Fram eftir ný­liðinni öld deildu menn um ís­lenska mynd­list á for­sendum þjóð­hollustu fremur en fagur­fræði. Inn í þá um­ræðu voru stundum dregnar er­lendar mynd­listar­stefnur, eftir því hvort þær féllu að list­rænum hags­munum Ís­lendinga eður ei. Þá var mynd­listar­leg heims­mynd Ís­lendinga til­tölu­lega fá­breytt; fyrir þeim var listin annað hvort þýsk eða frönsk. Þeim sem annt var um það sem þeir kölluðu „heilindi“ ís­lenskrar mynd­listar, töldu að hún ætti að taka sér til fyrir­myndar þýsku mynd­listina, að því gefnu að hún væri laus við á­hrif frá bol­sé­víkum og Gyðingum. Ís­lendingar væru jú þjóð af sama germanska meiði og Þjóð­verjar. Sjálfir gerðu Þjóð­verjar og Frakkar greinar­mun á mynd­list þjóðanna, eins og hún birtist á tuttugustu öldinni. Að þeirra mati snerist þýsk mynd­list fyrst og fremst um tjáningu sjálfsins, en frönsk mynd­list var at­hugun á tjáningu sjálfsins. Á þessu er um­tals­verður munur.

Á Ís­landi var frönsk mynd­listar­hefð síðast til um­ræðu í kjöl­far strang­flatar­listarinnar á sjötta ára­tugnum, enda var sú vits­muna­lega, yfir­vegaða mynd­list sannar­lega sprottin upp úr því sem var að gerast í menningar­lífinu í París á árunum eftir síðari heims­styrj­öld. Síðan leið og beið, allt þar til „nýja mál­verkið“ hafði runnið sitt skeið á enda. Þá er það sem þrír ungir lista­menn frá Akur­eyri halda til Frakk­lands í fram­halds­nám, fyrstu ís­lensku list­málarar til að gera það í ára­tugi. Þarna er ég að tala um þá Birgi Snæ­björn Birgis­son, Sig­trygg Bjarna Bald­vins­son og Sigurð Árna Sigurðs­son.

Þessir þrír lista­menn báru sig öðru­vísi að en flestir jafn­aldrar þeirra í ís­lenskri mynd­list. Mynd­list þeirra var – og er – hóf­stillt, yfir­veguð og knúin á­fram af rann­sóknar­þörf, enquěte, fremur en tjáningu sjálfsins, sem er ein­mitt ein­kenni á bestu málara­list Frakka. Birgir Snæ­björn hefur helgað sig at­hugunum á kynja­bundnum staðal­í­myndum og mynd­list Sig­tryggs Bjarna snýst fyrst og síðast um hegðan vatnsins í ís­lenskri náttúru. Og nú má kynna sér til hlítar hvað Sigurður Árni hefur haft fyrir stafni síðast­liðin þrjá­tíu ár, því enn stendur yfir gagn­vönduð yfir­lits­sýning á verkum hans að Kjarvals­stöðum. Þetta er ekki sýning þar sem leitast er við að koma til skila öllu sem lista­maðurinn hefur fengist við um dagana, heldur er hún straum­línu­löguð að helstu hug­myndum hans og við­fangs­efnum. Hér er sýningar­stjórinn, Markús Þór, á heima­velli, og vélar um það sem hann hefur þekkingu á.

Takmörk og villuljós skynjunar

Að einu leyti þykir mér hann þó skjóta yfir strikið. Sýningin ber það fremur al­menna nafn „Óra­Vídd“ eða „Expan­se“ á ensku. Í orða­bók Menningar­sjóðs stendur: „óra­víddir“; ein­hver hinna þriggja stefna sem unnt er að mæla hluti í rúminu í, þ.e. lengd, breidd eða hæð“. Ég held að ekki þurfi að rýna lengi í verk Sigurðar Árna til að sjá að við­fangs­efni hans er ekki „um­fang“ rýmisins – eða tómsins – hvað þá „mælan­leiki“ þess, heldur miklu frekar birtingar­myndir rýmis/tóms alls staðar í um­hverfi okkar, og þau á­hrif, til­finninga­leg eða vits­muna­leg, sem þær hafa á skynjun okkar. Til að mynda verður mörgum þeim sem fjalla um ævi­starf Sigurðar Árna tíð­rætt um skugga­mótífið, sem er auð­vitað býsna fyrir­ferðar­mikið í verkum lista­mannsins. En skuggar, burt­séð frá því sál­fræði­lega og bók­mennta­lega trússi sem á þá hefur hlaðist í tímans rás, eru kannski fyrst og fremst rýmið ( eða „ó­efnið“?) gert sýni­legt fyrir til­viljanir fjar­veru – ljóssins.

Þetta er ekki sýning þar sem leitast er við að koma til skila öllu sem listamaðurinn hefur fengist við, segir Aðalsteinn Ingólfsson.

