Árið sem er að líða hefur um margt verið skrýtið og ó­út­reiknan­legt af aug­ljósum á­stæðum.

Við höfum þurft að temja okkur æðru­leysi og þolin­mæði vegna kórónu­veirufar­aldursins. Þó að margt sé öðru­vísi en við eigum að venjast hafa Ís­lendingar svo sannar­lega ekki tapað náunga­kær­leiknum. Frétta­blaðið tók saman fréttir af nokkrum góð­verkum sem vöktu at­hygli á árinu sem er að líða.


Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Kári og CO­VID

Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, var á­berandi á árinu vegna CO­VID-19. Kári er stað­fastur maður sem liggur sjaldnast á skoðunum sínum en hann er líka með stórt hjarta. Nokkur ár eru síðan hann gaf þjóðinni já­eindaskanna og í ár lagði hann hönd á plóginn í bar­áttunni gegn CO­VID-19. Ís­lensk erfða­greining brást skjótt við þegar veiran kom til landsins og hóf að skima fyrir henni í Turninum í Kópa­vogi strax í mars­mánuði. Þá sá fyrir­tækið um að skima fyrir veirunni á landa­mærunum. Kári tók það ekki í mál að rukka ríkið fyrir alla að­stoðina sem þó kostaði stór­fé. „Við myndum aldrei rukka fyrir þá skimun sem var gerð á meðan að far­aldurinn gekk yfir,“ sagði Kári í fréttum RÚV í haust.


Spjald­tölvur komu að góðum notum

Árið var erfitt fyrir íbúa margra hjúkrunar­heimila á landinu enda var al­gjört heim­sóknar­bann í gildi lengi vel vegna veirunnar. Fjöl­margir gátu þó stytt sér stundir í spjald­tölvum, þökk sé ein­stak­lingum, fyrir­tækjum og fé­laga­sam­tökum á landinu. Lions­klúbburinn Ás­björn gaf heimilis­fólki á Hrafnistu í Hafnar­firði tólf spjald­tölvur og heyrnar­tól. Lions­klúbbur Akra­ness gaf í­búum Höfða fjórar spjald­tölvur á­samt heyrnar­tólum. Slysa­varna­deildin Þór­katla færði í­búum hjúkrunar­deilar Víði­hlíðar spjald­tölvur og heyrnar­tól. Þá gaf Lions­klúbburinn Embla á Sel­fossi sex spjald­tölvur og heyrnar­tól á Heil­brigðis­stofnun Suður­lands. Þá færði Elko hjúkrunar­heimilinu Grund fimm spjald­tölvur að gjöf. Svona mætti í raun lengi á­fram telja en spjald­tölvurnar sem fóru á hjúkrunar­heimili landsins skipta tugum ef ekki hundruðum.


Landspítalinn fékk góðar gjafir á árinu.
Fréttablaðið/Vilhelm

Gáfu öndunar­vélar

Fjór­tán ís­lensk fyrir­tæki gáfu Land­spítalanum sau­tján öndunar­vélar, 6.500 sótt­varnar­grímur, 1000 varnar­galla, 2500 varnar­gler­augu og 140 þúsund veirupinna í apríl síðast­liðnum. Kostnaðurinn við gjöfina var yfir 100 milljónir króna. Fyrir­tækin sem stóðu að gjöfinni voru meðal annars Festi, Ís­lands­banki, Bláa lónið, Hagar og Hamp­iðjan.

Vísir greindi frá því í mars að Land­spítalinn hefði fengið fimm­tán öndunar­vélar að gjöf frá Banda­ríkjunum að frum­kvæði Ís­lendings þar ytra sem vildi ekki láta nafns síns getið. Allar þessar öndunar­vélar komu að góðum notum í far­aldrinum.


Garðar hinn góði

Lög­reglan á Suður­nesjum vakti at­hygli á því í septem­ber að maður að nafni Garðar hefði gert sér ferð á lög­reglu­stöðina í Kefla­vík. Garðar hafði fundið veski sem inni­hélt tals­vert af reiðu­fé auk skil­ríkja. Þökk sé Garðari komst veskið í réttar hendur en við þetta til­efni sagði lög­regla: „Það mættu fleiri vera eins og Garðar.“

Föstudagsfréttin...Rétt í þessu kom hann Garðar á lögreglustöðina með seðlaveski sem hann fann í miðbæ Keflavíkur. Í...

Posted by Lögreglan á Suðurnesjum on Föstudagur, 18. september 2020


Skilaði peningunum til eig­anda

Það voru fleiri en Garðar sem fundu peninga á förnum vegi. Piltur á grunn­skóla­aldri hafði sam­band við lög­regluna á höfuð­borgar­svæðinu í nóvember en sá hafði fundið tals­vert magn reiðu­fjár í borginni. Ekki kom fram hversu há upp­hæðin var en að sögn lög­reglu var um að ræða „upp­hæð sem skiptir flesta máli.“ Pilturinn kom peningunum til lög­reglu sem lýsti eftir eig­andanum og gaf hann sig fram skömmu síðar. „Við getum ekki greint frá nafni hins heiðar­lega borgara, en getum þó upp­lýst að þar er um að ræða ungan pilt á grunn­skóla­aldri. Sá er greini­lega mikill fyrir­myndar­piltur,“ sagði lög­reglan í til­kynningu sinni.

Í fyrradag var lýst eftir eiganda peninga, sem fundust í Reykjavík í vikunni, en um var að ræða upphæð sem skiptir...

