínir undanfarið snúa því að mestu að fjölskyldunni. En ég er tónlistarkona og starfa við það á milli þess sem ég sinni móðurhlutverkinu.“

Karitas greinir frá því að hún hafi þurft að finna nýjar leiðir til þess að fá útrás fyrir sköpunarkraftinn í kjölfar COVID.

„Eins og hjá mörgu tónlistarfólki hefur verið minna að gera í því að koma fram undanfarið árið svo ég hef verið að svala sköpunarþörf minni í öðrum verkefnum eins og að sauma, föndra og þess háttar,“ segir hún.

„Nú nýverið kom síðan út barnaplatan Út í geim og aftur heim, þar sem ég talaði og söng fyrir Geimgerði, það var ótrúlega skemmtilegt að fást við það og ég hlakka mikið til að geta farið að sinna vonandi meira framkomu og tónlistartengdum verkefnum.“

Karitas Harpa lýsir fatastíl sínum sem blöndu af boho og vintage með 80’s-modern ívafi. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Hefurðu áhuga á tísku?

„Já, eða sko, ég er ekki kannski þessi steríótýpíska áhugamanneskja um tísku sem er áskrifandi að helstu tískublöðunum og mætir samviskusamlega á tískuvikur en ég hef mjög gaman af tísku og þá sérstaklega sem tjáningarformi.“

Karitas segir tískuáhugann hafa kviknað snemma á lífsleiðinni.

„Ég var mjög ung þegar ég pældi í því hvaða flíkur „pössuðu saman“ og hverjar ekki. Ætli ég muni ekki fyrst eftir því að veita tísku sérstaklega eftirtekt við það að fletta í gegnum Séð og heyrt að skoða Hollywood-stjörnurnar á rauða dreglinum sem barn. Þar voru oft síður þar sem verið var að velta því fyrir sér hvaða kjólar væru „hot“ og hverjir væru „not“. Ég gat skoðað þessar fallegu múnderingar í bak og fyrir og pældi mikið í því hvort ég væri sammála þeim sem létu blaðið prenta.“

Þá hafi kvikmyndir enn fremur haft áhrif á tískuvitund og dagdrauma hennar.

„Ég man líka eftir því, sem barn, að pæla mikið í fötum í bíómyndum. Grease varð auðvitað uppáhalds snemma og ég lét mig dreyma oft um að vera hluti af T-Birds genginu og að ég hefði „fæðst á vitlausum tíma“.“

Karitas rifjar upp tilfinningarnar sem fylgdu því þegar hún fékk gefins föt á sínum yngri árum.

„Ég ólst ekki upp við mikil efni og klæddist sjálf því sem var til hverju sinni og fannst á góðu verði á útsölum. Mér fannst ég alltaf detta þvílíkt í lukkupottinn þegar ég fékk svartan poka af fötum frá eldri frænkum eða vinkonum og gat eytt tímunum saman í að skoða, máta og púsla saman flíkunum í lúkk.“

Karitas Harpa er hrifin af litríkum fötum en klæðist þó oftast jarðlitum. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

„Ég myndi lýsa honum sem blöndu af boho og vintage með 80’s-modern ívafi. Einfalt, ekki satt?“ segir Karitas og skellir upp úr.

„En ég elska, elska, einstakar flíkur, eitthvað sem ég finn í second hand/vintage búðum. Ég er mikið fyrir denímefni, buxur, jakka, smekkbuxur, samfestinga og svo framvegis, mittisháar buxur eða pils, fallega vintage kjóla og handgerðar flíkur. Ég hef rosalega gaman af því að blanda tískutrendum saman við og eftir því hvernig mér líður. Ég er rosalega drifin af tilfinningum og þægindum, mér finnst litagleði sérstaklega skemmtileg en er mest í þessum jarðlitatónum sjálf, finn mig vel í þeim.“

Hver er uppáhaldsflíkin þín?

„Uppáhaldsflíkin mín er eða var eldrauður flowy samfestingur með litaskellum á, eiginlega soldið eins og abstrakt málverk, með djúpu vaffhálsmáli sem ég fann í Gyllta kettinum fyrir nokkrum árum. Ég er bara nýhætt að geta notað hann, einfaldlega vegna þess að hann er orðinn of notaður, en draumurinn er að láta sníða nýjan eftir honum.“

Hvaðan færðu innblástur?

„Ég fæ mikinn innblástur frá hinu ýmsa skapandi fólki. Kærastinn minn veitir mér innblástur með myndlist sinni og drifkrafti og eins vinkona mín, fatahönnuðurinn og prjónakonan Fanney Svansdóttir. með sköpun sinni. Ef ég er sérstaklega að leitast eftir innblæstri fer ég á Pinterest, ég alveg elska að vafra um á Pinterest.“

Áttu þeir einhverjar tískufyrirmyndir?

„Bara, einstaklinga sem eru svo innilega og frjálslega þeir sjálfir. Einstaklingar eins og Bowie, Ragga Gísla, Björk, sem hafa tjáð sig svo sterkt með tísku eru mér miklar fyrirmyndir.“

Hvar kaupir þú helst föt?

„Ég kaupi langmest í Gyllta kettinum og Wasteland.“

Eyðirðu miklu í föt?

„Ég myndi ekki segja það, nei. En ég skil svo vel að fólk geri það! Ég hugsa mig alveg alltof óþarflega vandlega um áður en ég eyði pening en ég vil vera viss um að ég muni nota það. Ég elska samt að vera fín en hef verið að reyna að venja mig á að fá kannski lánað fyrir einstaka viðburði eða kaupa notað. Reyni að kaupa ekki mikið nýtt; endurnýta, endurvinna og minnka magn.“

Hver er þinn helsti veikleiki þegar kemur að tísku og útliti?

„Yfirhafnir, ekki spurning. Ég gæti keypt nýja yfirhöfn daglega ef ég stæði ekki á bremsunni. Ég elska fallegar kápur, jakka, úlpur – leður, galla, ull, bara elska allt við þær. Ég er einnig með veikleika fyrir naglalökkum, ég á alltof mikið af naglalökkum.“

Notar þú fylgihluti og skart?

„Ég elska fallega og stóra statement eyrnalokka og síðan trefla, öðru er ég gjörn á að týna.“

Áttu þér eitthvert mottó þegar kemur að tísku og klæðaburði?

„Ef mér líður ekki vel í því, sleppa því. Fyrir mig skiptir það ekki mestu máli hve flottur maður er í flík, ef manni líður ekki vel í henni, þá vil ég síður eyða peningum, orku og tilfinningu í hana. Það er ég sem þarf að klæðast þessu, er ekki að gera neinum nema sjálfri mér óleik ef ég er í einhverju óþægilegu.“