Agnes lærði vöruhönnun í Iðnskólanum og tískumarkaðsfræði í Barcelona. Hún hefur hannað vörur undir merkjunum Aggystar og Agnes Mar.

„Ég hef hannað töskur undir merkinu Aggystar. Ég prentaði myndir af Íslandi í neonlitum á fartölvutöskur og buddur. Töskurnar voru aðallega hugsaðar fyrir ferðamannamarkaðinn. En svo hannaði ég bakpoka úr pallíettum og satíni undir Agnes Mar-merkinu mínu. Ég er mest í að gera vörur sem skera sig svolítið úr. Þetta eru ekki beint „mainstream“ vörur,“ segir Agnes, sem hefur líka hannað leðurhanska og leðuralpahúfur svo dæmi séu nefnd.

Agnes hefur alla tíð haft áhuga á hönnun FRETTABLADID/ERNIR

Það nýjasta úr smiðju Agnesar er litabók sem er væntanleg til sölu hjá Amazon í næstu viku. „Bókin er innblásin af því þegar ég bjó í Barcelona. Þetta eru eins konar „sugar skulls“ í bland við eitthvað íslenskt. Ég er til dæmis með þjóðarblómið okkar holtasóley, víkingahjálm og ægishjálm á hauskúpunum,“ segir Agnes. Hún tekur fram að litabókin sé ekki hugsuð sérstaklega fyrir börn heldur alla aldurshópa.

„Ég er búin að leggja mikla vinnu í bókina og er mjög stolt af henni. Ég er að bíða eftir fyrstu prufunni frá Amazon áður en ég gef samþykki mitt. Bókin fer svo bara í sölu í næstu viku. Ég er líka að tala við íslenska útgefendur upp á að selja hana hér heima. En annars er hægt að kaupa hana á Amazon og fá hana senda til Íslands.“

Eftir að hafa unnið sem stjórnandi hjá H&M ákvað Agnes að einbeita sér að sinni eigin hönnun.?FRETTABLADID/ERNIR

Agnes segist hafa haft áhuga á hönnun alla tíð og byrjað að teikna þegar hún var barn. Hönnunin hefur þó alltaf verið aukavinna þar sem Agnes var í fullri vinnu sem deildarstjóri hjá H&M á Íslandi og þar áður bjó hún úti og var í háskólanámi.

„Ég hef verið að taka hönnunina með í skorpum. Þetta hefur eiginlega bara verið aukavinna með lífinu og öllu sem því fylgir. En núna er ég bara að einbeita mér að hönnuninni.“

Agnes lærði, eins og áður segir, tískumarkaðsfræði í Barcelona. Hún segist hafa valið það nám til að blanda saman skapandi námi og fræðilegu.

Í litabókinni má finna holtasóley, víkingahjálm og ægishjálm á hauskúpum

„Ég er með svona 50/50 heila. Maður getur ekki lært neitt hér heima sem er bæði skapandi og akademískt. Ef þú ferð í markaðsfræði þá er það bara markaðsfræði með áherslu á viðskipti. Mig langaði í nám sem væri skapandi líka. Þetta var fullkomið að því leyti,“ segir Agnes.

„Svo kom ég heim og fékk vinnu hjá H&M. Ég var með fyrstu stjórnendunum fyrir H&M Ísland. Það var mjög gaman. Ég þurfti að fara í þriggja mánaða þjálfun til útlanda, en það sem var mest spennandi við þetta var að við vorum að standsetja fyrir einn stærsta tískumógúl í heimi, á Íslandi. Það var gaman að vera með í því frá byrjun. Það var margt sem kom mér á óvart og margt sem ég lærði, þetta var góð reynsla. En ég ákvað svo að snúa mér eingöngu að mér og minni hönnun. Tíminn er bara núna.“

Verkið Bleeding currrency er ádeila á græðgi og bullandi neyslu.

Agnes segist vera með aðra bók í bígerð. „Hún er hugsuð fyrir börn, en ég vil ekki segja of mikið frá henni eins og er. Ég er líka að hanna listaverk sem heitir Bleeding Currency. Það eru hettupeysur og bolir með mynd af blæðandi krónu. Það verk er ádeila á græðgi almennt og bullandi neyslu. Bolirnir og peysurnar munu einnig fást á Amazon en bara í Bandaríkjunum og Bretlandi. Svo þar verður fólk með blæðandi krónur á sér,“ segir Agnes hlæjandi og bætir við að hún vonist til að hægt verði að selja fötin á Íslandi líka.

Mynd úr nýútkominni litabók.

En Agnes gerir fleira en að hanna föt og litabækur. Hún hefur samið tónlist og tók meðal annars þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins í fyrra. Hún samdi lagið Svaka stuð með frænda sínum og ákvað að syngja það sjálf í keppninni. Með henni voru söngkonurnar Stefanía Svavarsdóttir og Regína Lilja Magnúsdóttir. „Ég er mjög mikill Eurovision-nörd,“ segir Agnes. „Ég tróð mér eiginlega inn í atriðið mitt. Ég er ekki söngkona en ég ákvað að þarna væri eina tækifæri mitt til að vera uppi á sviði í glimmergalla og ég gerði það, ég er rosalega stolt af mér.“

Lagið er núna komið inn á Spotify í upprunalegri útgáfu þar sem Agnes syngur lagið sjálf. Þá er Agnes líka nýbúin að gefa annað lag út á Spotify sem heitir Walking on Lava sem hefur fengið ágætis viðtökur, sérstaklega í Bandaríkjunum.

„Ég hef ekkert sérstaklega verið að reyna að koma tónlistinni minni á framfæri. Tónlist er eina listformið sem ég er svolítið feimin við. Ég hef verið að semja tónlist í mörg ár, en alltaf verið svona skápasemjari. Ég hef aldrei haft trú á að það sem ég sem sé nógu gott, en samt kem ég því í framkvæmd,“ segir Agnes sem sannarlega situr ekki auðum höndum.

Hún segir að þegar hún fái hugmynd þá framkvæmi hún hana. Hún lætur ekkert stoppa sig. Spurð að því hvort það sé eitthvert listform sem hún hefur ekki spreytt sig á svarar hún hlæjandi: „Skóhönnun, en ætli það verði ekki bara næst.“