Fram eftir nýliðinni öld deildu menn um íslenska myndlist á forsendum þjóðhollustu fremur en fagurfræði. Inn í þá umræðu voru stundum dregnar erlendar myndlistarstefnur, eftir því hvort þær féllu að listrænum hagsmunum Íslendinga eður ei. Þá var myndlistarleg heimsmynd Íslendinga tiltölulega fábreytt; fyrir þeim var listin annað hvort þýsk eða frönsk. Þeim sem annt var um það sem þeir kölluðu „heilindi“ íslenskrar myndlistar, töldu að hún ætti að taka sér til fyrirmyndar þýsku myndlistina, að því gefnu að hún væri laus við áhrif frá bolsévíkum og Gyðingum. Íslendingar væru jú þjóð af sama germanska meiði og Þjóðverjar. Sjálfir gerðu Þjóðverjar og Frakkar greinarmun á myndlist þjóðanna, eins og hún birtist á tuttugustu öldinni. Að þeirra mati snerist þýsk myndlist fyrst og fremst um tjáningu sjálfsins, en frönsk myndlist var athugun á tjáningu sjálfsins. Á þessu er umtalsverður munur.
Á Íslandi var frönsk myndlistarhefð síðast til umræðu í kjölfar strangflatarlistarinnar á sjötta áratugnum, enda var sú vitsmunalega, yfirvegaða myndlist sannarlega sprottin upp úr því sem var að gerast í menningarlífinu í París á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Síðan leið og beið, allt þar til „nýja málverkið“ hafði runnið sitt skeið á enda. Þá er það sem þrír ungir listamenn frá Akureyri halda til Frakklands í framhaldsnám, fyrstu íslensku listmálarar til að gera það í áratugi. Þarna er ég að tala um þá Birgi Snæbjörn Birgisson, Sigtrygg Bjarna Baldvinsson og Sigurð Árna Sigurðsson.
Þessir þrír listamenn báru sig öðruvísi að en flestir jafnaldrar þeirra í íslenskri myndlist. Myndlist þeirra var – og er – hófstillt, yfirveguð og knúin áfram af rannsóknarþörf, enquěte, fremur en tjáningu sjálfsins, sem er einmitt einkenni á bestu málaralist Frakka. Birgir Snæbjörn hefur helgað sig athugunum á kynjabundnum staðalímyndum og myndlist Sigtryggs Bjarna snýst fyrst og síðast um hegðan vatnsins í íslenskri náttúru. Og nú má kynna sér til hlítar hvað Sigurður Árni hefur haft fyrir stafni síðastliðin þrjátíu ár, því enn stendur yfir gagnvönduð yfirlitssýning á verkum hans að Kjarvalsstöðum. Þetta er ekki sýning þar sem leitast er við að koma til skila öllu sem listamaðurinn hefur fengist við um dagana, heldur er hún straumlínulöguð að helstu hugmyndum hans og viðfangsefnum. Hér er sýningarstjórinn, Markús Þór, á heimavelli, og vélar um það sem hann hefur þekkingu á.
Takmörk og villuljós skynjunar
Að einu leyti þykir mér hann þó skjóta yfir strikið. Sýningin ber það fremur almenna nafn „ÓraVídd“ eða „Expanse“ á ensku. Í orðabók Menningarsjóðs stendur: „óravíddir“; einhver hinna þriggja stefna sem unnt er að mæla hluti í rúminu í, þ.e. lengd, breidd eða hæð“. Ég held að ekki þurfi að rýna lengi í verk Sigurðar Árna til að sjá að viðfangsefni hans er ekki „umfang“ rýmisins – eða tómsins – hvað þá „mælanleiki“ þess, heldur miklu frekar birtingarmyndir rýmis/tóms alls staðar í umhverfi okkar, og þau áhrif, tilfinningaleg eða vitsmunaleg, sem þær hafa á skynjun okkar. Til að mynda verður mörgum þeim sem fjalla um ævistarf Sigurðar Árna tíðrætt um skuggamótífið, sem er auðvitað býsna fyrirferðarmikið í verkum listamannsins. En skuggar, burtséð frá því sálfræðilega og bókmenntalega trússi sem á þá hefur hlaðist í tímans rás, eru kannski fyrst og fremst rýmið ( eða „óefnið“?) gert sýnilegt fyrir tilviljanir fjarveru – ljóssins.

