„Ég var með það markmið þegar ég flutti út að fara í þennan skóla en vissi samt ekki 100% hvað ég vildi læra. Það þróaðist svo þannig að ég fór í fornám og komst svo inn í þetta nám.“

Guðbjörg lauk BA-gráðu í vor í fatahönnun með áherslu á textíl. Hún segir að í náminu sé textíl-hönnunin mjög frjáls. Sumir nemendur einbeita sér aðallega að prenthönnuninni en margir búi til textílinn sjálfir líkt og hún.

„Ég óf efnin mín sjálf í lokaverkefninu. Samt ekki í allar flíkurnar því það hefði tekið mörg ár. En það var partur af minni rannsóknarvinnu í lokaverkefninu að búa til ofin efni,“ segir hún.

Guðbjörg stefnir að sýningu á tískuvikunni í London í september en þar ætlar hún að sýna einfaldari og söluvænni flíkur.

Guðbjörg notaði alls kyns efnivið í efnin. Hún vann part af lokaverkefninu á Íslandi vegna Covid og því var erfiðara að nálgast efnivið en ella, en hún notaði hugmyndaflugið, horfði í kringum sig og notaði það sem hún átti til.

„Ég hef mikið unnið með útsaum og vildi að efnið liti út eins og það væri útsaumur í því. Ég óf því perlur og fjaðrir inn í efnið. Þetta varð svolítið í þrívídd,“ útskýrir hún.

Guðbjörg segist hafa fengið hugmyndir af efnum út frá rannsóknarvinnunni sinni fyrir verkefnið. Rannsóknarvinnan snerist meðal annars um að skoða hluti sem hún átti þegar hún var lítil.

„Þetta eru hlutir sem skipta engan annan máli. Svona skrýtnir hlutir sem maður horfði á hversdagslega en var ekkert mikið að spá í samt,“ segir Guðbjörg.

Guðbjörg notaði mikið af björtum litum í efnin sem hún óf. myndir/aðsendar

„Ég horfði á hlutina og tengdi þá við ákveðna minningu eða fór að hugsa um ákveðinn stað. Þannig að efnin eru saga um umhverfið mitt. Í verkefninu mínu áttu efnin, formin og litirnir að standa fyrir tilfinningar og minningar sem var ein helsta rannsóknarvinnan.“

Litirnir í útskriftarverkefni Guðbjargar eru mjög bjartir og skærir. Guðbjörg segist alltaf hafa verið mjög litrík í sér, kannski ólíkt mörgum Íslendingum.

„Ég hef alltaf leitað mikið í liti. Það er ákveðin þerapía í litum og formi. Ég tengi liti við tilfinningar. Litir fyrir mér eru miklar tilfinningar. Þetta varð þess vegna mjög litríkt verkefni.“

Efnin, formin og litirnir standa fyrir tilfinningar og minningar Guðbjargar.Serbl_Myndatexti:

Notaði stafrænan vefstól

Guðbjörg notaði tvær tegundir vefstóla til að vefa efnin. Annars vegar stafrænan vefstól sem er staðsettur á Textílmiðstöðinni á Blönduósi og hins vegar hefðbundinn vefstól.

„Þegar ég nota stafræna vefstólinn þá bý ég mynstrið til í Photoshop. Þá get ég eiginlega gert hvað sem er. Ég set það svo inn í tölvu sem er tengd vefstólnum. Vefstóllinn les mynstrið og býr til loka-bindimynstrið fyrir mig,“ útskýrir Guðbjörg.

„Þetta er mjög skemmtileg tækni og ótrúlega gaman að geta gert í rauninni hvað sem ég vil í vefstól. Ég stjórna samt vefstólnum sjálf, en það er hægt að gera mun flóknari hluti en í hefðbundnum vefstól. Þennan vefstól notaði ég til að gera mynstur sem ég var búin að hanna. En þegar ég notaði hefðbundna vefstólinn þá var eiginlega ekkert planað. Ég var með ákveðna hugmynd af því sem ég vildi og bjó til prufur áður en ég gerði efnin, en svo gerði ég í raun bara það sem mér datt í hug á staðnum.“

Guðbjörg Þóra óf perlur og fjaðrir í efnið.Serbl_Myndatexti:

Sýnir á tískuviku í september

Guðbjörg er núna að þróa lokaverkefnið áfram og er byrjuð að þróa ný efni og textíl. Hún er svo að fara að sýna á tískuvikunni í London í september svo það er nóg að gera. Hún segir planið að vera áfram í London og vinna í tísku- og textílgeiranum.

„Markmiðið með sýningunni í september er að gera hluti sem eru söluvænni en það sem ég gerði í lokaverkefninu. Ég er að nota mynstrin úr lokaverkefninu og vinn nú að því en gera einfaldari flíkur sem hægt er að selja og nota hversdagslega ,“ segir Guðbjörg.

„Mig langar að bíða með að fara í mastersnám og er að skoða atvinnutækifæri. Ég hef til dæmis áhuga á að prófa búningahönnun. Ég ætla svo með fram vinnu að reyna að gera mína eigin hluti,“ bætir hún við og ljóst er að framtíðin er björt hjá þessari ungu konu sem ekki skortir hæfileikana.