Basískar lausnir eru betri til að ráðast gegn óhreinindum, fitu, prótínum og öðrum lífrænum efnum. Súrar lausnir vinna betur á kalki, ryði og öðrum steinefnum. Að þekkja pH-gildi efnanna getur því verið gagnlegt.

Sýrustig eða pH-gildi er mælikvarði fyrir hversu súr vökvi er. Gildi frá 0 til 7 tákna súra lausn, því súrari sem gildið er lægra, gildið 7 táknar hlutlausa lausn, og gildi frá 7 og upp í 14 tákna basíska lausn (því basískari sem gildið er hærra).

Vatn er hlutlaust og er með pH-gildi 7.

Basískar lausnir með pH-gildi hærra en 7 gagnast best til að þrífa:

- Fitug gólf

- Óhreina veggi

- Tjöru

- Vélar og verkfæri

- Vélarolíu, dísilolíu, ásafitu

- Matarolíu

- Háfana í eldhúsinu

- Bakaraofna

Súrar lausnir með pH gildi lægra en 7 gagnast best til að þrífa:

- Vatnsbletti

- Ryð

- Kalkáfellingar

- Kalkstein

- Uppþvottavélina að innan

- Salerni

- Sturtuklefa

- Þvagskálar

Best er að nota umhverfisvæn efni til að þrífa. Leiðbeiningastöðin mælir með svansmerktum hreinsiefnum. Borðedik og matarsódi eru líka tilvalin hreinsiefni á heimilinu en gæta þarf þess að nota ekki edikið á hvað sem er þar sem það er ætandi. Mild sápa er best við flest dagleg þrif.

Klór: pH 11 til 13

Klór er bleikiefni. Hann er mjög basískur og fer næstum því eins hátt á pH-skalanum og hægt er. Klór er mjög ætandi og nauðsynlegt er að lofta vel út þegar hann er notaður. Klór er ekki hægt að nota hvar sem er, hann getur skaðað húð og eyðilagt yfirborð ýmissa efna. Aldrei ætti að blanda klór saman við önnur hreinsiefni. Klór er hins vegar góður til að bleikja (hvítta) og fjarlæga bletti (í hvítum fatnaði).

Matarsódi virkar vel til að ná erfiðum blettum. NORDICPHOTOS/GETTY

Klór er ekki hreinsiefni, hann er sótthreinsiefni og ætti að nýta til að drepa sýkla og örverur, ekki til að fjarlægja óhreinindi. Margir nota klórblöndu við þrif á baðherbergjum til að sótthreinsa.

Ofnahreinsir: pH 11 til 13

Flestir ofnahreinsar eru mjög basískir og virka því vel til að ná erfiðum viðbrenndum óhreinindum úr ofnum. Þegar ofnahreinsar eru notaðir ætti alltaf að fara mjög gætilega og nota hanska og loftræsta vel.

Umhverfisvænni leið til að þrífa ofna er brúnsápa eða matarsódi.

Matarsódi: pH 8 til 9

Matarsódinn er líka basísk lausn. En bara rétt svo. Vegna þess að matarsódinn er basískur en ekki nægilega basískur til að vera ertandi þá er hann frábær kostur til að nýta á margan hátt við þrifin á heimilinu.

Matarsódinn er frábær í niðurfallið með rennandi heitu vatni. Hann hreinsar, frískar og tekur lykt. Matarsódi er líka tilvalinn til að fríska upp á þvottinn. Hann er fínn sem mýkingarefni og til að eyða lykt úr þvotti. Einnig er hægt að nota matarsóda til að þrífa þvottavélina, ísskápinn, örbylgjuofninn, uppþvottavélina, potta, pönnur og til að eyða lykt úr ruslafötunni.

Þá má strá matarsóda yfir rúmdýnuna og láta bíða í góða stund, jafnvel yfir nótt, og ryksuga hann svo upp.

Ofnahreinsar eru flestir mjög basískir og ertandi. Þá er betra og umhverfisvænna að nota matarsóda til að þrífa bakaraofninn. NORDICPHOTOS/GETTY

Borðedik: pH 2,0 til 2,9

Algengast er að finna borðedik sem blönduna 5% edikssýra á móti 95% vatni. Þó svo að borðedik sé þynnt edikssýra þá er það samt ætandi og ætti að farlega varlega í notkun þess. Vegna sótthreinsandi eiginleika borðediks er það gott til að drepa til dæmis örverur vegna myglu og sveppagróður til dæmis á flísum inni á baðherberginu eða í gluggakörmum. Sýran í edikinu virkar vel á steinefni og þar með vel á kalkútfellingar á flísum og í sturtunni og baðkarinu.

Borðedik er súr lausn og ætti því að nota gætilega. Borðedik má alls ekki nota á hvað sem er.

Hægt er að finna nánari upplýsingar um hvar má ekki nota borðedik á vefsíðu Leiðbeiningastöðvar heimilanna.

Sítróna: pH 2,3

Sítrónan er súr lausn eins og borðedikið og gagnast því vel við þrif á steinefnum eins og kalki á baðherbergjum og í sturtuklefum.

Sítrónan er oftast notuð við þrif með salti en það er til að fá slípieiginleika saltsins með í þrifin.

Sítrónan er líka náttúrulegt bleikiefni og nýtist vel á bletti í ljósum flíkum.


Birt með góðfúslegu leyfi Leiðbeiningastöðvar heimilanna.