Það sem er auð­vitað mesta undrið, og knýr Sigurð Árna á­fram í rann­sóknum sínum, er hve stórt hlut­verk ó­efnið leikur í þeim heimi rök­hyggju og á­þreifan­leika sem við teljum okkur vera hluta af. Þannig málar Sigurður Árni hverja myndina á fætur annarri, þar sem endur­kast hluta eða forma kallar á jafn mikla at­hygli á­horf­andans eins og hlutirnir sjálfir. Hér er ekki á ferðinni á­byrgðar­laus leikur með form og endur­kast þeirra, heldur graf­alvar­legar á­bendingar um tak­mörk og villu­ljós skynjunar. Væntan­lega gefur auga­leið að ef ó­efnið, fjar­vera hlutanna, er orðið snar þáttur þess „sýni­lega veru­leika“ sem við búum við, þá er verald­leg veg­ferð okkar meira ó­vissu­ferða­lag en við áttum okkur á.

Ó­efnið er gert sýni­legt með marg­vís­legum hætti í verkum Sigurðar Árna. Plexí­gler­plötur í litum eru festar framan á ljósa fleti til að sýna – og virkja – bilið milli glers og flata, þar sem verður til og blandast „litað“ endur­kast, s.s. tóma­rúm. Lista­maðurinn gerir teikningar á hálf­gagn­sæjan smjör­pappír og leggur ofan á aðrar teikningar; við það myndast „merkinga­rými“ milli teikni­flatanna beggja.

Huglægir staðir

Sam­einda­myndir Sigurðar Árna, sem eru eins konar til­brigði við sam­tengd mó­lekúl, hafa reynst honum heilla­drjúg verk­færi í fram­köllun ó­efnis. Mál­verk og lág­myndir af „sam­eindum“ hafa gert honum kleift að gang­setja ýmiss konar leiki með skugga­fleti og rými. Fram­hald þeirra verka eru lág­myndir úr málmi, teygðar á ýmsa vegu svo að úr fjar­lægð virðist eiga sér stað um­myndun sjálfs rýmisins/ó­efnisins innan í þessum verkum („Valerie“).

Mestar víddir er Sigurður Árni með undir í þeim verkum sem láta einna minnst yfir sér, form­rænt séð. Þar á ég við nokkra álskúlptúra á miðju gólfi, verkin „Land­rek“ (1999) og „Án titils“ (2007). Þessi verk hafa ekki ó­svipaða verkan og „út­vortis“ húsið hans Hreins Frið­finns­sonar, þar sem allir inn­veggir sneru út, þar með taldist gjör­vallur heimurinn hluti af inn­réttingum hússins. Í Land­reks­verkum mætast „flekar“ sem marka fyrir lárettum víddum, sem eru auð­vitað tak­marka­laust ó­efni. „Án titils“ er röð kringl­óttra ál­þynna sem festar eru horn­rétt saman um miðjuna, og þar sem þær standa á gólfi safna þær til sín opnu rými úr öllum áttum, verða mið­punktur þar sem allar áttir eiga upp­haf sitt.

Á sýningunni má sjá verk listamannsins frá síðustu þrjátíu árum.

Gaman er að sjá ís­lenska mynd­listar­hefð og franska renna saman í lang­varandi glímu Sigurðar Árna við ó­efnið. Í mynd frá 1990 tekur hann til at­hugunar „gegn­heila“ skýja­bólstra Jóns Stefáns­sonar (með rætur í verkum málarans og hugsuðarins Cézanne) og býr þeim eins konar „hreiður“ í á­þreifan­legu lands­lagi. En þessar hug­myndir fá veru­legan byr undir vængi við náin kynni Sigurðar Árna af arf­leifð Marcels Duchamps, helstu mann­vits­brekku franskrar mynd­listar. Og ef hægt er að tala um já­kvæða nær­veru út­lends lista­manns í mynd­list hans, þá er Duchamp sá maður.

Í verkum hans rekst Sigurður Árni á ýmsa nyt­sam­lega veg­vísa, hvort sem hann er að velta fyrir sér eðli ó­efnis, eða fást við þver­stæður í mann­legu at­ferli og skynjun. Pælingar um skugga, tóma­rúm og ó­efni er víða að finna í hlut­gervingum Duchamps, að ó­gleymdri kald­hæðnis­legri íróníu sem Sigurði Árna hugnast vel. Írónískir við­aukar hans við ljós­mynda­efni, gamalt og nýtt, eru aug­ljós­lega þráð­beint fram­hald á teiknuðum hlut­gervingum meistarans ( sjá „Apó­tek“ 1914-45). Loks er í verkum þeirra beggja sterk erótísk undir­alda, sjá opin­skáar konu­myndir Sigurðar Árna.

Í við­tali í Frétta­blaðinu segist Sigurður Árni ekki enn vera kominn að beinni niður­stöðu í verkum sínum. „Það opnast bara meiri víð­átta, hæð tekur við af hól og ég held bara á­fram.“ Með þessu á­fram­haldi eru honum allir vegir færir.