Fyrirtækið EFLA hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2022. Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 34. sinn en þau voru fyrst afhent árið 1989. Meðal fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Íslensk erfðagreining, Icelandair, Nox Medical, Bláa lónið og Lýsi hf, og á síðasta ári hlaut Controlant verðlaunin.

Í tilkynningu frá Íslandsstofu kemur fram að EFLA hefur á undanförnum árum skapað sér sess sem alhliða þekkingarfyrirtæki og unnið markvert starf við að koma hugviti sínu og vörum á framfæri erlendis. Stofan er stærsta verkfræðistofa landsins. Þar kemur einnig fram að fyrirtækið hefur unnið að veigamiklum verkefnum á sviði orkuflutningsmannvirkja víða um heim og er nú í fremstu röð á því sviði.

Samhliða afhendingu Útflutningsverðlaunanna var Víkingi Heiðari, píanóleikara, veitt heiðursviðurkenning fyrir eftirtektarverð störf á erlendri grundu. Meðal fyrri verðlaunahafa eru til dæmis Baltasar Kormákur, frú Vigdís Finnbogadóttir, Arnaldur Indriðason og Björk.

Víkingur Heiðar við athöfnina í dag.
Mynd/Aðsend

Í tilkynningu segir að tilgangurinn með veitingu Útflutningsverðlaunanna sé að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum mörkuðum og fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Sif Gunnarsdóttir, frá embætti forseta Íslands, Gylfi Magnússon, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Katrín Olga Jóhannesdóttir frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Hildur Árnadóttir frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á kostnaði og framkvæmd við verðlaunaveitinguna.