Það sem er auðvitað mesta undrið, og knýr Sigurð Árna áfram í rannsóknum sínum, er hve stórt hlutverk óefnið leikur í þeim heimi rökhyggju og áþreifanleika sem við teljum okkur vera hluta af. Þannig málar Sigurður Árni hverja myndina á fætur annarri, þar sem endurkast hluta eða forma kallar á jafn mikla athygli áhorfandans eins og hlutirnir sjálfir. Hér er ekki á ferðinni ábyrgðarlaus leikur með form og endurkast þeirra, heldur grafalvarlegar ábendingar um takmörk og villuljós skynjunar. Væntanlega gefur augaleið að ef óefnið, fjarvera hlutanna, er orðið snar þáttur þess „sýnilega veruleika“ sem við búum við, þá er veraldleg vegferð okkar meira óvissuferðalag en við áttum okkur á.
Óefnið er gert sýnilegt með margvíslegum hætti í verkum Sigurðar Árna. Plexíglerplötur í litum eru festar framan á ljósa fleti til að sýna – og virkja – bilið milli glers og flata, þar sem verður til og blandast „litað“ endurkast, s.s. tómarúm. Listamaðurinn gerir teikningar á hálfgagnsæjan smjörpappír og leggur ofan á aðrar teikningar; við það myndast „merkingarými“ milli teikniflatanna beggja.
Huglægir staðir
Sameindamyndir Sigurðar Árna, sem eru eins konar tilbrigði við samtengd mólekúl, hafa reynst honum heilladrjúg verkfæri í framköllun óefnis. Málverk og lágmyndir af „sameindum“ hafa gert honum kleift að gangsetja ýmiss konar leiki með skuggafleti og rými. Framhald þeirra verka eru lágmyndir úr málmi, teygðar á ýmsa vegu svo að úr fjarlægð virðist eiga sér stað ummyndun sjálfs rýmisins/óefnisins innan í þessum verkum („Valerie“).
Mestar víddir er Sigurður Árni með undir í þeim verkum sem láta einna minnst yfir sér, formrænt séð. Þar á ég við nokkra álskúlptúra á miðju gólfi, verkin „Landrek“ (1999) og „Án titils“ (2007). Þessi verk hafa ekki ósvipaða verkan og „útvortis“ húsið hans Hreins Friðfinnssonar, þar sem allir innveggir sneru út, þar með taldist gjörvallur heimurinn hluti af innréttingum hússins. Í Landreksverkum mætast „flekar“ sem marka fyrir lárettum víddum, sem eru auðvitað takmarkalaust óefni. „Án titils“ er röð kringlóttra álþynna sem festar eru hornrétt saman um miðjuna, og þar sem þær standa á gólfi safna þær til sín opnu rými úr öllum áttum, verða miðpunktur þar sem allar áttir eiga upphaf sitt.

Gaman er að sjá íslenska myndlistarhefð og franska renna saman í langvarandi glímu Sigurðar Árna við óefnið. Í mynd frá 1990 tekur hann til athugunar „gegnheila“ skýjabólstra Jóns Stefánssonar (með rætur í verkum málarans og hugsuðarins Cézanne) og býr þeim eins konar „hreiður“ í áþreifanlegu landslagi. En þessar hugmyndir fá verulegan byr undir vængi við náin kynni Sigurðar Árna af arfleifð Marcels Duchamps, helstu mannvitsbrekku franskrar myndlistar. Og ef hægt er að tala um jákvæða nærveru útlends listamanns í myndlist hans, þá er Duchamp sá maður.
Í verkum hans rekst Sigurður Árni á ýmsa nytsamlega vegvísa, hvort sem hann er að velta fyrir sér eðli óefnis, eða fást við þverstæður í mannlegu atferli og skynjun. Pælingar um skugga, tómarúm og óefni er víða að finna í hlutgervingum Duchamps, að ógleymdri kaldhæðnislegri íróníu sem Sigurði Árna hugnast vel. Írónískir viðaukar hans við ljósmyndaefni, gamalt og nýtt, eru augljóslega þráðbeint framhald á teiknuðum hlutgervingum meistarans ( sjá „Apótek“ 1914-45). Loks er í verkum þeirra beggja sterk erótísk undiralda, sjá opinskáar konumyndir Sigurðar Árna.
Í viðtali í Fréttablaðinu segist Sigurður Árni ekki enn vera kominn að beinni niðurstöðu í verkum sínum. „Það opnast bara meiri víðátta, hæð tekur við af hól og ég held bara áfram.“ Með þessu áframhaldi eru honum allir vegir færir.