„Ég hef alltaf reynt að tala vel til sjálfrar mín. Þá skiptir engu máli hvort ég fái góða eða vonda hugmynd; ég læt það ekki á mig fá og stend með sjálfri mér. Ég reyni bara að hlusta á innri rödd og fjölskylduna mína. Ég hef hins vegar, eins og flestar stelpur á unglingsárunum, strögglað með sjálfsmyndina, en eftir því sem ég hef elst hefur mér orðið meira sama og þegar manni er sama, þá líður manni betur. Ég tala vel til sjálfrar mín og mér finnst ég flott, enda sést það líka á útliti manns og fasi ef maður hugsar illa til sín. Því er númer eitt, tvö og þrjú að þykja vænt um sjálfan sig.“

Þetta segir Brynhildur Brá Gunnlaugsdóttir, 21 árs gamall Héraðsbúi, fædd og uppalin á Egilsstöðum en nú búsett í Hafnarfirði.

Brynhildur hefur á örfáum mánuðum orðið ein fárra Íslendinga til að ná yfir milljón fylgjendum á samfélagmiðlinum TikTok, en nú fylgir 1,1 milljón manns lífi hennar eftir.

„Það er auðvitað klikkað og ég veit eiginlega ekki hvað er í gangi, en ég kvarta heldur ekki, því þetta er klárlega það sem ég hafði beðið eftir. Við Arnar Gauti Arnarsson, eða Lil Curly, vorum í keppni og bæði mjög nálægt milljón manns, en höfum nú bæði náð því og erum í dag hnífjöfn, en Embla Wigum er með flesta fylgjendur, alls 1,6 milljónir manna,“ segir Brynhildur, sem var með „aðeins“ 200 þúsund fylgjendur í haust.

„Þá varð eitt myndbanda minna á TikTok gríðarlega vinsælt og hefur nú fengið 47 milljónir áhorfa. Í kjölfarið fékk ég æ fleiri fylgjendur og allt gekk upp, en ég veit ekki hvort ég lesi leikinn svona ótrúlega vel eða geri rétt; allavega er leiðin upp á við og aðeins örfá myndbönd sem hjálpuðu mér að verða svona stór.“

Brynhildur segir hálfgert sjokk að fá alla þessa athygli á svo skömmum tíma og því miður aldrei geta svarað öllum þeim fjölda sem senda henni skilaboð.

Kvartar ekki yfir frægðinni

Brynhildur segir óneitanlega undarlega tilfinningu að vera allt í einu ein af þeim stærstu á TikTok.

„Þetta er náttúrlega mjög skrýtin tilfinning, að hafa vakið svona mikla athygli á svo skömmum tíma og svolítið sjokk. Þetta er ógrynni fólks og alltaf mikil læti í símanum mínum. Ég er kannski í vinnunni að tjilla og endalaus straumur fólks að reyna að ná til mín og ég veit varla hvað ég á að gera. Ég kemst auðvitað aldrei yfir að svara öllum sem senda mér skilaboð eða komment á TikTok eða Instagram; það er ekki vinnandi vegur.“

Brynhildur er þó ekki ósátt við sitt nýja hlutskipti.

„Nei, sannarlega ekki því nú er ég komin með vettvang sem margir þrá að fá. Það er engu að síður undarleg upplifun að fólk taki orðið eftir manni á götum úti, ekki síst börn og unglingar sem vilja fá mynd og spjalla. Mér finnst það bara skemmtilegt áreiti þótt ég sé enn að venjast því og allir eru kurteisir og næs.“

Ég hef alltaf sagt að ef maður uppsker hatur á þessum vettvangi, þá er maður að gera eitthvað rétt. Ég veit að illa tungur stafa af öfund og það þýðir ekkert að hlusta á það.

Fjölskylda Brynhildar hefur gaman af og samgleðst henni vegna velgengninnar.

„Mömmu þykir fyndið að sjá krakkana nálgast mig á almannafæri en fólkið mitt þekkir mig best og veit að þetta á vel við mig. Ég var mikið á Instagram þegar ég var yngri og TikTok því eðlilegt framhald fyrir mig. Ég hef gaman af athyglinni og því að fá viðbrögð; annars færi maður ekki út í þetta.

