Ómar Gunnar Ómarsson, löggiltur endurskoðandi, bjó í Lundi í Svíþjóð í tólf ár ásamt eiginkonu sinni Huldu Rósu Þórarinsdóttur og tveimur börnum þeirra. Fyrsta árið starfaði hann hjá Deloitte í Noregi en eftir það í Malmö í Svíþjóð. „Ástæða þess að við fluttum til Svíþjóðar var sú að Hulda Rósa fór í sérfræðinám í svæfingar- og gjörgæslulækningum í Lundi. Ég hafði starfað sem löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte á Íslandi árin áður og var kominn með ágætis reynslu. Leiðin inn á sænskan atvinnumarkað sem endurskoðandi var þó ekki auðveld. Þetta var árið 2010, stuttu eftir hrun, og engin sérstök trú á endurskoðendum frá Íslandi. Einnig má segja að nafnið mitt hafi farið frekar fyrir brjóstið á Svíanum. Ég held að ég hafi eytt lang mestum tíma í atvinnuviðtölum við að útskýra að ég væri Íslendingur. Alveg ótrúlegt en svona var það.“

Fór óhefðbundna leið

Þegar lítið gekk að komast að í Svíþjóð ákvað Ómar að fara óhefðbundnar leiðir. Hann sótti um starf hjá Deloitte í Stavanger í Noregi og fékk starf nánast strax. „Ég bjó þó enn í Lundi, en flaug á milli Kaupmannahafnar og Stavanger í hverri viku. Mér taldist til að þetta hafi verið um 80 flug það árið, en hafa ber í huga að ég er mjög flughræddur. Það sem bjargaði þessu var að vinnan í Noregi var virkilega skemmtileg og lærdómsrík.“

Honum bauðst að vera lengur í Noregi og var vinnuveitandi hans meira að segja búinn að finna vinnu fyrir Huldu Rósa. „Þar sem hún var langt komin með sérfræðinámið sitt í Svíþjóð, afþökkuðum við það. Ég hóf þá atvinnuleit að nýju í Svíþjóð. Þrátt fyrir að þurfa svara áfram fyrir nafnið mitt, þá fékk ég vinnu nánast strax og tel ég að reynslan og meðmælin frá Noregi hafi skipt þar sköpum.“

Ýmislegt ólíkt

Ómar segir vinnustaðamenninguna í grunninn vera svipaða milli landanna enda að mörgu leyti líkar þjóðir. „Þó verð ég að nefna að skipulag og agi aðgreinir okkur Íslendinga helst frá Svíum. Það þýðir t.d. lítið að segja Svíanum að þetta reddist og svo er nánast ekki tekin kaffitími nema það sé búið að skipuleggja hann í tíma.“

Viðhorf til endurskoðunar á Íslandi og í Svíþjóð er einnig mjög ólíkt að sögn Ómars, sem hefur síðan áhrif á starfið sem slíkt. „Í Svíþjóð hefur alltaf verið rík endurskoðunarskylda, en sömu sögu er ekki að segja um Ísland. Það sést best á því að almennt er sú krafa gerð að öll félög skuli vera endurskoðunarskyld, en Evrópusambandið hefur þó gefið undanþágu fyrir minni félög sem hverju og einu ríki ber ábyrgð á að innleiða. Þar hafa löndin tvö valið gjörólíkar leiðir sem er mjög áhugavert.“

Ómar Gunnar Ómarsson og eiginkona hans, Hulda Rósa Þórarinsdóttir, ásamt tveimur börnum þeirra.

Fjölbreytt og skemmtileg verkefni

Verkefnin í Svíþjóð og þetta eina ár í Noregi voru fjölbreytt og skemmtileg að hans sögn. „Í Stavanger var áherslan á endurskoðun stærri og meðalstórra fjármálastofnana, ásamt öðrum stærri endurskoðunarverkefnum. Ég hafði þá hugmynd áður en ég fór til Stavanger að þetta væri lítið sjávarpláss. En raunin er sú að þar eru stunduð mikil viðskipti og þar má finna mjög mikið af stórum og flottum félögum, enda er borgin kölluð Dubai norðursins.“

Í Svíþjóð starfaði Ómar einkum við endurskoðun á stórum og meðalstórum félögum, sem í flestum tilvikum voru skráð félög. „Þetta voru framleiðslufyrirtæki af einhverjum toga og fyrirtæki í tæknigeiranum. Mikil gróska hefur verið í þessum geirum á undanförnum árum og gaman að sjá og kynnast fólkinu sem starfar þar.“

Slegist um starfsfólkið

Hlutverk Ómars í Svíþjóð var að stýra endurskoðunarvinnunni, sem snéri þá helst að áhættumatinu á félögunum og stýra þeim aðgerðum sem ákveðið var að framkvæma í framhaldinu, ásamt því að manna teymin sem komu að verkefnunum. „Í mörgum tilvikum var kannski mannaforráðin hvað erfiðust þar sem mannaflinn var oft af skornum skammti. Minnisstæðir eru fundir sem við stjórnendur verkefna héldum í desember ár hvert þar sem var nánast slegist um starfsfólk og tíma til að manna verkefnin.“

Starf Ómars fól í sér mikil ferðalög um Svíþjóð þar sem fyrirtækin sem hann sá um að endurskoða voru dreifð um landið. „Þá kom líka til að mér var falið að skipuleggja og sjá um endurmenntun endurskoðenda inna Deloitte í Svíþjóð síðustu árin. Þetta varð til þess að maður þurfti virkilega að halda sér „up to date“ og fylgjast með nýjungum í faginu.“

Endurskoðendur lenda stundum í vandræðum með endur á golfvellinum. Hér tekur Ómar stöðuna í einum af mörgum golfhringjum sínum í Svíþjóð.

Golfið var fyrirferðamikið

Utan vinnunnar var golfið helsta áhugamál Ómars þau ár sem fjölskyldan bjó þar. „Á þessum tólf árum náði ég að spila nokkuð mikið golf, enda tel ég Skane í suður Svíþjóð algjöra paradís fyrir golfara. Ég mæli hiklaust með að Íslendingar prófi að spila þar enda má finna þar geggjaða golfvelli og veðrið er stórkostlegt fyrir golfarann lang stærstan hluta ársins. Einnig er þetta auðvelt ferðalag, þar sem tíðar ferðir eru frá Íslandi til Kaupmannahafnar og nokkuð ódýrt að spila golf í Svíþjóð.“

Að öðru leyti var lífið í Lundi rólegur og góður tími fyrir fjölskylduna segir Ómar því fjölskyldan var iðulega sjálfri sér næg. „Lundur er háskólabær og bæði rólegur og fallegur staður sem hefur upp á allt að bjóða í þessu daglega lífi. Svo var alltaf stutt að fara yfir til Kaupmannahafnar eða Malmö ef maður vildi fara í stórborgarlífið.“