Posted by Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu on Föstudagur, 6. nóvember 2020


Borgaði fyrir piltinn í Bónus

Hring­braut sagði í ágúst frá já­kvæðu at­viki sem átti sér stað í verslun Bónus í Hóla­garði í Breið­holti. Ka­sia Szafrani­ec hafði sent sjö ára son sinn út í búð til að kaupa mjólk og grjóna­graut. Var pilturinn með kort móður sinnar. Þegar kom að því að borga vandaðist málið því kortið virkaði ekki. Kona sem var fyrir aftan piltinn í röðinni brást við með því að taka upp veskið og borga fyrir hann. Ka­sia lýsti eftir konunni á sam­fé­lags­miðlum í þeirri von að geta borgað henni til baka og gaf hún sig fram í kjöl­farið. Konan þver­tók fyrir að taka við peningum úr hendi Ka­siu og hvatti hana þess í stað til að gefa syni sínum upp­hæðina. Ka­sia sagði í sam­tali við Hring­braut að það væri gott að vita til þess að úti í sam­fé­laginu séu góð­hjartaðir ein­staklingar sem eru til­búnir að hjálpa.


Starfsmaður Nettó kom Össuri til aðstoðar.

Starfs­maðurinn borgaði

Össur Valdimars­son sagði frá því þegar starfs­maður Nettó í Mjódd greiddi fyrir hann þegar hann lenti í vand­ræðum með að borga fyrir vöru sem hann ætlaði að kaupa. Hring­braut greindi frá því að Össur hafi ætlað að kaupa sér 15 kíló af appel­sínum sem voru á til­boði. Hann hugðist greiða fyrir vöruna með banka­appi í símanum en það virkaði ekki. Starfs­maðurinn bauðst til að greiða fyrir vöruna með eigin korti og Össur milli­færði svo á reikning hans um leið. „Maður á að hrósa öllum sem gera góð­­verk gagn­vart náunganum, það skilar sér marg­falt til baka,“ sagði Össur.


Falleg kveðja.

Gjafa­korti rennt inn um lúguna

Elísa Elínar, ung ein­stæð móðir, sagðifrá já­kvæðu at­viki sem átti sér stað rétt fyrir jól. Um­slagi var rennt inn um bréfa­lúguna á heimili hennar en í um­slaginu var inn­eignar­kort í Bónus fyrir 20 þúsund krónur. Elísa hafði ekki hug­mynd um hver gaf henni inn­eignar­kortið sem kom sér ein­stak­lega vel svo skömmu fyrir jól. Í um­slaginu stóð:

Til: Elísu ofur­konu
Frá: Ein­hverjum sem trúir á þig!


Góð­verk í Norð­linga­holti

Anna Marín Ernu­dóttir, íbúi í Hvera­gerði, sá á­stæðu til að hrósa starfs­fólki Olís í Norð­linga­holti í septem­ber síðast­liðnum. Anna hafði þurft að leita sér að­stoðar á Land­spítalann vegna blóð­tappa í hand­leggnum og átti hún ekki von á öðru en að heim­sóknin tæki stutta stund. Eftir langan dag fékk Anna að fara heim rétt fyrir mið­nætti og hugðist hún taka elds­neyti á bensín­stöð Olís í Norð­linga­holti til að komast yfir Hellis­heiðina. Þar sem Anna var ekki með kort með sér hugðist hún freista þess að borga með símanum sínum, en ein­hverra hluta vegna virkaði það ekki. Úr varð að stúlka sem starfar á bensín­stöðinni bauðst til að borga fyrir hana bensínið og gefa henni þar að auki pylsu. Anna lagði svo inn á stúlkuna um leið. Anna var þakk­lát stúlkunni og Olís. Takk, takk, takk svo mikið fyrir að ráða svona yndis­­legt fólk á stöðina ykkar.“


Magnúsi var mjög annt um Landbúnaðarháskóla Íslands.

Skólinn fékk 200 milljónir í arf

Land­búnaðar­há­skóli Ís­lands fékk rausnar­lega gjöf fyrr á árinu þegar í ljós kom að Magnús Óskars­son, fyrr­verandi kennari og til­rauna­stjóri við skólann, hafði arf­leitt hann að öllum eignum sínum. Bænda­blaðið fjallaði um málið í apríl síðast­liðnum en upp­hæðin var um 200 milljónir króna. Magnús lést 28. desember á síðasta ári, 93 ára að aldri.


Li Wei gaf fleiri kíló af mynt til Samhjálpar sem hann gat ekki skipt hér á landi.

Gaf myntina til Samhjálpar

Kínverjinn Li Wei vakti talsverða athygli þegar hann kom til landsins með 170 kíló af mynt fyrr á þessu ári. Um var að ræða skemmda mynt sem Li fékk ekki að skipta hér á landi. Svo fór að hann gaf Samhjálp stóran hluta myntarinnar við mikla ánægju starfsfólks Samhjálpar. „Ég geri mér ekki grein fyrir því hversu mikil verðmæti þetta eru en ég veit að okkur munar um þetta,“ sagði Guðmundur G. Sigurbergsson, fjármála- og rekstrarstjóri Samhjálpar, í samtali við Fréttablaðið í febrúar síðastliðnum.


Friðþjófur gaf sína hækkun til góðgerðarmála.

Vildi ekki launahækkun

Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, greip til sinna ráða þegar hann fékk launahækkun frá bænum sem hann vildi ekki. Hringbraut fjallaði um málið fyrr á árinu. Um var að ræða hækkun upp á tæpar 20 þúsund krónur á mánuði og ákvað hann að gefa sína hækkun, samtals um 200 þúsund krónur, í átta greiðslum til góðgerðarsamtaka. Fyrsta greiðslan fór til samtakanna Samferða.