Innblásturinn er eðlilega sóttur í nýja eldgosið sem myndast hefur í Meradölum og hefur heltekið alla umræðu og miðla.

Aðspurð segir Erla Hlynsdóttir, stofnandi hópsins, að dæmt verði frá útliti brauðtertunnar en þátttakendur senda mynd af sínu meistaraverki inn í sérstakt albúm í fésbókarhópnum sunnudaginn 14. ágúst og í framhaldinu geta meðlimir hópsins kosið um hvaða brauðterta nær best að fanga eldgosaþemað. Á hádegi þriðjudaginn 16. ágúst lýkur kosningu og þá verður ljóst hver ber sigur úr býtum. Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin, svo að minnst þrjá gosbrauðtertur eiga eftir að njóta sín og til mikils er að vinna.

„Við höfum fengið mikil viðbrögð við keppninni og greinilegt að fólk er til í þetta. Það er svo mikil sköpunargleði í þessum hópi og ég hlakka mikið til að sjá hvernig brauðtertur fólk gerir. Það er auðvitað áskorun að gera brauðtertu þar sem þemað er eldgos en ég veit að það hæfileikaríka fólk sem tekur þátt á eftir að gera það með glæsibrag,“ segir Erla og er orðin mjög spennt.

Brauðtertufélag Erlu og Erlu stóð fyrir glæsilegri og eftirminnilegri brauðtertukeppni árið 2019 í tengslum við menningarnótt. Félagið hélt þá keppnina í samstarfi við hönnuðina Tönju Huld Levý og Valdísi Steinarsdóttur og var brauðtertukeppnin haldin í Listasafni Reykjavíkur á Menningarnótt með styrk frá Reykjavíkurborg. Þá var keppt í þremur flokkum, um fallegustu, frumlegustu og bragðbestu brauðtertuna og veitt voru verðlaun veitt í hverjum flokki. Keppnin vakti gríðarlega athygli og heppnaðist glimrandi vel og til stóð að halda hana árlega. Því miður varð ekki úr því vegna COVID og viðburðir eins og Menningarnótt og þar með brauðtertukeppnin var ekki haldin síðastliðin tvö ár.

Frumlegasa brauðtertan 2019

Hér má sjá brauðtertuna sem hlaut verðlaun fyrir að vera sú frumlegasta í brauðtertukeppninni árið 2019.

Gaman er að geta þess að bæði verðlaunahafarnir fyrir bragðbestu og frumlegustu brauðterturnar komu fram í þættinum Matur og heimili á Hringbraut og ljóstruðu upp leyndarmálinu bak við sínar verðlaunabrauðtertur. Sólrún Sigurðardóttir bar sigur úr býtum í brauðtertukeppninni fyrir bragðbestu brauðtertuna, Hamingjutertuna. Hamingjutertan heillaði dómnefndina upp úr skónum um leið og fyrsti bitinn var tekinn.

„Eftir hana varð ég svo yfir mig hrifin af þeirri sem var valin bragðbesta brauðtertan, Hamingjutertan hennar Sólrúnar Sigurðardóttur, að ég hef oft haft hana á borðum síðan. Ég var þá í dómnefndinni og man vel að þetta var þriðja tertan sem við smökkuðum, og það var bara engin önnur sem toppað hana þegar kom að bragðgæðum. Ótrúlega hressandi að hafa græn epli og sæta chillisósu í brauðtertu,“ segir Erla dreymin á svip. Eins og fram hefur komið var auk þess að velja bragðbestu brauðtertuna var valin sú fallegasta og sú frumlegast.

Keppnin í ár fer hins vegar aðeins fram á netinu og sem fyrr segir tileinkuð eldgosaþema sem má með sanni segja að sé ansi frumlegt. Þó dæmt verði út frá myndum að þessu sinni verður brauðtertan sannarlega að vera lostæti og eiga þátttakendur því sömuleiðis að greina frá helstu hráefnum sem þeir notuðu í brauðtertugerðina.

Brauðtertuáhugi þjóðarinnar er gríðarlega mikill og miðað við hversu duglegt fólk er að birta myndir af majóneshúðuðum sköpunarverkum sínum á samfélagsmiðlum má búast við mikilli þátttöku og rífandi stemningu í brauðtertugerðinni sem á sér enga líka.

Vinningarnir eru líka verðugir fyrir brauðtertuaðdáendur. Ásbjörn Ólafsson ehf. gefur fallega stálbakka fyrir brauðtertur, Landnámsegg gefa egg frá frjálsum landnámshænum í Hrísey, Pro Gastro gefur japanskan brauðhníf og japanskan grænmetishníf, Náttúrulega gaman gefur Litabombur sem innihalda ýmsa ofurfæðu og henta vel til að lita mat á heilnæman hátt og Granólabarinn gefur handgert granóla án viðbætts sykurs.

Við munum fylgjast grannt með keppninni og hlökkum til að sjá útkomuna.