Birgit Djupedal útskrifaðist nýlega sem tónskáld frá Listaháskólanum og hélt fjölbreytta tónleika í tilefni af því með eigin verkum í flutningi íslenskra tónlistarmanna, meðal annars úr Caputhópnum sem Guðni Franzson stjórnaði.

„Ég kem frá Bodö í Norður-Noregi, er alin upp þar en eftir menntaskólann fór ég til Þrándheims að læra tónlistarfræði og lauk BA-námi. Svo fór ég í kirkjutónlist í eitt ár og síðan kom ég hingað haustið 2016,“ upplýsir Birgit þar sem við sitjum og sötrum kaffi á Kjarvalsstöðum. Hún kveðst ætla að vera ár í viðbót á Íslandi. Mig langar að vita hvað dró hana hingað.

„Ég var að leita að mastersnámi í tónsmíðum. Langaði í eitthvað nýtt. Þá fann ég Listaháskólann hér. Ég hafði komið til Íslands einu sinni áður, þegar ég var þrettán ára, þá var ég á kórahátíð í Hafnarfirði. Mér fannst Ísland heillandi og langaði að koma aftur. Sótti um skólann og var svo heppin að vera tekin inn. Það er mjög skapandi andi í Listaháskólanum, þar spyrja kennararnir hvað nemendurnir vilji gera, í stað þess að troða einhverju upp á þá. Þeir hjálpa öllum við að finna út það besta fyrir hvern og einn. Mér finnst svo skemmtilegt að gera alls konar, semja, stjórna, spila, flytja, syngja, kenna. Því passaði mér mjög vel að vera í þessum skóla.“

Það er eins og við Birgit höfum alltaf þekkst. Þegar ég furða mig á færni hennar í íslensku brosir hún og kveðst hafa haft góða kennara sem séu vinir hennar og kennarar. „Ég fór í einn íslenskukúrs en eiginlega var best að gera eins og núna, drekka kaffi og spjalla! Svo á ég líka íslenskan kærasta og það hjálpar mikið. Hróðmar Sigurbjörnsson er búinn að vera aðalleiðbeinandi minn í náminu og hann er frábær. Að tala um tónlist er erfitt, sérstaklega á framandi tungumáli, en hann vildi alltaf að við töluðum íslensku og það virkaði.“

Finnur þú fyrir skyldleika Norðmanna og Íslendinga?

„Já, þjóðirnar eru mjög svipaðar. Allir hafa tekið mér vel hér. Það var pínu vandamál í byrjun að ef ég ætlaði að panta mér kaffi á kaffihúsi og reyndi að segja „einn kaffi takk“ á íslensku þá skipti fólk strax yfir í ensku, þegar það heyrði að ég var ekki Íslendingur. Það fannst mér leiðinlegt. Ég var að reyna að tala íslensku.“

Nú verð ég að vita meira um kærastann og hvar hún kynntist honum. „Við kynntumst í Háskólakórnum. Hann heitir Óskar og er Völundarson, sagnfræðingur að mennt og vinnur við að búa til bækur fyrir blinda og sjónskerta. Ég var mjög heppin að hitta hann, hann er alveg frábær og fjölskyldan hans hefur tekið mér afar vel. Það er svo dýrmætt og áhugavert að kynnast fjölskyldu í öðru landi, það er öðruvísi en að vera alltaf innan skólasamfélagsins og á kaffihúsum. Við Óskar erum bæði hætt í Háskólakórnum, nú er ég í kór Breiðholtskirkju og hann í Fílharmóníu.“

Birgit þykir íslensk kóramenning áhugaverð. „Í Noregi syngja 5% íbúanna í kór en hér á landi eru þeir 10%. Þið eigið líka mikið af flottri kórtónlist og Íslendingar eru duglegir að semja ný verk.“

Sjálf er Birgit iðin við tónsmíðar og henni og fleiri kynsystrum ofbýður hversu fá lög eru eftir konur í norsku sálmabókinni. Því vinna þær að útgáfu nýrrar bókar með 50 lögum og á tónlistarhátíðinni Sælugauk í Þingvallakirkju í kvöld munu gestir fá að heyra valda sálma við lög eftir Birgit. Hún segir jafnrétti kynjanna meira hér en í Noregi þegar kemur að tónlist. Þar séu karlar valdir í allt. Hér séu konur sem fást við tónsmíðar metnar að verðleikum og það finnst henni mjög mikilvægt.

