Guðbjörg Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur starfað á göngudeild hjartabilunar í 12 ár. Hún hóf fyrst störf á Hjartadeild Landspítalans árið 1996 og segist strax hafa fengið brennandi áhuga á þeim sem voru með hjartabilun.
Guðbjörg Jóna segist hafa dottið í lukkupottinn þegar henni bauðst starf á göngudeild hjartabilunar á sínum tíma. „Ég starfa með dásamlegu fólki sem samanstendur af hjúkrunarfræðingum og hjartalæknum með sérþekkingu á hjartabilun. Við eigum frábært samstarf við fleiri fagstéttir sem tilheyra teyminu okkar eins og lyfjafræðinga, sjúkraþjálfara, sálfræðing, félagsráðgjafa, næringarráðgjafa og síðan köllum við til þá fagaðila og aðrar göngudeildir sem við þurfum að eiga í frekara samstarfi við. Auk þess er góð og mikil samvinna innan hjartasviðsins þar sem starfar alveg einvalalið,“ segir Guðbjörg.
Hún bendir á að einnig sé göngudeildin í frábæru samstarfi við heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Selfossi og víðar um landið. „Við veitum þá þjónustu sem við köllum „hjartabilunarþjónustuna“ en þannig getum við veitt skjólstæðingum okkar sem eiga erfitt með að mæta á göngudeildina eftirlit og meðferð heima á vegum heimahjúkrunar. Þannig færum við þjónustuna heim til fólksins og komum í veg fyrir innlagnir á spítalann,“ upplýsir hún.
Fjarvöktun í gegnum app
Guðbjörg greinir frá því að um vorið 2020 þegar Covid var í hámæli og sjúklingar komust ekki á deildina vegna lokana hafi orðið til samstarf við heilbrigðisfyrirtækið Sidekick Health. „Um var að ræða þróun á fjarvöktun við einkennum hjartabilunar í gegnum smáforrit sem sjúklingarnir okkar fengu og þannig gátum við verið í sambandi við þá, fylgst með líðan þeirra og brugðist við versnandi einkennum. Þetta samstarf hefur undið upp á sig og núna fer fram stór rannsókn á göngudeild hjartabilunar með þessu viðbótareftirliti í gegnum fjarvöktun,“ bætir hún við.
Göngudeild hjartabilunar er fyrir einstaklinga sem hafa greinst með hjartabilun og hefur verið vísað á deildina til sérhæfðs mats, eftirlits og meðferðar. „Flestir okkar skjólstæðinga koma til okkar eftir legu á hjartadeildinni og öðrum deildum Landspítalans. Við fáum líka töluvert af beiðnum frá heimilislæknum og hjúkrunarfræðingum í heimahjúkrun. Eftirlit og meðferð á göngudeild hjartabilunar fer eftir þörfum hvers og eins og markmiðum meðferðar. Flestir koma til okkar í bókaðan tíma og síðan getum við verið með eftirlit og ráðgjöf með símtölum, bæði til skjólstæðinga okkar og annarra meðferðaraðila. Fólk fær viðeigandi lyfjameðferð við hjartabilun, lagt er mat á árangur og gerðar breytingar eftir þörfum. Oft þurfum við að gefa þvagræsilyf í æð í bráðri versnun jafnvel nokkrum sinnum í viku. Nokkur ný lyf hafa komið fram á síðustu árum sem er spennandi viðbót við þau lyf sem nú þegar eru í boði,“ segir Guðbjörg.
Fræðslan mikilvæg
„Fræðsla um hjartabilun og hvað hægt er að gera til þess að stuðla að bættu lífi er mjög mikilvægur hluti af okkar starfi. Að þekkja lyfin og aukaverkanir þeirra, að efla sjálfsumönnun og styðja við lífsstílsbreytingar, að þekkja versnandi einkenni hjartabilunar og að geta brugðist við þeim, að meta þjónustuþörf og að sækja um viðeigandi þjónustu – allt þetta ásamt mörgu öðru er mikilvægt að miðla til okkar skjólstæðinga. Flestir koma til okkar með styttra millibili í upphafi meðferðar þegar við erum að setja viðeigandi lyfjameðferð inn og þegar þörfin fyrir stuðning og fræðslu er mikil. Þegar ástand hjartabilunar hefur batnað og haldist stöðugt yfir ákveðinn tíma er áframhaldandi eftirlit í höndum annarra fagaðila eins og hjartalækna á stofu eða heimilislækna. Síðan er alltaf ákveðinn hópur fólks sem er með alvarlega hjartabilun sem er eingöngu hjá okkur.“
Fjöldi sjúklinga hefur margfaldast
Göngudeild hjartabilunar á Landspítala hefur verið starfandi frá árinu 2004 og hefur starfsemin þróast í takt við aukna eftirspurn. Fjöldi skjólstæðinga sem nýtir göngudeild hjartabilunar hefur margfaldast á síðastliðnum tíu árum og eðlilega hefur umfang deildarinnar aukist í takt við þann vöxt.
„Hjartabilunarþjónustan gjörbreytti stöðu okkar skjólstæðinga. Sú þjónusta byrjaði árið 2009 sem samstarfsverkefni Landspítala, Heimaþjónustu Reykjavíkur og Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og var markmið verkefnisins að færa þjónustuna heim til ört stækkandi hóps einstaklinga með hjartabilun og koma þannig í veg fyrir innlagnir á spítala. Síðan er spennandi að sjá hvert fjarvöktunin leiðir okkur í stafrænum heimi sem viðbót við okkar hefðbundna eftirlit,“ segir Guðbjörg og bætir við að Göngudeild hjartabilunar hafi sannað mikilvægi sitt.
Geta fyrirbyggt innlagnir
„Hér áður fyrr þurftu sjúklingar með hjartabilun að leggjast inn á Hjartadeild vegna versnandi ástands og margir áttu ekki möguleika á að komast heim. Með göngudeild hjartabilunar og Hjartabilunarþjónustunni er fólki gert kleift að vera heima, sækja þjónustu á göngudeild eða fá þjónustuna heim. Þannig náum við að fyrirbyggja innlagnir á spítalann og vonandi að bæta lífsgæði okkar skjólstæðinga. Hluti af þjónustunni er símaráðgjöf, eins og fyrr segir, og geta skjólstæðingar hringt í okkur á dagvinnutíma ef eitthvað er. Einnig fáum við skilaboð frá skjólstæðingum okkar í gegnum fjarvöktun smáforritsins frá Sidekick Health en hluti af okkar skjólstæðingum er með appið í þeirri rannsókn sem nú er í gangi. Þannig getum við til dæmis tekið á móti fólki með stuttum fyrirvara ef um versnandi ástand er að ræða og veitt viðeigandi meðferð án þess að leggja fólk inn á spítalann. Fólk upplifir ákveðið öryggi að geta náð í okkur.“
Þegar Guðbjörg er spurð hvort karlar séu fjölmennari í hópi sjúklinga svarar hún: „Um 35% þeirra sem eru á göngudeild hjartabilunar eru konur. Með reglulegu eftirliti, fræðslu og stuðningi erum við að reyna að tryggja eins vel og hægt er góða meðferðarheldni hjá skjólstæðingum okkar og þannig getum við mögulega komið í veg fyrir alvarleg veikindi. Allt gengur þetta út á að bæta lífsgæði okkar frábæru skjólstæðinga með viðeigandi meðferð og eftirfylgd. Það er engin spurning að eftirlit á göngudeild getur komið í veg fyrir alvarlega veikindi hjartasjúklinga,“ segir Guðbjörg.