Auðvitað fylgir þessu ákveðið álag og maður uppsker slatta af hatri, en maður getur ekki verið á samfélagsmiðlum nema maður geti tekið því. Ég hef alltaf sagt að ef maður uppsker hatur á þessum vettvangi, þá er maður að gera eitthvað rétt. Ég veit að illar tungur annarra stafa af öfund og það þýðir ekkert að hlusta á það. Það böggar mig hreint ekki neitt, en ég skil að margir taki slíkt nærri sér og þá er þetta ekki rétti bransinn fyrir það. Ég veit hver ég er og fyrir hvað ég stend, ég þekki muninn á réttu og röngu, og ég er sjálfsörugg, ekki síst á þessu sviði,“ segir Brynhildur Brá af festu.

Brynhildur segist hafa fengið það besta frá mömmu sinni og pabba, þar á meðal fagurmótað nefið sem vakið hefur athygli um allan heim. Hér er hún með fjölskylduhundinum Mosa.

Fór sextán ára að heiman

Brynhildur er dóttir Írisar Lindar Sævarsdóttur listakonu og Gunnlaugs Guðjónssonar, fjármálastjóra hjá Skógrækt ríkisins.

„Ég var sextán ára þegar ég flutti að heiman til að spila fótbolta með Þór KA á Akureyri. Ég held að það sé algengt að unglingar á landsbyggðinni séu tilbúnir að fara að heiman eftir 10. bekk og margir úr sveitum fara burt í framhaldsskóla. Það er góður skóli og víkkar sjóndeildarhringinn að komast í stærra samfélag. Mér fannst ég nógu fullorðin til að sjá um mig sjálf orðin sextán ára, en svo er alltaf æðislegt að koma aftur heim,“ segir Brynhildur, sem hefur síðan búið að heiman, fyrir utan ár í Kanada þegar hún fylgdi fjölskyldu sinni þangað þegar hún vildi prófa að búa í öðru landi.

„Þaðan fór ég heim til Íslands til að spila fótbolta á Selfossi, en eftir það fór ég til Fylkis í Árbænum og leik nú með meistaraflokki FH í Hafnarfirði. Æskudraumurinn snerist alltaf um fótbolta og ég byrjaði að æfa með Hetti á Egilsstöðum fimm ára. Þá var pabbi þjálfari liðsins og duglegur að taka aukaæfingar með mér. Ég er frekar gáfuð fótboltalega séð, teknísk og hröð og hlakka til sumarsins með FH, en meiddist á ökkla hjá þeim í fyrrasumar og náði ekki að klára tímabilið vegna þess,“ greinir Brynhildur frá, en hún spilar á kanti og miðju á fótboltavellinum.

„Dæmigerður dagur í lífi mínu er að vakna snemma, vinna að verkefnum á samfélagsmiðlum, fara til vinnu klukkan eitt og þaðan beint á fótboltaæfingu. Ég hef síðastliðið hálft annað ár unnið í frístundastarfi fyrir fatlaða hjá Hinu húsinu, sem er ósegjanlega gaman. Starfið er gefandi um leið og það er krefjandi og það er yndislegt að vinna með fötluðum. Þeir gefa manni mikið þótt við séum að vinna fyrir þau; viðhorf þeirra til lífsins er frískandi og hollt, og við eigum ótalmargt sameiginlegt; þeir sem eru fatlaðir og ekki fatlaðir. Við lítum á þau sem vini okkar, erum að leika okkur saman og hafa gaman af lífinu,“ segir Brynhildur, sem hlakkar til hvers dags í vinnunni.

Brynhildi þykir bara hrós að vera líkt við söngkonuna Ariönu Grande, enda ekki leiðum að líkjast þeirri fegurðardís.

Þykir sláandi lík Ariönu Grande

Brynhildur er á mála hjá umboðsfyrirtækinu Swipe Media sem heldur meðal annars utan um markaðsmál vinsælla áhrifavalda.

„Við erum með bækistöð í London þar sem Nökkvi Fjalar Orrason heldur utan um málin. Það munar miklu að vera úti því þar kynnist maður fleirum og stækkar tengslanetið ytra. Því fylgja fleiri tækifæri til að vinna með stærri fyrirtækjum, en það er auðvitað þægilegt að geta unnið hvar sem er í heiminum þegar kemur að samfélagsmiðlum,“ segir Brynhildur.

Hún segir starf áhrifavaldsins skapandi en tímafrekt, þótt það líti út fyrir að vera einfalt.