En er eitthvað sérstakt sem einkennir hennar tónlist?

„Það er erfitt fyrir mig að meta. En ég hugsa oft til þeirra sem ætla að flytja tónlistina, ekki bara hlustenda. Ég var alltaf að læra á píanó og veit hvernig það er að nota endalausan tíma í að æfa eitthvað sem manni þykir ekki skemmtilegt. Því hef ég að markmiði að fólk finni eitthvað áhugavert í tónlistinni minni og skemmti sér við að flytja hana, ég er sannfærð um að það skilar sér til áheyrenda.“

Birgit ólst upp við klassíska tónlist og á móður sem er tónlistarkennari í menntaskóla. Nú langar hana sjálfa að kenna næsta vetur. „Ég held það sé mjög áhugavert að vera tónmenntakennari. Ég er búin að vera í háskóla í fimm ár og hugsa um flókna hluti, því væri gaman að vera innan um krakka. Það mundi færa mig nær grunninum aftur. Mér þætti líka áhugavert að stjórna kór. Mér dettur margt í hug og ef hugmynd gengur ekki upp gríp ég þá næstu enda hef ég allt líf mitt fyrir framan mig.“

Birgit fékk styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna í fyrrasumar og vann þá með Spilmönnum ríkínís, sveit sem leikur á eldgömul hljóðfæri. „Ég fór að skoða þjóðlög og búa til lög við gamla texta, undir norskum og íslenskum áhrifum. Er enn að vinna með Spilmönnum ríkínís, var einmitt með þeim á Akureyri núna nýlega á þjóðlistahátíðinni Vöku, er búin að læra mikið af þeim. Maður getur ekki gert neitt mjög flókið með þessi gömlu hljóðfæri svo það þarf að hugsa hlutina öðruvísi en þegar maður er með klassísk hljóðfæri í höndunum, píanó eða strengjasveit. Svo fékk ég áhuga á norsku hljóðfæri sem heitir langeleik og er svipað langspili. Ég veit ekki um aðra á Íslandi sem spila á langeleik, svo ég segi hin kotrosknasta að ég sé besti langeleikspilari Íslands!“

Bókasafn Norræna hússins hefur verið vinnustaður Birgit um helgar frá því í febrúar og hún kveðst verða þar eitthvað í sumar. „Það er mjög næs, þar get ég talað blandinavísku,“ segir hún hlæjandi. „Svo ætla ég til Noregs og taka Óskar með mér og vera í mánuð í sumarhúsi sem fjölskyldan á nærri Ósló.“ Ekki verður hún samt aðgerðalaus því Breiðholtskirkjukórinn er með afmælistónleika á dagskránni í haust og hún ætlar að semja nýtt verk fyrir hann. „Örn Magnússon stjórnar kórnum, hann er líka í Spilmönnum ríkínís. Svona tengist allt á Íslandi,“ segir hún kankvís.

Búin að velja texta?

„Já, ég sem við efni úr Flateyjarbók, sögu um dýrðlinginn Sunnevu sem var írsk en varð að flýja heimalandið því þar stjórnaði maður sem vildi gifta hana og ná af henni landi. Hún flúði með fólkið sitt í bát út á haf og kom til Noregs en var illa tekið. Þetta er því miður að gerast enn þá við Miðjarðarhafið, fólk fer upp í báta og siglir eitthvert í von um betra líf, ég er því að tengja þessa gömlu sögu við daginn í dag. Hingað til hef ég samið lög við ljóð en nú þarf að koma þessum gamla bókmálstexta sem er á forníslensku í ljóðform.“

Ekki býst Birgit við að setjast að í Bodö þó þar sé nýtt og glæsilegt menningarhús risið. Nágrenni Ósló heillar hana meira. Hún saknar skógarins í Noregi en kveðst líka tengjast hafinu sterkt. Eitt af því góða við Reykjavík er að hún stendur við hafið, ég kann svo vel við lyktina af því.“