„Þetta er klárlega það sem ég vil gera í framtíðinni. Ég er hugmyndarík og ákvað að bíða með frekara nám til að gefa þessu tækifæri og er mjög spennt að sjá hvað gerist í framtíðinni. Upphaflega gerði ég myndböndin til gamans, dansaði eða skemmti mér með vinkonum, enda er ég frekar slök, fyndin og skemmtileg að upplagi, en upp á síðkastið hef ég hugsað meira um hvað ég vil standa fyrir á samfélagsmiðlum og hvernig ég get komið eigin persónuleika meira á framfæri svo að fylgjendur geti kynnst mér betur. Með því fær maður heilsteyptari fylgjendahóp.“

Ég er frekar slök, fyndin og skemmtileg að upplagi, en upp á síðkastið hef ég hugsað meira um hvað ég vil standa fyrir á samfélagsmiðlum og hvernig ég get komið eigin persónuleika meira á framfæri.

Brynhildi þykir svipa mjög til einnar stærstu stjörnu samtímans, söngkonunnar Ariönu Grande.

„Ég hef fengið að heyra að ég sé lík Ariönu Grande síðan ég flutti til Akureyrar sextán ára, en þar sem ég sést orðið svo víða í dag finnst mér stundum fyndið að geta gert efni sem fólk tengir við hana. Sjálf sé ég ekki þessi líkindi nema þegar ég mála mig á ákveðinn hátt, en ég tek þessu sem hrósi. Ariana er flott og ekkert að því að vera líkt við hana, bara gaman,“ segir Brynhildur og hlær.

Sjálf á hún engar sérstakar fyrirmyndir á meðal áhrifavalda en fylgdist lengst af með Emmu Chamberlain á YouTube.

„Í dag koma áhrifin alls staðar frá því það eru svo margir á samfélagsmiðlum. Það er erfitt að segja hvað þarf til að skara fram úr, því TikTok er svo stórt að hvað sem er getur slegið í gegn. Nái myndband miklu áhorfi veit maður að það virkar. Eins og Lil Curly sem gert hefur Carpool-myndbönd sem fólk elskar og heldur því við ásamt öðru. Þó vill maður ekki alltaf gera það sama og sitt í gæðum. Það skiptir líka máli að fylgjendur geti gengið að manni vísum og fundið það sem þeir leita eftir hjá manni. Því þarf persónuleiki minn að fá meira pláss og það sem ég vil koma á framfæri.“

Brynhildur hlakkar til nýársins og tækifæranna sem bíða handan við hornið, enda heimurinn allur undir.

Nýr kærasti og ný tækifæri

Brynhildur hefur útlitið með sér.

„Ég er með góð gen, þau mamma og pabbi eru bæði myndarfólk. Ég virðist hafa fengið það besta frá báðum en nefið mitt hefur fengið sína athygli á TikTok. Það er fullkomin blanda frá foreldrum mínum og sýnir að allt getur slegið í gegn eitt og sér,“ segir hún og skellir upp úr.

Brynhildur Brá er skapandi á mörgum sviðum.

„Ég fæ það frá mömmu að vera listakona. Ég mála myndir og sauma líka mikið. Hef í gegnum tíðina verið dugleg að kaupa gömul föt á nytjamörkuðum sem ég breyti og geri að nýjum. Ég gæti til dæmis vel hugsað mér að gera TikTok-myndbönd um málaralistina og koma áleiðis því umhverfissjónarmiði að nýta flíkur og gefa þeim nýtt líf,“ segir Brynhildur, spennt fyrir nýárinu.

„Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr þessu og árið 2022 verður mikilvægt ár. Þá kemur í ljós hvað ég mun gera og í augnablikinu lítur allt vel út. Það eru forréttindi að geta unnið við það sem maður elskar og ég leita eftir því, ef ekki í þessum, þá í öðrum framtíðardraumum. Ég ætlaði alltaf að læra sjúkraþjálfun en vil nú bíða og sjá hvað gerist í framhaldinu. Eftir því sem fólk verður stærra og þekktara á þessu sviði aukast möguleikar á alls kyns samstarfi, ferðalögum og tækifærum, og það er mikils virði þegar manns eigin vettvangur er orðinn svo stór. Þá vilja fleiri vinna með manni og koma til móts við hugmyndir manns. Tækifæri framtíðarinnar eru óendanleg og fullt sem ég vil gera.“

Í spilinu er nýr kærasti, Dani Koljanin, sem spilaði körfubolta með KR, og auðvitað áramótin, sem Brynhildur ætlar að fagna með stórfjölskyldunni á Egilsstöðum.

„Ég strengi engin nýársheit en hef einsett mér að verða enn betri og eiga í meira samstarfi. Lífið er yndislegt og mér finnst gaman að vera til. Ég er spennt að sjá hvað bíður mín á nýja árinu og hlakka til að sjá hvað verða vill.“

Fylgist með Brynhildi á Instagram og á TikTok.